Morgunblaðið - 19.12.2006, Blaðsíða 39

Morgunblaðið - 19.12.2006, Blaðsíða 39
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 19. DESEMBER 2006 39 Þrettán ára var Bergþór sendur í Reykjaskóla í Hrútafirði og þá verða mikil þáttaskil í lífi hans. Skömmu fyrir jólafrí á öðru ári á Reykjum fær hann þær skelfilegu fréttir að snjóflóð hafi fallið á bæinn í Goðdal og allir sem heima voru hafi farist nema faðir hans. Þetta hrikalega áfall hafði áreiðanlega mikil áhrif á óharðnaðan unglinginn, sem þurfti að byrja nýtt líf frá grunni enda búinn að tapa flestu sem tengdist hans fyrra lífi. Hann ákvað að reyna að standa á eigin fótum og fást ekki um það sem orðið var og enginn fékk breytt. Bergþór kláraði Reykjaskóla og fór til Reykjavíkur til náms í Menntaskólanum. Hann lauk stúdentsprófi 1954, kvæntist Dóru Jakobsdóttur lífsförunaut sínum og fylgdi eftir þeirri ákvörðun sinni, sem hann tók á öðru ári í menntaskóla, að fara í háskóla og læra grasafræði. Fyrir valinu varð háskólinn í Göttingen í Þýskalandi, en þar var þá ódýrt að lifa. Þar heillaðist Bergþór af mosum en sérhæfing í þá veru var þó ekki möguleg í Þýskalandi á þessum tíma þar sem enginn mosafræðingur var þar starfandi. Bergþór lauk fyrri hluta prófi í líffræði frá Göttingen 1959 en hafði þá ákveðið að einbeita sér að mosum og flutti sig í því skyni til Óslóarháskóla og lauk þaðan cand. rer.nat.-prófi árið 1964 undir leiðsögn Per Strömer. Fjárhagurinn var erfiður á þessum tíma, en með styrkjum frá norska ríkinu, styrktarsjóði Guðrúnar Brunborg og aðstoð tengdaföður síns gengu hlutirnir upp. Strax að loknu námi réðst Bergþór að Náttúrufræðistofnun Íslands og var þar með kominn í óskastarfið, eins og hann orðaði það sjálfur, og starfaði þar upp frá því við rannsóknir á íslenskum mosum. Þegar Bergþór kom að Náttúru- fræðistofnun voru 1.320 eintök til af mosum í vísindasafni stofnunar- innar. Nú 40 árum síðar hefur um 44 þúsund eintökum verið safnað undir hans forystu og komið fyrir í vísindasafninu, eða um 1.000 eintökum á ári að meðaltali í fjóra áratugi, og með því búið að byggja upp mjög verðmætt og heildstætt safn íslenskra mosa. Á ferðum sínum um landið fann hann auk þess og lýsti mörgum nýjum og áður óþekktum tegundum mosa hér á landi. Á starfsævi sinni tókst Bergþóri að lýsa öllum íslenskum mosa- tegundum, gera nákvæmar teikningar af helstu einkennum þeirra, ganga frá útbreiðslukortum tegundanna og gefa þeim öllum íslenskt heiti. Það síðastnefnda, að búa til alþýðuheitin, er ekki minnsta þrekvirkið enda eru íslensku mosategundirnar nú 606 að tölu eða fleiri en háplönturnar. Og nöfnin eru vel valin og falleg, t.d. vætukrýli, urðavæskill, fjallagletta og flagaskrúð. Það eru fáir ef nokkrir sem eiga jafn mörg nýyrði í íslenskri tungu og Bergþór. Bergþóri tókst með þrautseigju sinni og einstæðri iðjusemi að ljúka því stórvirki að lýsa öllum íslenskum mosum og gefa út mosaflóru Íslands í 21 bindi í ritröðinni Íslenskir mosar en síðasta heftið kom út í maí 2003. Með rannsóknum sínum og úrvinnslu hefur Bergþór lagt ómetanlegan skerf til þekkingar okkar á náttúru landsins. Mosa- flóran er brautryðjandastarf, heil- steypt grundvallarrit um veiga- mikinn hluta íslensks lífríkis. Háskóli Íslands heiðraði Bergþór fyrir þetta mikla verk á árinu 2000 með því að gera hann að heiðursdoktor við raunvísindadeild skólans. Auk rannsókna á mosum var Bergþór fundvís á nýjar tegundir annarra plantna og ólatur við rannsóknir á háplöntum. Á síðustu árum ævinnar, eftir að hann hætti störfum fyrir aldurssakir, greiddi hann úr flokkunarfræðilegri martröð sem íslenskir náttúru- fræðingar voru komnir í varðandi undafífla landsins, fækkaði tegund- um þeirra sexfalt og birti niður- stöður í heildstæðu yfirliti yfir fíflana. Hann gat ekki hætt að vinna og skilaði enn góðu verki þótt heilsan hafi verið orðin léleg þegar hér var komið sögu. Auk alls þess sem nú er talið lagði Bergþór grunn að kennslu við Háskóla Íslands í líffræði lágplantna þegar kennsla í náttúrufræðum hófst við skólann á sjöunda áratug síðustu aldar. Þar var hann stundakennari í rúma tvo áratugi, 1968–1989. Af öðrum störfum Bergþórs má nefna að hann var forseti samtaka norrænna mosa- fræðinga og sat í fyrstu stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands sem fulltrúi starfsmanna. Þá sat hann lengi í stjórn Hins íslenska náttúru- fræðifélags og var varaformaður þess um skeið. Það fór ekki mikið fyrir Bergþóri á Náttúrufræðistofnun eða úti í þjóðfélaginu og þó er hann áreiðan- lega þekktari fyrir vísindastörf sín hér á landi og erlendis en margur. Þessi duli, gáfaði og viljasterki maður sinnti starfi sínu og köllun af alúð og ótrúlegri skyldurækni, rekinn áfram af einbeittum vilja til að ljúka ætlunarverki sínu. Hann ætlaði að kenna öðrum að þekkja mosana, þessar áberandi og mikil- vægu lífverur í náttúru landsins. Þessa hlið Bergþórs þekkja margir, en hitt vita færri hversu mikill keppnismaður hann var og mikill áhugamaður um stjórnmál, félags- mál, íþróttir og skák, náttúruvernd og framgang og velferð sinnar stofnunar. Þegar kosið var til sveitarstjórna eða Alþingis, stórmót voru haldin í handbolta, skák, fótbolta eða frjálsum íþróttum og sýnt í sjónvarpi, þá hvarf Bergþór. Það voru einu skiptin sem hann tók sér frí frá störfum og þá til að horfa á sjónvarp eða mæta á keppnisstað. Þessa hlið Bergþórs, gamla kennara míns, þekkti ég vel og þótti vænt um. Bergþórs er sárt saknað af samstarfsmönnum hans á Náttúrufræðistofnun Íslands og í fræðasamfélaginu skilur hann eftir sig tómarúm sem er vandfyllt. Missir fjölskyldunnar er mikill og ég votta Dóru og dætrunum fjórum, Kolbrúnu, Brynhildi, Ásdísi og Önnu, dýpstu samúð fyrir hönd okkar allra. Þær vita að Bergþór Jóhannsson var einstakur maður sem skilur eftir sig verðmætan arf til framtíðar. Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræði- stofnunar Íslands. Kveðja frá samstarfsfólki á Náttúrufræðistofnun Íslands Fallinn er í valinn samstarfs- maður okkar á Náttúrufræðistofnun Íslands, Bergþór Jóhannsson, mosa- fræðingur. Þar með er genginn einn merkasti náttúrufræðingur sem þjóðin hefur alið. Nafn hans var þó ekki á hvers manns vörum enda kaus hann að vinna fræðistörf sín í kyrrþey. Bergþór vann einstakt brautryðjendastarf í fræðum sínum og mun afrakstur ævistarfsins halda nafni hans hátt á lofti um ókomna tíð, hérlendis sem erlendis. Bergþór var fagmaður fram í fingurgóma, vann verk sín mjög skipulega og af mikilli færni. Hann átti auðvelt með að greina aðalatriði frá aukaatriðum. Eftir Bergþór liggur grundvallarverk um íslenska mosa, sem birt var í fjölmörgum heftum í Fjölriti Náttúrufræði- stofnunar. Þar er hverri tegund lýst, kjörlendis hennar getið og út- breiðsla á landinu sýnd á korti. Síðast en ekki síst, og af einstakri snilld, teiknaði Bergþór myndir af öllum tegundunum sem sýna útlit þeirra og mikilvæg greiningarein- kenni. Teikningarnar einar og sér hafa vakið mikla athygli og teljast þær einkar mikilvægt framlag til mosafræðinnar. Með þessu ómetanlega verki öðlaðist Bergþór mikla virðingu í hinu alþjóðlega samfélagi grasa- fræðinga og hlaut doktorsnafnbót fyrir í Háskóla Íslands. Bergþór var vinnusamur og ósérhlífinn maður. Grasafræðin var honum afar mikilvæg. Hann hafði góðan skilning á latínu, fræðimáli náttúrufræðinnar. Flóknar nafn- giftareglur fræðigreinarinnar hafði hann á takteinum og leiðbeindi gjarnan öðrum um þann frumskóg. Í samvinnu var Bergþór afar traustur. Tæki hann að sér verk eða legði hönd á annarra plóg gerði hann áætlanir sem ávallt stóðust. Því mátti alltaf treysta. Á heimili Bergþórs var nánast útibú Náttúrufræðistofnunar þar sem hann hélt áfram störfum að loknum venjulegum vinnudegi og hefð- bundnum heimilisstörfum. Þótt Bergþór hafi alla tíð verið iðinn við rannsóknir sínar sinnti hann fjöl- skyldu sinni og heimili vel. Iðulega hvarf hann heim í hádeginu til að hafa til mat handa dætrum sínum ungum. Að baki fræðimanninum bjó einstakur maður sem átti fáa sína líka. Mörgum reyndist torvelt að átta sig á persónunni við fyrstu kynni. Yfir honum hvíldi nokkur dulúð sem ekki allir sáu í gegnum. Þeir sem fengu að gægjast þar á bak við kynntust ógleymanlegri persónu. Þar fór mikill hugsuður með fastar skoðanir og áhugamál sem honum var ljúft að ræða og tjá sig um þegar sá gállinn var á honum. Vart fer á milli mála að atburðir og áföll sem dundu á fjölskyldu Bergþórs í æsku áttu ríkan þátt í mótun persónu- leikans og dulúðinni. Skal engan furða. Það var gefandi að ræða við Bergþór um atburði líðandi stundar. Hann var mikill keppnismaður og fylgdist grannt með flestu því sem menn láta sér detta í hug að keppa í. Má þar nefna íþróttir af ýmsum toga og skákmaður var hann góður. Þá gaf hans næma pólitíska nef oft tilefni til tjáskipta. Í kringum kosningar var Bergþór sem véfrétt. Hann kom allvíða við í pólitíkinni og gekk í nokkra stjórnmálaflokka á lífsleiðinni. Á stofnuninni var stundum gantast með að þeir flokkar sem Bergþór studdi lögðu oftast upp laupana eða biðu alvarleg afhroð. Þrátt fyrir að hafa alist upp í afskekktri sveit var Bergþór sannur heimsborgari. Hann hafði menningu í hávegum, var kúltúrmaður sem naut lista og stundaði kaffihús. Hann naut þess að drekka kaffi af hæstu gæðum og kveikja sér í vindlingi, hvort heldur var í félagsskap eða með eigin hugsunum. Bergþór var afar vel að sér og fróður maður. Hann gjörþekkti Íslendingasögurnar og Heims- kringlu hafði hann á takteinum. Úrræðagóður var hann og óþrjótandi brunnur vitneskju af ýmsu tagi og gott var til hans að leita fróðleiks og allskyns upplýsinga. Hafði gott vald á íslenskri tungu, fjölbreyttan orðaforða og fagurt málfar. Þessi guðsgjöf nýttist honum vel þegar hann fann öllum mosategundum hérlendum íslensk heiti. Það er sjaldan sem menn hafa unun af því að lesa nafnaskrár, en mosaheiti Bergþórs eru mörg hver einstakir gullmolar. Í félagsskap góðra vina var Bergþór einkar skemmtilegur maður. Hann var mikill húmoristi, henti gaman að spaugi og tók þátt í glettni. Síðustu starfsárin átti Bergþór við heilsubrest að stríða. Mátturinn þvarr hægt og bítandi en andlegt atgervi hélst óbugað. Fátt gat spornað gegn því að hann mætti til vinnu sinnar. Hann barðist af miklum hetjuskap við manninn með ljáinn um tímann sem þurfti til að ljúka ætlunarverki sínu í grasafræði. Hann ætlaði að hverfa frá því þannig að arftaki tæki við góðu búi. Það tókst honum með miklum sóma enda vanur því að láta áætlanir standa. Þótt Bergþór hafi oft látið lítið fyrir sér fara hér á stofnuninni, þar sem hann sat löngum stundum niðursokkinn í vinnu sína, er ljóst að hún verður ekki söm eftir brotthvarf hans. Bergþórs verður minnst af hlýhug og með þakklæti fyrir verðmæt og gefandi kynni. Við vottum fjölskyldu Bergþórs, Dóru, dætrum, tengdasyni og barnabörnum, okkar dýpstu samúð.  Fleiri minningargreinar um Bergþór Jóhannsson bíða birt- ingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Höfundar eru: Hjör- leifur Guttormsson; Jörundur Svav- arsson og Sigurður S. Snorrason. ✝ Tala Klemenz-dóttir fæddist í Görðum í Mýrdal 14. júlí 1921. Hún lést á hjúkrunar- heimilinu Hjallat- úni í Vík 10. des- ember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Klem- enz Árnason, f. 22.2. 1891, d. 1.10. 1980, og Gunn- heiður Heiðmunds- dóttir, f. 5.4. 1893, d. 27.4. 1982. Tala var elst átta systkina og hið fimmta þeirra sem kveður. Áður eru látnir bræður hennar, þeir Högni, f. 12.12. 1924, d. 14.2. 2006, Gunnar, f. 9.7. 1926, d. 14.2. 2006, Heiðmundur, f. 5.1. 1933, d. 4.1. 1992, og Sveinn, f. 20.10. 1936, d. 3.3. 1999. Systur sína og bræður lifa systkinin Ragnheiður, f. 30.1. 1923, Einar Kristinn, f. 4.11. 1930, og Magn- ús, f. 28.3. 1935. Eiginmanni sínum Lofti Guð- mundssyni, kennara og síðar rithöfundi, kynntist Tala í Vest- mannaeyjum. Hann var fæddur 6.6. 1906 í Þúfukoti í Kjós. Hann andaðist í Reykjavík 29.8. 1978. Þau gengu í hjónaband 26. ágúst 1939. Fyrstu búskaparár sín bjuggu þau í Vestmanna- eyjum, en fluttu um 1945 til Reykjavíkur þar sem þau áttu heimili upp frá því. Saman eign- uðust þau þrjá syni. Þeir eru: 1) Guðmundur Marinó, f. 3.11. 1941, Hann átti fjögur börn og eru þrjú þeirra á lífi, a) Ásþór, f. 7.11. 1961, b) Magnús, f. 22.3. 1964, d. 11.7. 1982, c) Loftur, f. 26.3. 1968, og c) Kristín, 3.8. 1976. 2) Indriði, f. 3.11. 1946. Hann átti tvo syni, a) dreng, f. og d. 6.8. 1969, b) Ragnar Sigurð, f. 17.11. 1971. 3) Gunnar Heiðar, f. 9.3. 1948, sem á þrjú börn. Þau eru: a) Kolbrún Petrea, f. 9.6. 1969, ólst upp hjá ömmu sinni og afa, þeim Tölu og Lofti, b) Brandur, f. 6.6. 1972, og c) Loftur, f. 11.9. 1979. Barnabörn Tölu og Lofts eru nú átta tals- ins. Tala starfaði um langt árabil að saumaskap. Hún saumaði m.a. einkennisbúninga fyrir lög- regluna og fleiri, fyrst hjá Andrési klæðskera á Laugavegi (síðar á Skólavörðustíg) en síðar hjá Últíma í Kjörgarði við Laugaveg. Saumaði einnig mik- ið fyrir einstaklinga. Þegar um hægðist og aldurinn færðist yfir prjónaði hún lopapeysur sem seldar voru í Rammagerðinni í Hafnarstræti. Tala sótti nám- skeið í að gera lampaskerma og að fylla upp í púða. Hún saum- aði mikið út, eins og kallað er, heklaði dúka og stykki ýmiss konar sem hún gaf vinum og ættingjum. Síðustu misserin dvaldi Tala á dvalar- og hjúkr- unarheimilinu Hjallatúni. Útför Tölu var gerð frá Reyn- iskirkju í Mýrdal laugardaginn 16. desember. Hún var jarðsett í Fossvogskirkjugarði í Reykja- vík. Minningarathöfn um Tölu verður í Fossvogskapellu í dag og hefst klukkan 10.30. Elsku amma. Það er skrítið að kveðja þig þar sem þú varst svo stór hluti af lífi mínu, en síðast þegar ég sá þig langaði mig helst að passa þig eins og börnin mín, strjúka þér um kinnina og halda í höndina á þér og sleppa aldrei, þú hafðir breyst svo mikið enda er sagt að þeir sem veikjast af Alzheimer verði aftur börn. Þú sem varst alltaf svo sterk og það var ekkert sem þú tókst þér ekki fyrir hendur, hvort sem það var að sauma kvöldkjóla, þunga og þykka einkennisbúninga, lampa- skerma og púða eða prjóna lopa- peysur sem voru með þeim eftir- sóttustu í bænum. Þú hikaðir ekki heldur við að sjá um garðinn í Suðurhólunum, ókst hjólbörunum eins og þú værir tvítug. Þó engan ættum við bílinn þá hikaðir þú ekki við að fara með mig í sumarbú- staðaferðir, við tókum bara rútuna og í dag eru þetta minningar sem sitja hvað dýpst í hjarta mér og eins þegar ég beið eftir þér koma labbandi upp Snorrabrautina að vinnudegi loknum. Það voru ófáar blómabúðirnar sem ég setti upp á Miklatorgi með- an ég beið eftir þér. Síðan löbb- uðum við saman heim upp Eski- hlíðina. Það að koma heim eftir Sunnudagaskólann og finna lyktina af steikinni og messan jafnvel enn í útvarpinu. Þú fórst allt með mig, ég man eftir leikhúsferðunum og þá sáum við allt frá Dýrunum í Hálsaskógi til Gullna hliðsins. Allt eru þetta mínar dýrmæt- ustu minningar og elsku amma, þú sem gerðir allt fyrir mig, þú varst óþreytandi í að sauma á mig allt sem mér datt í hug, enda var ég alltaf jafn stolt þegar ég gat sagt „hún amma saumaði þetta“ enda voru allar mínar flíkur saumaðar af þér. Ég trúi því að það að hafa kynnst þér svona vel geri mig að betri manneskju, þú kenndir mér svo margt og eitt af því var að gef- ast aldrei upp og að allt væri mögulegt og það sannaðir þú margoft. Elsku amma, ég veit að þú ert hvíldinni fegin og sennilega er hugurinn orðinn frjáls og ef ég gæti heyrt í þér núna þá veit ég að þú myndir segja „En mér líður bara svo vel“ en það sagðirðu ávallt þegar ég spurði þig hvernig þú hefðir það. Elsku amma, sofðu rótt. Kolbrún Petrea. Ég man eins og það hefði gerst í gær þegar ég hitti Tölu Klemenz- dóttur í fyrsta sinn. Ég ungi maðurinn, nýfarinn að hitta barna- barnið hennar, stóð á stigapallin- um og beið dóms konunnar sem hafði alið upp tilvonandi eiginkonu mína frá unga aldri. Það var strax við fyrstu kynni okkar Tölu að mér varð ljóst að þarna fór mikill karakter og reyndist hún mér eins og konunni minni mikill fengur. Við urðum strax miklir mátar og skilur Tala eftir margar frábærar minningar og eigum við Kolla henni svo mikið að þakka. Tala eft- irlét okkur eina herbergið í litlu í búðinni sinni í Breiðholti í næstum 2 ár á meðan við söfnuðum okkur fyrir fyrstu íbúðinni okkar. Þó að þröngt hafi verið á þingi þá var ekkert skemmtilegra en að spjalla við þessa orðheppnu og þræl- stríðnu gömlu konu sem var alltaf svo eitursnjöll í þessum orða- glímum okkar. Henni Kollu minni reyndist hún Tala vera hin mesta björgun. Hún fluttist til hennar sem barn og bjó þar þangað til ég lokkaði hana úr hreiðrinu hennar. Var ég heppinn hversu frábært uppeldi hún fékk sem var byggt á gamaldags gildum konu sem fékk sitt uppeldi við þröngan kost á fyrri hluta síðustu aldar. Skilaði það henni sterkum tengslum við ömmu sína sem eru að mínu viti ein sterkustu fjöl- skyldubönd sem ég hef vitað um. Tala hafði rekið heimilið á taxta verkamannsins þannig að aldrei neitt skorti og var afar ósérhlífin og duglegri einstakling hef ég ekki fyrir hitt. Fyrir mér var hún hin sanna hversdagshetja sem bauð heiminum byrginn ef svo bar und- ir. Elsku Tala, takk fyrir allt, af öllu hjarta, takk fyrir mig. Ég skal hugsa vel um demantinn þinn. Gunnar. Tala Klemenzdóttir
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.