Morgunblaðið - 26.09.2006, Qupperneq 30

Morgunblaðið - 26.09.2006, Qupperneq 30
30 ÞRIÐJUDAGUR 26. SEPTEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ UMRÆÐAN TILEFNI þessara skrifa er grein eftir forstjóra Barnaverndarstofu, Braga Guðbrandsson, sem birtist í Morgunblaðinu 20. september sl. Í greininni veitist Bragi harkalega að Héraðs- dómi Reykjavíkur og þeirri tilhögun sem höfð hefur verið á skýrslutökum barna þar vegna rannsóknar á ætluðum kynferð- isbrotum gagnvart þeim. Síðastliðin fjögur ár hefur þróast ákveðið verklag í Héraðsdómi Reykjavíkur á þann veg að til aðstoðar við skýrslutökur barna hafa verið fengnir sér- þjálfaðir og þaul- reyndir rannsókn- arlögreglumenn við embætti lögreglustjór- ans í Reykjavík. Er reynsla af störfum þeirra mjög góð. For- stjóri Barnavernd- arstofu kýs hins vegar að gera lítið úr hæfni þeirra, kunnáttu og reynslu. Ekki veit ég til þess að gerður hafi verið samanburður á gæðum þeirra skýrslugjafa, sem fram hafa farið annars vegar í Héraðsdómi Reykja- víkur og hins vegar Barnahúsi, en slíkan samanburð óttast ég ekki og myndi þvert á móti fagna því að hann færi fram. Skal fullyrt að reykvísk börn búa síst við lakara réttaröryggi en börn annars staðar á landinu hvað varðar skýrslutökur í kynferðisbrotamálum. Í grein sinni kýs forstjóri Barn- verndarstofu að gera að umtalsefni tvo dóma í kynferðisbrotamálum þar sem sýknað var af ákærum og skýrslutökur höfðu farið fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Vissu- lega var fundið að yfirheyrslum í umræddum málum en fyrir utan annmarka á yfirheyrslunum leiddu mörg önnur atriði til þess að sýknað var í málunum. Forstjórinn lætur þess þó að engu getið, að ætla verð- ur vísvitandi, enda þjónar það ekki málflutningi hans. Fyrst forstjórinn nefnir þessi mál til sögunnar skal þess getið að veigamiklir ann- markar á skýrslutöku barns í Barnahúsi leiddu til frávísunar kyn- ferðisbrotamáls frá héraðsdómi samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 10. mars 2005 í máli nr. 335/2004. Þá voru í dómi Hæstaréttar, upp- kveðnum 24. apríl 2002 í máli nr. 22/ 2002, gerðar alvarlegar at- hugasemdir við yfirheyrslu sem fram fór í Barnahúsi um nákvæmni við skýrslutöku, að spyrjandi hafi leitt skýrslugjöf um of og að ekki hafi verið spurt grundvallarspurn- ingar. Fleiri dóma mætti nefna þar sem fundið hefur verið að yfirheyrslum í Barna- húsi sem of langt mál yrði að fara út í. Reyndar er það svo að enginn er fullkominn og heldur ekki þeir sem starfa í Barnahúsi. Staðurinn, þar sem skýrslutaka yfir barni vegna rannsóknar kyn- ferðisbrotamáls fer fram, er í sjálfu sér ekki aðalatriði svo fremi að rétt sé staðið að málum, þ.á m. að að- staðan sé góð, und- irbúningur sé vand- aður, bæði gagnvart barninu og öðrum sem að henni koma, og að faglegra vinnubragða sé gætt við sjálfa skýrslutökuna. Hins vegar verður engan veginn fram hjá því horft að samkvæmt 7. gr. laga um meðferð opinberra mála eiga þinghöld að fara fram í dómsölum ef kostur er. Frá því eru gerðar undantekningar og eiga engar þeirra við skýrslutök- ur fyrir dómi í Barnahúsi. Reyndar er það svo að engin lög eru til um Barnahús og því ekkert í lögum um að heimilt sé að taka skýrslur af börnum þar fyrir dómi. Hefur lög- gjafinn ekki séð ástæðu til að setja lög þar að lútandi. Það má hins vegar gagnrýna með gildum rökum, burtséð frá þeim lagaákvæðum sem fyrr var getið, að umræddar skýrslutökur fari fram í Barnahúsi. Sú stofnun er rekin á vegum barnaverndaryfirvalda en hlutverk þeirra er að gæta hags- muna barna og stuðla að velferð þeirra. Um það er vitaskuld gott eitt að segja. Af augljósum ástæðum er það aftur á móti ekki í verkahring barnaverndaryfirvalda að rannsaka sakamál. Í Barnahúsi fara í senn fram könnunar- og stuðningsviðtöl við börn vegna ætlaðra kynferð- isbrota og yfirheyrslur í sakamálum sem tveir starfsmenn Barnahúss annast jöfnum höndum. Rekast þessi hlutverk starfsmannanna, þ.e. meðferðarhlutverk annars vegar og rannsóknarhlutverk hins vegar, því hvort á annars horn. Skiptir ekki máli þótt annar starfsmaðurinn hafi með viðtöl við barn að gera og hinn skýrslutöku í sakamáli. Má því halda fram með fullum rétti að út frá hlutlægum mælikvarða fái það ekki samræmst sjónarmiðum um réttláta málsmeðferð að yf- irheyrslur barna í sakamálum séu í höndum starfsmanna barnavernd- aryfirvalda. Skal þess getið að til meðferðar er í Mannréttinda- dómstól Evrópu kæra á hendur ís- lenska ríkinu vegna yfirheyrslu barns í Barnahúsi þar sem m.a. er byggt á þeim rökum sem að framan greinir. Engu skal um það spáð hver niðurstaðan komi til með að verða í því máli en verði kröfur kær- anda teknar til greina mun það hafa afdrifaríkar afleiðingar í för með sér. Héraðsdómur Reykjavíkur á ekki í neinu stríði við Barnahús heldur er dómstóllinn að rækja lögboðið hlut- verk sitt. Við skýrslutökur af börn- um í sérútbúnu yfirheyrsluherbergi dómsins er í hvívetna gætt að hags- munum barnanna, leitast við að láta þeim líða eins vel og unnt er við þessar erfiðu aðstæður og fá þau til að tjá sig óþvingað þannig að sann- leikurinn komi fram. Þá hefur verið lögð áhersla á að yfirheyrsla fari fram innan viku frá því beiðni um hana berst. Regluleg upphlaup for- stjóra Barnaverndarstofu eru því algjörlega tilefnislaus og til þess eins fallin að efna að ástæðulausu til ófriðar í samfélaginu. Telji forstjór- inn slíkan málflutning, sem hann hefur viðhaft, vera „það sem barni er fyrir bestu“ hefur hann misskilið hlutverk sitt. Þjónar málflutningur hans eingöngu sérhagsmunum Barnahúss sem stofnunar og er það tilefni yfirskriftar greinar þessarar. Í Héraðsdómi Reykjavíkur hefur verið staðið eins vel að skýrslutök- um og kostur er. Það geta staðfest þeir, sem að þessum málum hafa komið, hvort sem um er að ræða ákærendur, verjendur, rétt- argæslumenn brotaþola eða starfs- menn barnaverndaryfirvalda. Er ekki annað vitað en að almenn ánægja ríki meðal þessara fagaðila með framkvæmd mála í Héraðs- dómi Reykjavíkur. Það sem Barnahúsi er fyrir bestu » Þjónar mál-flutningur hans eingöngu sérhagsmunum Barnahúss sem stofnunar og er það tilefni yf- irskriftar grein- ar þessarar. Helgi I. Jónsson Höfundur er dómstjóri í Héraðsdómi Reykjavíkur. Helgi I. Jónsson svarar grein forstjóra Barnaverndarstofu ÉG ÆTLA ekki að vera með nein leiðindi en mér bara blöskrar þau vinnubrögð sem mér hafa verið sýnd af tollvörðum, eða tollverði. Þannig er að ég bý í Iowa City og fór til Íslands hinn 3. september síð- astliðinn og kom aftur hingað 13. september. Það var skoðað í töskuna mína á leiðinni út í Citer Rapit, bara gott mál og eðlilegt, en ég sá hvernig um- gengnin var á innihaldi töskunnar, bara eins og loftárás, allt bara ein- hvern veginn látið niður aftur, og ég hafði á orði við konuna mína að svona gengju mínir tollverðir ekki um! Þegar ég kom aftur hingað frá Ís- landi var mér nóg boðið. Allt út um allt og mér hafði verið gefin sulta og hún var í öllum fötum og á öllu og þarna í sakleysi mínu hafði ég pakk- að listaveki eftir Ingu Bjarna gler- listakonu, sem hún gaf mér í brúð- argjöf. Þau geta hatað mig, en Inga á ekki skilið að þau brjóti hennar verk! Hvernig á að skilja svona vinnubrögð? „Heddfóninn“ minn brotinn, listaverkið brotið, mynda- vélin öll í sultu undir þungum kassa sem innihélt 80 ferðabæklinga fá Guðmundi Jónassyni, svo hann var þungur. Heldur þú að ég hafi látið hann vera ofan á glerlistaverki? Auðvitað ekki, ég reyndi eins og ég gat að vernda þetta, og myndavélin var til hliðar, ekki undir kassanum, ekki á milli kassans og glersins. Svona myndavél kostar 30 þúsund, slapp að vísu, en það gat farið á ann- an veg. Ég er mjög hrifinn af því að það sé leitað og skoðað í farangurinn minn og annarra, en þetta er of langt gengið í dónaskapnum og fyrirlitn- ingunni. Hvað hef ég svo sem gert þessu fólki? Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skoðað er í töskuna mína, ég hef bara fundið miðann og veit það þannig. Ég ferðast mikið og hef fengið margs konar meðferð á töskunni og marga tollmiða, en hef aldrei fengið aðra eins útreið. Ég varð svo reiður að ég setti allt í þvott en tók enga mynd af töskunni, en ég tók eina af brotunum, sem ég á eftir að láta inn í albúmið mitt. Ég veit ekki hvert ég á að senda þetta, en finnst að það þurfi að koma fram. Virðingarfyllst, GUÐJÓN JÓNSSON, 154 Bon Aire, Iowa City, Bandaríkjunum. Hvað mega tollverðir ganga illa um farangur? Frá Guðjóni Jónssyni: Bréf til blaðsins Morgunblaðið Hádegismóum 2, 110 Reykjavík  Bréf til blaðsins | mbl.is OFT vill það gleymast í veruleika daglegra grimmdarverka gegn fólki víða um heim að hvorki minni né fá- tíðari brot eru framin gegn dýrum, þótt raddir þeirra séu okkur þöglar og þau fari því varhluta af samúð okk- ar. Sennilega verðum við aldrei á eitt sátt um hver réttindi dýra skuli vera innan mannlegs samfélags, en burt- séð frá viðhorfum fólks til mataræðis eða feldskera þá trúi ég því að eigi hinn almenni borgari þess framast kost muni hann vilja standa í vegi fyr- ir grimmdarlegum dýratilraunum snyrtivörufyrirtækja víða um heim. Það er vel mögulegt að framleiða ágætissnyrtivörur án þess að saklaus dýr eyði til þess ævi sinni á rannsókn- arstofum í algerri firringu frá nátt- úrulegu umhverfi og líði þar hægan, kvalafullan dauðdaga. Það er einnig staðreynd að hvert og eitt okkar get- ur haft áhrif á þennan veruleika og breytt honum, og framlag okkar allra skiptir máli. Sífellt fleiri framleiðendur gera sér grein fyrir því að með aukinni meðvit- und hins almenna neytanda hefur myndast umtalsverður markaður fyr- ir dýravænar snyrtivörur. Fyrirtækið The Body Shop hefur t.a.m. löngum haft það fyrir sín helstu einkunnarorð að vera andsnúið dýratilraunum. Þegar ég gerði mér ferð í verslun þess í Kringlunni um daginn tók ég hins vegar eftir því að vörurnar virt- ust orðið skiptast í tvennt. Annars vegar voru gömlu, kunnuglegu lín- urnar, skreyttar vörumerkinu vel þekkta auk slagorðsins „against ani- mal testing“. Hins vegar voru nýju línurnar, og ég veitti því athygli að þær bera vörumerkið eilítið breytt. Það er auðþekkjanlegt, en merkj- anlega breytt, og á nýju vörunum er auk þess ekkert að finna um dýr, til- raunir né annað því tengt. Aðspurð kom afgreiðslustúlkan af fjöllum, en sagði að samkvæmt hennar bestu vit- und stundaði fyrirtækið ekki tilraunir á dýrum. Þegar heim kom leitaði ég upplýsinga á netinu, og viti menn: Í mars 2006 var The Body Shop keypt með manni og mús af risasamsteyp- unni L’Oreal/Nestlé. L’Oreal hefur alla tíð stundað tilraunir á dýrum og ekki er útlit fyrir að breytingar verði þar á. Nestlé er þar á ofan alræmt skítafyrirtæki sem ber m.a. ábyrgð á umfangsmikilli aukningu ung- barnadauða í þriðja heiminum, eftir áróðursherferðir byggðar á hollustu þurrmjólkurdufts fyrirtækisins um- fram móðurmjólk, sem að sjálfsögðu er bull og olli miklum skaða. The Body Shop er sem sagt gengið frá hugsjóninni, og mér finnst ég óneitanlega illa svikin af þeim sem neytandi. Jafnast þetta á við þá síð- búnu uppgötvun mína að Converse hafi verið í eigu þrælapískaranna hjá Nike síðan 2003 … missti ég kannski af fréttatilkynningu til neytenda? Svo virðist sem ekki megi gera ráð fyrir þjáningarfríum vörum nema það standi á þeim með stóru letri, og þá er alltaf til í dæminu að öðru máli gegni um allar aðrar vörur sama fyrirtækis. Ég vil ekki versla við fyrirtæki sem beitir ofbeldi af einhverju tagi, á mönnum eða dýrum, á einhverju stigi framleiðslunnar, því síður þegar við- komandi fyrirtæki reynir að færa sér samvisku mína og annarra í nyt með misvísandi markaðssetningu og fjár- magnar eftir sem áður grimmdarlegar tilraunir sínar með peningunum okk- ar. The Body Shop hefur hér með misst æru sína fyrir augliti mínu, án nokkurrar vonar um endurreisn. Verum meðvituð um illa meðferð á dýrum sem stöðugt viðgengst, ávexti hennar má sjá allt í kringum okkur. Þau þurfa á samvisku okkar að halda, enda ófær um að tala máli sínu sjálf. Við erum öll neytendur, höfum gríð- arlegt vald sem slíkir og getum beitt því í sífellu í gegnum daglega neyslu okkar, en aðeins ef við erum meðvituð um hryllinginn sem legið getur á bak við hverja framleidda vöru. Ég mæli með síðunum www.peta.org og www.caringconsumer.com, en þar er m.a. að finna lista yfir fyrirtæki sem versla má við með góðri samvisku og önnur sem ber að sniðganga. Þegar við gerum okkur grein fyrir valinu er vald neytandans okkar. Látum ekki misnota okkur; verum meðvituð. ERLA ELÍASDÓTTIR Baldursgötu 30, Reykjavík. Um réttindi dýra og svik við neytendur Frá Erlu Elíasdóttur:

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.