Morgunblaðið - 03.10.2006, Síða 6
6 ÞRIÐJUDAGUR 3. OKTÓBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Eftir Andra Karl
andri@mbl.is
SAUTJÁN ára ökumaður sem hafði
haft ökuréttindi í þrjá mánuði var
stöðvaður á 154 km hraða á Reykja-
nesbraut til móts við Smáralind á
sunnudagskvöld en þar er hámarks-
hraði 70 km. Ökumaðurinn ungi
reyndi að lifa sig inn í kappaksturs-
mynd sem hann hafði nýverið séð í
kvikmyndahúsi.
„Ég hallast að því að það sé ákveð-
inn hópur ungra ökumanna sem hef-
ur ekki áhuga á umferðaröryggis-
málum, lærir ekki af banaslysum og
lítur á ökutæki sem leiktæki,“ segir
Ágúst Mogensen, framkvæmda-
stjóri rannsóknarnefndar umferðar-
slysa, og bætir við: „Það er þá engin
nema lögreglan sem getur setið fyrir
þessum ökumönnum og tekið þá, af
og til.“
Rannsóknarnefndin hefur árlega
gert tillögur að bættri umferðar-
menningu og segir Ágúst að sam-
gönguráðuneytið muni taka mið af
þeim, sérstaklega hvað varðar unga
ökumenn, í endurskoðun sinni á um-
ferðarlöggjöfinni sem fer fram um
þessar mundir. „Okkar rannsóknir
hafa leitt í ljós að þetta er vandamál
sem miðast við unga ökumenn. Ég
fullyrði að það séu of margir ungir
ökumenn sem líta á bíla sína sem
leiktæki og það sýnir að þeir hafa
ekki þroska til að aka þessum öku-
tækjum. Það sem við höfum lagt
áherslu á varðandi ofsaaksturinn er
að meira bil verði á milli þeirra
sekta, og hærri refsing, en nú er, þar
sem farið er 15 til 20 km yfir há-
markshraða og síðan hraðaksturs
þar sem ekið er á tvöföldum há-
markshraða.“
Skelfilegur hraði
„Þessi hraði er skelfilegur og það
má ekkert út af bera þá verða afleið-
ingarnar hrikalegar,“ segir Sigurður
Helgason, sviðsstjóri hjá Umferðar-
stofu, og undrast hversu gríðarlega
hratt er ekið víða á stofnbrautum.
Hann tekur undir með blaðamanni
sem heyrt hefur af hræðslu öku-
manna í umferðinni sökum hraðakst-
urs. „Það er sérstaklega eldra fólk
sem hættir sér vart út í umferðina á
vissum tímum, s.s. seint á kvöldin, og
forðast þessar götur eins og Ártúns-
brekkuna og þessa hættulegustu
staði.“
Ungir ökumenn hafa ekki
áhuga á umferðaröryggi
Ljósmynd/Guðmundur Karl
Eldra fólk hættir sér vart út í umferðina á vissum tímum sökum hraðaksturs
Í HNOTSKURN
»Banaslys í umferðinni erukomin upp í 21 í ár en þau
voru 19 í fyrra.
»Samgönguráðuneytið erum að endurskoða löggjöf-
ina um umferðarmál.
»Meðal þess sem gert verð-ur er að hækka refsiramm-
ann vegna brota á umferð-
arlögum, s.s. sektir vegna
hraðaksturs.
NEMENDUR, kennarar og starfsfólk Menntaskólans í
Reykjavík minntust þess í gærmorgun að 1. október sl.
voru 160 ár liðin frá því að Sveinbjörn Egilsson rektor
setti Lærða skólann í fyrsta sinn, 1. október 1846.
Af því tilefni var gengið undir fána skólans að leiði
Sveinbjarnar í kirkjugarðinum við Suðurgötu. Þar var
lagður blómsveigur í þakklætisskyni fyrir merk störf
hans í þágu skólans og íslenskrar menningar.
Morgunblaðið/Sverrir
160 ára afmæli MR fagnað
LÖGREGLAN í Hafnarfirði hafði
afskipti af pilti á tvítugsaldri vegna
innbrota í tvígang um liðna helgi.
Skv. upplýsingum lögreglu má kalla
piltinn góðkunningja lögreglunnar
en hann á að baki sakarferil m.a.
vegna auðgunar- og fíkniefnabrota.
Pilturinn var tekinn á laugardags-
morgun við innbrot í vélsmiðju í
Hafnarfirði þar sem hann hafði sleg-
ið eign sinni á fartölvu. Honum var
sleppt á sunnudagsmorgun eftir yf-
irheyrslur en gripinn á nýjan leik
glóðvolgur á sunnudagskvöld, við
innbrot í heildverslun í bænum.
Pilturinn fékk að gista fanga-
geymslur lögreglunnar á nýjan leik
og að sögn lögreglu verður nú farið
fram á svonefnda síbrotagæslu yfir
piltinum, þar til mál hans verða tekin
fyrir hjá héraðsdómi, enda talið
ótækt að hann gangi laus til þess
eins að brjóta af sér á nýjan leik.
Ungur sí-
brotamað-
ur í haldi
Gripinn tvisvar við
innbrot sömu helgi
GUÐMUNDUR
Hallvarðsson, al-
þingismaður og
formaður sam-
göngunefndar Al-
þingis, hefur
ákveðið að láta af
þingmennsku í
lok þessa kjör-
tímabils. Guð-
mundur hefur
setið á Alþingi í
fjögur kjörtímabil, sem einn af þing-
mönnum Sjálfstæðisflokksins í
Reykjavík. „Mér finnst tími til kom-
inn að láta af þingmennsku eftir 16
ára setu á Alþingi enda hef ég komið
allmörgum málum, sem ég hef unnið
fyrir sjómannastéttina og eldri borg-
ara þessa lands, í góðan farveg,“ seg-
ir í yfirlýsingu frá Guðmundi.
Guðmundur hefur allt frá árinu
1972 sinnt málefnum sjómanna og
launþega. Guðmundur hefur setið í
fjölda nefnda og ráða fyrir Sjálf-
stæðisflokkinn og í mörgum þing-
nefndum. Hann var í borgar-
stjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins
1982–1994 og hafnarstjórn 1986–
1994.
Guðmundur hyggst alfarið snúa
sér að uppbyggingu og þjónustu
Hrafnistu, en hún starfrækir fjögur
heimili; í Reykjavík, Hafnarfirði, á
Vífilsstöðum og í Víðinesi.
Hættir á
Alþingi
Guðmundur
Hallvarðsson
LÖGREGLAN í Reykjavík handtók
karlmann á sextugsaldri grunaðan
um innbrot á þjónustustöð Olís við
Skúlagötu í Reykjavík aðfaranótt
mánudags.
Samkvæmt upplýsingum frá lög-
reglu hafði maðurinn brotið rúðu til
að komast inn en um leið slasað sig
og þurfti því að flytja hann á slysa-
deild Landspítala – háskólasjúkra-
húss til aðhlynningar. Maðurinn
hafði stolið sér sælgæti úr hillum
bensínstöðvarinnar og var með full-
an munn og vasa af góðgæti þegar
lögregluþjónar gómuðu hann.
Maðurinn var í afar annarlegu
ástandi og eftir að búið var að gera
að sárum hans fékk hann að gista
fangageymslur lögreglunnar. Hann
hefur alloft komist í kast við lögin á
liðnum árum og að sögn lögreglu
verður reynt að finna úrræði við
vanda hans.
Braust inn
til að stela
sér sælgæti
♦♦♦
Eftir Silju Björk Huldudóttur
silja@mbl.is
ÓLAFUR F. Magnússon, borgar-
fulltrúi F-listans í Reykjavík, hyggst
á borgarstjórnarfundi í dag flytja til-
lögur þess efnis að borgarstjórn
Reykjavíkur beini þeim tilmælum til
stjórnar Landsvirkjunar að há-
markshæð vatnsborðs í Hálslóni
verði lækkuð um 20 metra úr 625 m
yfir sjó í 605 m, til að auka öryggi
mannvirkja, draga úr hættu á stíflu-
rofi og minnka umhverfisáhrif Kára-
hnjúkavirkjunar.
„Með allri virðingu fyrir málamiðl-
unum, þá teljum við að allar róttækar
breytingar á þessum mannvirkjum
séu ekki raunhæfar, því að tími slíkra
málamiðlana er einfaldlega liðinn.
Tími málamiðlana fór fram áður en
við hófum framkvæmdir,“ segir Sig-
urður Arnalds, talsmaður Kára-
hnjúkavirkjunar. Bendir hann á að
mannvirkin að Kárahnjúkum sem og
allar framkvæmdir þar hafi tekið mið
af ákveðnum forsendum. „Allar aðrar
hugmyndir myndu því kalla á umtals-
verðar og kostnaðarsamar breyting-
ar,“ segir Sigurður.
Leggja til að 20 ferkílómetra
grónu svæði verði þyrmt
Í greinargerð með tillögu borgar-
fulltrúa F-lista kemur fram að með
því að hleypa hægt í lónið og lækka
hámarkshæð þess megi minnka álag
á bergið við stíflurnar, minnka líkur á
gliðnun í sprungum og draga úr
hættu á stíflurofi.
Einnig kemur í greinargerðinni
fram að við lækkun lónshæðar í 605
metra muni flatarmál Hálslóns
minnka úr 58 í 38 ferkílómetra eða
um 35%. „Þannig er þyrmt 20 ferkíló-
metra svæði sem er að miklu leyti
gróið land og dregið verulega úr
hættu á áfoki og uppblæstri. Auk
þess myndi lækkun lónshæðar Háls-
lóns tryggja farleiðir hreindýra milli
Kringilsárrana og Vesturöræfa,
draga verulega úr áhrifum í friðland-
inu á Kringilsárrana, þyrma náttúru-
fyrirbærum á borð við austustu töðu-
hraukana og Töfrafoss og bjarga
miklu gróðurlendi beggja vegna
Jöklu,“ eins og segir í greinargerð
með tillögunni.
Jafnframt er bent á að við fyrr-
greinda breytingu myndi lónrýmd
minnka úr 2.088 gígalítrum í 1.177
gígalítra eða um 44%. „Þrátt fyrir
þessa miklu minnkun á lónrýmd
myndi orkugeta að hámarki minnka
um 26%. Líkur benda til að orkuget-
an muni þó minnka umtalsvert
minna.“ Tekið er fram að með tillög-
unni vilji F-listinn láta á það reyna
hvort unnt sé að halda uppi nægilegri
orkuframleiðslu til virkjunarinnar
með minni lónshæð.
Skert orkugeta gæti teflt
arðsemi virkjunar í tvísýnu
Aðspurður segir Sigurður ljóst að
öll skert orkugeta hefði áhrif á arð-
semi Kárahnjúkavirkjunar. „Öll
skert orkugeta virkjunarinnar skerð-
ir tekjuhliðina stórlega og þar með er
arðsemin af þessari framkvæmd ekki
lengur ásættanleg.“ Þegar gagnrýn-
in á öryggisþáttinn er borin undir
Sigurð segist hann engan veginn geta
fallist á það að öryggi stíflna Kára-
hnjúkavirkjunar sé ekki ásættanlegt.
„Þetta eru traust mannvirki og það
er algjör misskilningur að öryggi
þeirra sé á einhvern hátt ábótavant.“
Vilja 20 metra lækkun
Sigurður Arnalds segir tíma málamiðlana um Kárahnjúkavirkjun liðinn
VALGERÐUR
Bjarnadóttir,
sviðsstjóri hjá
Landspítala – há-
skólasjúkrahúsi,
hefur ákveðið að
gefa kost á sér í
þriðja til fimmta
sæti í prófkjöri
Samfylkingarinn-
ar í Reykjavík
fyrir alþingis-
kosningar. Hún nefnir lífeyrismál,
málefni eldri borgara og skattamál
sem þau málefni sem hún vill takast
á við komist hún á þing.
Valgerður var búsett í Brussel í 15
ár og starfaði hún sem skrifstofu-
stjóri hjá EFTA frá 1993–2001.
Frá árinu 2001 var Valgerður
framkvæmdastjóri fyrirtækis sem
hét Sjúkrahúsapótekið ehf. Fyrir-
tækið var innlimað í LSH 2003. Í dag
starfar hún sem sviðsstjóri á inn-
kaupa- og vörustjórnunarsviði LSH.
Býður sig í
3. til 5. sæti
Valgerður
Bjarnadóttir
♦♦♦