Morgunblaðið - 26.09.2006, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 26.09.2006, Blaðsíða 37
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 26. SEPTEMBER 2006 37 Þegar hugsað er til baka rifjast upp að við hjónin höfum aldrei farið í hestaferð án Siggu og Magga. Þær verða skrýtnar hestaferðirnar án Magga í framtíðinni. Hann var svo stór hluti af ferðunum og af okkar hestamennsku. Enginn kemur í stað Magga þar. Þau Sigga og Maggi fengu jafnan sérherbergi í ferðunum. Ekki vegna þess að þau væru svo frek. Öðru nær, heldur svo Maggi héldi ekki vöku fyr- ir hinum með hrotum. Ekki var laust við að eilítillar öfundar gætti stundum hjá sumum okkar af hrotunum og herberginu. Þegar gleðin tók völdin var Maggi fyrstur til að hefja upp sína háu raust og söng með tilþrifum eins og honum var einum lagið. Hann varð aldrei uppiskroppa með lög og texta enda kunni hann þau ótalmörg. Hann lét draum rætast með hjálp Siggu sinnar sem gaf honum í afmæl- isgjöf nám í Söngskólanum fyrir tveimur árum, þar naut hann sín og fékk útrás í því sem honum þótti skemmtilegast – að syngja með til- þrifum. Öll sumur áður en við fluttum í sveitina vorum við saman með sum- arbeit. Fyrst í Halakoti þar sem þau voru með lítinn kofa, og við með hjól- hýsið okkar. Það var oft glatt á South- fork eins og vinirnir kölluðu staðinn. Síðar í Landeyjunum með öðrum góð- um vinum. Þá voru þau búin að kaupa lítið hjólhýsi sem ég stríddi þeim oft á. Maggi var svo stór en hjólhýsið agn- arlítið. Í Ásahreppnum lukum við hjólhýsabúskapnum hjá vinum okkar. Við fundum svo okkar sælureiti í sveitinni. Þau ári á undan okkur. Al- sæl, eins og Maggi hefði alltaf verið í sveitinni. Hann var svo stoltur af því að vera „bóndinn á Hallanda“. Sveita- maður fram í fingurgóma og naut þess að taka á móti gestum. Græja pottinn, grilla, lýsa útsýninu og veðr- inu sem var hvergi fallegra og betra en á Hallanda. Og hvergi var heldur fallegra en á Hallanda. Hann hlakkaði til að geta hætt að vinna og einbeitt sér að sveitinni sinni. Stoltur var hann af drengjunum sínum þremur og lagði áherslu á að þeir menntuðu sig. Sem þeir og gerðu. Hann var glaður og hreykinn af Óla í handboltanum með FH. Svo ekki sé talað um barnabörnin tvö. Hann fékk nafna á afmælisdaginn sinn sem aldrei fær að kynnast Magga afa. Enda einstaklega barn- góður og laðaði að sér börn á öllum aldri. Hlýjan og gæskan fór ekki fram hjá smáfólkinu. Þau fundu hlýjuna sem streymdi frá honum. Maggi var einstaklega mikill til- finningamaður, óspar á faðmlög og kossa. Hann var alltaf hlýr stóri faðm- urinn hans í hvert skipti sem við hitt- umst – faðmur sem var engum öðrum líkur. Ósjaldan göntuðust „Krabbarn- ir“, í ferningunni, með hvort væri meiri krabbi. Það fór ekkert á milli mála að þar á milli ríkti mikill skiln- ingur. Maggi skynjaði líðan svilkonu sinnar og öfugt. Á milli Krabbanna ríkti gagnkvæm virðing og það var ekki skilið í ósætti. Maggi og Sigga voru búin að vera saman í „milljón“ ár, sögðum við stundum. Byggja nokkur hús eða vinna að einhverju sem kæmi þeim til góða. En þau voru ólík. Sigga orku- mikil og röggsöm, vildi drífa hlutina af. Maggi rólegri, þurfti taka sinn tíma í ákvarðanirnar skoða hlutina vel. Vega og meta áður hafist var handa, en hann var alltaf sáttur í lok- in. Hann fylgdi Siggu í einu og öllu enda voru þau aldrei nefnd nema bæði í einu – Sigg’ og Maggi. Það verður skrýtin tilveran án Magga – Magga sem öllum þótti svo undurvænt um. Hann var stór hluti af lífi svo margra. Sigga var honum allt, hann elskaði hana svo óendanlega mikið. Þau voru eitt. Elsku Sigga, okkar besta vinkona, mágkona og elskuleg systir. Óli, Maggi, Ingunn, Jónatan, Benjamín Magnús, Sigurjón og Vigdís. Það er erfitt að setja sig í ykkar spor á stundu sem þessari. Þið hafið misst svo mikið. Megi algóður Guð styrkja ykkur og leiða í gegn um þessa erfiðu tíma. Foreldrum, systkinum og öðr- um aðstandendum vottum við okkar dýpstu samúð. María Davíðsdóttir og Hörður Harðarson á Kríumýri. Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur hug þinn og þú munt sjá að þú grætur vegna þess sem var gleði þín. (Kahlil Gibran) Við grátum nú þann sem áður var gleði okkar. Maggi frændi. Hann var stór og kraftmikill íslenskur karlmaður. Um leið var hann mikil tilfinningavera, með eindæmum hjartahlýr og ávallt til staðar með útbreiddan faðminn. Faðm sem gat tekið utan um okkur öll í einu. Hann naut þess að vera í góðra vina hópi, borða góðan mat og drekka (mis)gott rauðvín. Einfaldlega njóta þess að vera saman og njóta líð- andi stundar – eitthvað sem hann kunni svo sannarlega. Hann var Ís- lendingur út í gegn. Hestamaður, höfðingi og söngmaður –og í söngnum skákaði honum enginn þegar hann hitti á rétta tóninn. „Þú ert“ er dásamlegt lag en það hljómaði aldrei betur en þegar Maggi söng það – þá náðu sko tónarnir út í hvern einasta krók og kima. Hæfileikarnir voru jafn miklir á sviði ritlistarinnar. Okkur leið alltaf svo yndislega hjá Magga frænda og í kringum hann. Hann var fjölskyldumaður mikill, hafði mikinn áhuga á ættfræði og elskaði Siggu, strákana sína og fólkið sitt meira en allt. Við finnum ekki og munum aldrei finna nógu mörg eða nógu falleg orð til að lýsa honum – hann var einfaldlega besti föðurbróð- ir í heimi. Eftir lifa ómetanlegar minningar um ófáar gleðistundirnar með frænda, vini og jafningja. Eitt er það, sem aldrei gleymist, aldrei, það er minning þín. (Guðm. G. Halld.) Guðrún Edda Guðmundsdóttir, Hjalti Geir Guðmundsson, Erlendur Guðmundsson, Sigríður Theódóra Guðmunds- dóttir. Mig setti hljóðan er ég frétti að Magnús Magnússon, kær skólabróð- ir, hefði látist í umferðaslysi. Við kynntumst fyrir 51 ári í 10 ára bekk B í Lækjarskóla í Hafnarfirði. Kjarninn í þessum bekk hélt áfram í Flensborg og lauk gagnfræðaprófi eftir fjögurra ára veru í þeim skóla. Þessi ár í Lækj- arskóla og Flensborg eru ógleyman- leg. Ekki gerðum við okkur grein fyr- ir því þá að við byggðum grunninn að ævarandi vináttu og tryggð. Gagn- fræðingahópurinn hefur verið dug- legur að hittast og koma saman á fimm ára fresti og nú síðustu árin á hverju ári. Þar var Maggi alltaf fremstur í flokki. Við fórum báðir í Iðnskólann þar sem hann lærði pípu- lagningar. Er við byggðum okkar fyrstu hús hjálpaði hann mér og ég honum í mínu fagi. Þar var sannkall- aður fagmaður á ferð. Við spiluðum saman handbolta í FH á okkar yngi árum og náðum í marga Íslandsmeistaratitla. Við eign- uðumst báðir syni er við vorum 41 árs gamlir. Okkur fannst það skemmtileg tilviljun að synir okkar væru skóla- bræður og vinir og spiluðu einnig handbolta með FH. Í vor fór gagnfræðingahópurinn til Hafnar í Hornafirði til að hitta einn skólabróður sem þar býr. Maggi var að sjálfsögðu með í þeirri ferð. Hann kom okkur skólasystkinunum veru- lega á óvart er hann söng fyrir okkur á skemmtuninni kröftugt lag án und- irleiks af miklum glæsibrag. Þarna sýndi Maggi alveg nýja hlið á sér. Á leiðinni frá Höfn höfðum við Maggi góðan tíma til að ræða um lífið og tilveruna. Hvað við værum heppn- ir hvað þessi árgangur væri samhent- ur og þræðirnir sterkir sem við spunnum á skólaárunum. Ég fann það greinilega að hann naut þess að vera með sínum gömlu skólafélögum og rifja upp gamla tíma. Hann orðaði það þannig að þetta væri fjársjóður minninga sem hvergi væri hægt að kaupa og aðeins við hefðum aðgang að. Maggi átti góða fjölskyldu sem hann bar mikla umhyggju fyrir og það leyndi sér ekki í tali hans hve stoltur hann var af afkomendum sín- um. Maggi var ákveðinn í því að taka á móti okkur skólasystkinum sínum á næsta ári að Hallanda. Hann hlakkaði til að sýna okkur jörðina og ýmislegt sem átti að koma okkur á óvart í þeirri ferð. En því miður tekur Maggi ekki á móti okkur þar. Það verður á öðrum stað sem hann tekur á móti okkur síðar. Minning um heiðarlegan og sannan félaga mun lifa með okkur. Ef fleiri væru eins og Maggi þá væri heim- urinn betri. Við vottum ástvinum Magga okkar dýpstu samúð. F.h. gagnfræðingahópsins, Rúnar Pálsson. Magnús Magnússon lést af slysför- um fyrir nokkrum dögum síðan. Magnús var meðlimur í Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur. Hann hóf að leika badminton á unglingsár- um og tók þátt í félagsstörfum á veg- um TBR um árabil. Magnús var efni- legur unglingur í íþróttinni á sínum tíma og komst í meistaraflokk þar sem hann keppti um árabil. Hann var harður leikmaður og fylginn sér á velli, og ófáir urðu að láta í minni pok- ann fyrir honum. Magnús var krafta- lega vaxinn og sterkur eftir því. Hann fékk sökum þess viðurnefnið „Maggi smass“ í félagahópnum. Þetta er já- kvætt viðurnefni og höfðar til styrk- leikans, og hefur enginn annar verið kallaður þetta síðan í félaginu. Eftir því sem árin liðu breyttist íþróttaiðk- unin, og í stað þess að taka þátt í mót- um og keppnum varð badmintoní- þróttin fyrst og fremst líkamsrækt Magnúsar þar sem hann hitti vini og kunningja tvisvar í viku, ásamt því að þeir áttu góða stund við keppni og leik. Magnús var góður félagi og vinur vina sinna. Ekki var hann mikið fyrir að troða sér fram fyrir aðra með há- vaða og látum, en hann hafði sínar meiningar ef svo bar við. Það var gott að vera nálægt honum og hann var manna kátastur á góðri stundu. Magnús sat í stjórn Tennis- og bad- mintonfélags Reykjavíkur árin 1978– 1982 og um tíma var hann formaður mótanefndar félagins. Magnús var sæmdur gullmerki félagsins fyrir störf sín og keppni fyrir TBR. Fé- lagsmenn sakna hans nú sárt úr hópnum sínum og senda fjölskyldunni jafnframt sínar innilegustu samúðar- kveðjur. Tennis- og badmintonfélag Reykjavíkur Sigfús Ægir Árnason. Með örfáum orðum viljum við hjón kveðja hann Magnús vin okkar sem lést af slysförum laugardaginn 16. september. Þetta var hörmulegur endir á annars góðum degi þar sem vinahópurinn var á leið í réttardags- kjötsúpu á Bollastaði. Maggi var einn af þessum mönnum sem var svo gott að fá að kynnast, hann var í senn bæði glaðvær og dul- ur og bar ekki tilfinningar sínar á torg, hann var óvenju þróttlegur, maður hár en feikn þykkur undir hönd, svipur andlits var skúlptúr, rómurinn sérkennilega hljómmikill, hann var næmur á músík og hafði yndi af söng, söngröddin var djúp. Maggi var prúðmenni og afar hlýr í viðmóti. Hann verður minnisstæður þeim sem honum kynntust. Maggi skilur eftir sig margar góðar minn- ingar og verður hans sárt saknað. Fjársjóður hans er í börnunum hans. Maggi var á uppáhaldsgæðingi sínum Nasa þegar hann kvaddi, og nú fara þeir mikinn á fallegu tölti inn í aðra vídd. Vel er mætt til vinafundar vel sé þeim er sjá og skilja hvað vor eining mikils má sjáið upptök sælla stunda sjáið margra kraft og vilja steypast fram sem straum í á. Eitt er markið ein er leiðin. Ekkert skilur þeirra vegi er því saman ætla að ná. Þó oss skilji hábrýnd heiðin heyrum vér á hverjum degi hver í öðrum hjartað slá. (Höf. óþ.) Við þökkum Magga góða vináttu og hlýhug, blessuð sé minning hans. Við vottum Siggu og fjölskyldunni innilega samúð. Sigurbjörg og Sævar. Mér þótti alla tíð mjög vænt um hann Magga frænda. Við vorum elstu börn foreldra okkar, vorumjafnaldra og skólafélagar. Feður okkar voru bræður og báðir sérlega barngóðir. Við bjuggum í sama húsinu í mörg ár og æska okkar leið í leik og starfi með góðum foreldrum og systkinum. Það var gott að alast upp í suðurbæn- um í Hafnarfirði í þá daga, þá var holtið óbyggt og leiksvæðið stórt og gott. Ég kem til með að sakna hjarta- hlýjunnar sem þessi góði frændi minn sýndi mér alla tíð og ætla svo sann- arlega að ylja mér við allar minning- arnar sem við áttum saman. Hugur okkar allra er hjá ykkur elsku Sigga, Rúrý, Magnús og fjöl- skyldur. Innilegar samúðarkveðjur frá mér og mínu fólki. Ragnheiður frænka. Elskulegur faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, GUÐJÓN GUÐLAUGUR KRISTINSSON, Hringbraut 107, Reykjavík, er látinn. Útför hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna. Þökkum auðsýnda samúð og vinar- hug. Svanborg Birna Guðjónsdóttir, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, Guðjón Gunnarsson, Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir, Hildur Halldórsdóttir, Gyða Rut Guðjónsdóttir, Karen Birna Guðjónsdóttir, Bryndís Guðjónsdóttir og Halldór Andri Kristinsson. Ástkær móðir okkar, ANNA M. G. SUMARLIÐADÓTTIR, Borg í Garði, lést aðfaranótt föstudagsins 22. september. Halldór, Gylfi, Tómas og Kristjana Þorsteinsbörn. Elskulegur faðir okkar, tengdafaðir og afi, STEFÁN ÞÓRARINSSON húsgagnasmiður, Lindasíðu 4, Akureyri, lést á hjúkrunardeildinni Seli laugardaginn 23. september. Þórarinn B. Stefánsson, Livia K. Stefánsson, Valborg Stefánsdóttir, Valdimar Kristinsson, Kristinn Valdimarsson, Stefán Ingi Valdimarsson, Elínborg Ingunn Ólafsdóttir. Ástkær faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, HAFSTEINN JÓNSSON fyrrum rekstrarstjóri Vegagerðar ríkisins á Hornafirði, lést á hjúkrunarheimilinu Höfn í Hornafirði laugar- daginn 23. september. Bára Hafsteinsdóttir, Bjarni Stefánsson, Steinþór Hafsteinsson, Sólveig Sveinbjörnsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn. Elskulegur faðir okkar, tengdafaðir og afi, EINAR JÓHANNSSON vélstjóri, hjúkrunarheimilinu Vífilsstöðum, (áður til heimilis í Krummahólum), lést laugardaginn 23. september. Útförin fer fram frá Seljakirkju föstudaginn 29. september kl. 15.00. Birna Einarsdóttir, Hermann Ingólfsson, Jóhann Einarsson, Herdís Jakobsdóttir og barnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.