Morgunblaðið - 19.06.2007, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 19.06.2007, Blaðsíða 18
18 ÞRIÐJUDAGUR 19. JÚNÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ ERLENT FRANCOIS Hollande, leiðtogi franska Sósíal- istaflokksins, sagði í útvarpsviðtali í gær að skilnaður hans og Segolene Royal væri einka- mál, sem hefði engar pólitískar afleiðingar í för með sér. Royal, sem beið lægri hlut fyrir Nicolas Sarkozy í forsetakosningunum í Frakklandi í liðnum mánuði, upplýsir í nýrri bók að sambandi þeirra Hollande sé lokið og vænir sambýlismann sinn til 25 ára um framhjáhald. „Ég hef jafnan leitast við að greina stjórn- mál, sem mótast verða af grundvallarreglum, frá einkalífi, sem ber að verja,“ sagði Hollande í viðtali við franska ríkisútvarpið. Hollande, sem er 52 ára, staðfesti að Royal hefði ákveðið að skýra frá sambúðarslitunum í nýrri bók, sem út kemur á morgun, miðvikudag. Ólga hefur ríkt innan franska Sósíal- istaflokksins frá því að Segolene Royal tapaði forsetakosningunum. Í kosningabaráttunni bar nokkuð á spennu í samskiptum „gullpars- ins“ svonefnda og iðulega kom fyrir að Hollande lét ummæli falla, sem gengu beinlínis gegn stefnu sambýliskonu hans. Reyndist þetta ekki fallið til að draga úr slúðri og vanga- veltum um samband þeirra. „Ég hef beðið Francois Hollande um að yf- irgefa heimili okkar til að honum megi auðnast að sinna ástarmálum sínum, sem nú hafa verið opinberuð í bókum og dagblöðum og óska þess að hann fái höndlað hamingjuna,“ sagði Royal á sunnudag í viðtali um bókina, sem nefnist „Ósigur að tjaldabaki“ ( fr. „Les Coulisses d’une Defaite“). Bókina skrifa þau Christine Courcol og Thierry Masure, sem starfa fyrir AFP-fréttastofuna. Í viðtalinu sagði Royal að líkt og gilti um önnur pör hefðu skipst á skin og skúrir í sambandi þeirra Hollande. „Ég ákvað að leggja vanda þennan til hliðar á með- an baráttan stóð yfir fyrir forseta- og þing- kosningarnar. Ég taldi einnig að mér bæri að verja börn mín,“ bætti hún við. Í bókinni upp- lýsir hún ekki hver ástkona Hollande er en kveður nauðsynlegt hafa reynst að leggja spil- in á borðið. „Um nokkurt skeið hafa gengið sögusagnir um mig og Francois Hollande. Ég tel tímabært að skýra mál þetta og segi því einfaldlega að við höfum ákveðið að slíta sam- bandi okkar.“ Hún bætti við að „gagnkvæm virðing“ ríkti enn með þeim. Hollande hefur verið aðalritari franska Sósíalistaflokksins frá árinu 1997. Hann hefur lýst yfir því að hann hyggist ekki gefa kost á sér á ný þegar kjörtímabili hans lýkur á næsta ári. Í bókinni kemur fram að Royal, sem er 53 ára, hefur ákveðið að sækjast eftir embættinu. Royal og Hollande kynntust árið 1978 þegar þau stunduðu nám við Stjórnsýsluháskólann í París („Ecole Nationale d’Administration“), eina helstu menntastofnun frönsku valdastétt- arinnar. Síðar komust þau í forustusveit nýrr- ar kynslóðar vinstri manna í valdatíð Francois Mitterrands forseta. Þau hafa búið saman í rúmlega 25 ár en ekki gengið í hjónaband. Þau eiga fjögur börn á aldrinum 14 til 22 ára. Einkalíf á undanhaldi Í Frakklandi hefur löngum verið litið svo á að einkalíf stjórnmálafólks komi alþýðu manna ekki við. Þetta viðhorf sýnist vera á undan- haldi ef marka má sívaxandi umfjöllun um einkamál forustumanna í þjóðfélaginu. Í bók einni, „La Femme fatale“, sem út kom í liðnum mánuði, var því haldið fram að samband þeirra Hollande og Royal stæði á brauðfótum. Parið brást við fullyrðingum þessum með því að höfða skaðabótamál á hendur höfundunum, tveimur blaðamönnum Le Monde. Í bók, sem kom út í marsmánuði, bar Royal til baka sögu- sagnir um að sambandi þeirra væri í raun lokið og upplýsti að þau byggju enn saman. Hafði hún raunar áður skýrt frá því að þau íhuguðu að ganga í hjónaband og halda í „rómantíska brúðkaupsferð“ til Tahítí. Segolene Royal, forsetaframbjóðandi franskra sósíalista, vænir sambýlismann sinn um framhjáhald „Gullna parið“ slítur sambúðinni Reuters Skilin Segolene Royal og Francois Hollande koma til fundar í maímánuði í París. BRESKA lögreglan greindi í gær frá því að búið væri að uppræta barnaklámshring sem taldi um 700 meðlimi í 35 löndum, þar af 200 í Bretlandi, og hefur 31 barni verið bjargað. Ekki kom fram til hvaða landa aðgerðirnar náðu, utan að breska lögreglan hafði átt samstarf við yf- irvöld í Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu. Ekki er þó vitað til þess að neinn Íslendingur tengist málinu. Ekki hefur verið leitað til kynferð- isbrotadeildar lögreglunnar vegna þess, en aðgerðir bresku lögregl- unnar eru þær viðamestu nokkru sinni í Bretlandi þar sem stöðvuð er framleiðsla á barnaklámi og dreif- ingu þess á Netinu. Rannsóknin tók um tíu mánuði og var notast við að- ferðir til að komast inn að kjarna hringsins sem fyrst og fremst er beitt gegn grunuðum hryðjuverka- mönnum og skipuleggjendum eit- urlyfjasmygls. Ungbörn meðal fórnarlamba Ofbeldismennirnir notuðu spjall- rás sem bar nafnið „Kids The Light Of Our Lives“, eða „Börn, ljós lífs okkar“, til að skiptast á myndum og myndskeiðum af kynferðisofbeldi og mun sumt hafa verið sent út beint á Netinu. Yngstu brotaþol- arnir voru aðeins nokkurra mánaða gömul börn. 27 ára gamall Breti að nafni Tim- othy Cox stjórnaði hringnum. Cox var handtekinn á síðasta ári og fundust þá rúmlega 75.000 myndir á tölvu hans og sönnunargögn um að hann hefði sent 11.000 myndir til annarra notenda. Cox hefur játað brot sín og bíður dóms. Upprættu barnakláms- hring sem náði til 35 landa PAKISTANSKA þingið hefur samþykkt álykt- un þar sem þess er krafist að bresk stjórnvöld dragi til baka ákvörðun sína að aðla rithöfund- inn Salman Rushdie. Til- kynnt var um helgina að Rushdie hefði verið sleginn til riddara fyrir störf sín í þágu bókmenntanna, en upphefðin þýðir m.a. að hann getur sett forskeytið „Sir“ fyrir framan nafn sitt. Rushdie er þekktastur fyrir verk sitt Söngvar Satans, en bókin sú olli miklu uppnámi í múslímaheiminum og varð til þess 1989 að Khomeini erkiklerkur í Íran bannfærði höf- undinn fyrir guðlast. Fordæmingin þýddi að Rushdie hefur þurft að lifa í felum. Um eitt hundrað harðlínumenn í borginni Multan í austurhluta Pak- istans brenndu myndir af Elísabetu Englandsdrottningu og Rushdie á sunnudag í kjölfar fréttanna af upphefð Rushdies. Þeir hrópuðu slagorð gegn drottningunni og fóru fram á að Rushdie yrði drepinn fyr- ir að móðga guð. Írönsk stjórnvöld hafa líka fordæmt ákvörðun breskra yfirvalda. Óánægja með upp- hefðina Salman Rushdie SJÖ börn týndu lífi í loftárásum Bandaríkjahers á meintar búðir al- Qaeda-hryðjuverkasamtakanna í Paktika-héraði í austurhluta Afg- anistans, nálægt landamærunum að Pakistan. Nokkrir al-Qaeda-liðar féllu einnig. Sjö börn fórust AÐ minnsta kosti ellefu fórust og 31 slasaðist þegar rúta ók út af hrað- braut nærri borginni Halle í Þýska- landi í gær. Um borð voru einkum ellilífeyrisþegar, alls 48 farþegar, en þeir voru á leið til Halle. Óljóst var um tildrög slyssins. Ellefu týndu lífi FORSÆTISRÁÐHERRA Ungverja- lands hefur beðið opinbera stjórn- endur um að heimila starfsmönnum að mæta til vinnu án þess að vera í sokkabuxum eða með bindi vegna ríkjandi hitabylgju. Vill fækka fötum „ÞETTA er ekkert merkilegt,“ sagði Japaninn Tomoji Tanabe eftir að honum var færð staðfesting á því frá heimsmetabók Guinness að hann væri nú allra karla elstur eftir andlát hins 115 ára gamla Emiliano Mercardo del Toro á Púertó Ríkó 24. janúar sl. „Ég hef lifað alltof lengi. Ég biðst forláts,“ sagði Tanabe. Tanabe er 111 ára gamall, fæddist 18. september 1895, og þakkar langlífi sitt því, að hann hafi aldrei snert áfengi. Afsakar háan aldur KÍNVERSK yfirvöld handtóku í gær fimm til viðbótar vegna þrælareksturshneykslis sem vakið hefur hörð við- brögð í landinu eftir að það komst upp. Mennirnir fimm voru, að því er Xinhua-fréttastofan greindi frá, hand- teknir fyrir að hafa með ólögmætum hætti haldið og vilj- andi meitt þræla í múrsteinsverksmiðju í Shanxi-héraði norðaustarlega í Kína. Þegar hafði verið tilkynnt um handtöku 168 manna fyrir aðild að mansalshring sem þvingað hefur menn til þrældóms í Shanxi- og Henan- héraði. Fullyrt er að 568 manns hafi losnað úr þræla- kistum, þ.m.t. börn og þroskaheftir. Mennirnir á mynd- inni eru í hópi þeirra sem hnepptir höfðu verið í þræl- dóm. Í síðustu viku birti Alþjóðasamband verkalýðsfélaga skýrslu um verksmiðjur sem framleiða minjagripi um Ólympíuleikana sem verða haldnir í Kína á næsta ári. Var þar leitt líkum að því að börn, allt niður í tólf ára gömul, ynnu í verksmiðjunum við harðan kost. Reuters Þrælakistur afhjúpaðar í Kína Eftir Davíð Loga Sigurðsson david@mbl.is JAVIER Solana, utanríkismála- stjóri Evrópusambandsins, sagði í gær að ESB myndi hefja aftur beinan fjárhagsstuðning við palest- ínsku heimastjórnina en rúmt ár er nú liðið síðan þeim stuðningi var hætt, í kjölfar þess að Hamas-sam- tökin komust til valda eftir þing- kosningar. Yfirlýsing Solanas kemur í kjöl- far þess uppgjörs sem orðið hefur með þeim átökum sem staðið hafa milli Fatah-hreyfingar Mahmouds Abbas, forseta Palestínumanna, og hinna róttæku Hamas-liða, en Hamas neitar m.a. að viðurkenna tilverurétt Ísraelsríkis. Hamas náði á föstudag öllum völdum á Gaza- svæðinu eftir blóðuga baráttu við Fatah-liða en Abbas brást við þeim tíðindum um helgina með því að setja af þjóðstjórn Hamas og Fatah, sem Hamas-liðinn Ismail Haniyeh hefur farið fyrir síðan í mars. Abbas útnefndi jafnframt nýja bráðabirgðastjórn, með aðsetur á Vesturbakkanum, en fyrir henni fer Fatah-maðurinn Salam Fayyad. Áttu ummæli Solanas í gær við þá stjórn – sem og það fyrirheit George W. Bush Bandaríkjaforseta að styðja við bakið á palestínskum yfirvöldum. Hitt flækir mál að þörf- in fyrir aðstoð ESB er mun meiri á Gaza-svæðinu, þar sem Hamas ræður ríkjum. Hamas-samtökin segja nýju stjórnina „ólögmæta undirlægju“ Ísraels og Bandaríkjanna og hafa heitið því að halda í valdataumana með öllum ráðum. Bein aðstoð ESB við Palestínu hefst á ný

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.