Morgunblaðið - 22.05.2008, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 22. MAÍ 2008 11
FRÉTTIR
SILUNGANET virðast ekki síður
fanga fugla en fiska í Skorradals-
vatni. Þegar hjónin Guðjón Jensson
og Úrsúla Jünemann komu í bústað
sinn við vatnið seint að kvöldi sl.
föstudags heyrðu þau mikið væl í
lómum frá vatninu.
Morguninn eftir fóru þau niður að
vatni og sáu tvo lóma sem höguðu
sér einkennilega, hvorki flugu upp
né köfuðu við mannaferðirnar. Þau
settu fram bát og sáu þá að fuglarnir
voru flæktir í net og komust hvergi.
Úrsúla skar lómana úr netinu sem
urðu frelsinu fegnir. Þau tóku upp
netið og létu hreppstjórann vita.
Guðjón sagði þetta vera í annað
skiptið sem hann hefur haft afskipti
af því sem hann telur vera ólöglegt
net í vatninu. Í fyrrasumar var hann
á báti sínum á vatninu og fann þá
drauganet. Í þeim var fullt af fugli og
fiski og var það allt dragúldið.
Davíð Pétursson hreppstjóri og
oddviti á Grund sagði að einungis
lögbýli ættu netarétt í Skorradals-
vatni. Sumarbústaðaeigendur ættu
þar ekki netarétt og mættu ekki
veiða í almenningi vatnsins sam-
kvæmt vatnalögum. Davíð sagði svo-
lítil brögð hafa verið að því að net
væru lögð í vatnið í leyfisleysi. Kom-
ið hefði fyrir að menn legðu net án
leyfis fyrir landi eyðibýla og úr því
jafnvel orðið lögreglumál. Óleyfileg
net og afli væri gert upptækt.
Lómar festust í neti sem lagt hafði verið í Skorradalsvatn, líklega í leyfisleysi
Barlómur í
neti á Skorra-
dalsvatni
Ljósmynd/Guðjón Jensson
Leystir úr viðjum Úrsúla Jünemann skar lómana lausa úr netinu og urðu þeir frelsinu fegnir.
SÚ VAR tíðin að sandfok á Mýrdals-
sandi gat stöðvað umferð um þjóð-
veginn allt að 20 daga á ári, jafn-
framt því að valda skemmdum á
bifreiðum.
Að sögn Sveins Runólfssonar
landgræðslustjóra heyrir það nú til
undantekninga að stöðva þurfi um-
ferð af þessum sökum, en Vegagerð-
in og Landgræðslan hafa unnið að
stöðvun sandfoks í samstarfsverk
efni sem hóf göngu sína árið 1987.
Mýrdalssandur þekur um 35.000
hektara landsvæði og hefur þegar
tekist að græða upp 1.500-1.800
hektara lands að hluta. Uppgræðsl-
an er tímafrek og eftir tíu ár er
stefnt að því að gróna svæðið verði
alls orðið um 2.000 hektarar.
Enn berst sandur inn á uppgræð-
slusvæðið og þykir melgresið þola
áfok sandsins betur en nokkur önn-
ur planta, þ.m.t. lúpínan. Eftir því
sem gróðurinn breiðir úr sér minnk-
ar sandþekjan og segir Sveinn vonir
bundnar við að eftir hálfa öld verði
Mýrdalssandur að mestu gróinn og
sandfok því hverfandi. Sú spá sé þó
bjartsýn og segir Sveinn m.a. Kötlu-
hlaup geta raskað henni.
Sáning meðfram vegum þykir
gagnast vel gegn sandfokinu og á
næstunni munu þeir Árni Eiríksson,
Bjarni Arnþórsson sáðmaður og
Þorsteinn Guðjónsson, starfsmenn
Landgræðslunnar, dreifa mel-
grasfræi á gróðurlaus svæði nærri
þjóðveginum á Mýrdalssandi. Árni
segir notast við sérstakan búnað.
„Við erum með sérsmíðaðar sán-
ingsvélar sem eru smíðaðar og þró-
aðar hjá Landgræðslunni. Sjálft
melgrasfræið er húðað með kísil-
efnum í verksmiðju í Gunnarsholti,“
segir Árni um aðferðina.
Safnar í sig sandinum
„Það var byrjað að húða fræin til
að þyngja þau þegar dreifing úr
flugvélum hófst. Menn hafa haldið
sig við þetta þó við séum nú að nota
sáðvélar. Það er gott að hafa fræin
aðeins þyngri, þá fjúka þau síður.
Húðin virðist einnig halda í sér raka
og hjálpa fræinu að spíra.
Við sáum melgresi með áburði að
vori. Um mitt sumar fær það aftur
áburðarskammt og svo næstu tvö til
þrjú ár þar á eftir. Melgrasið hefur
þann eiginleika að það safnar í sig
sandinum. Það er því fljótt að hækka
landið og þess vegna höfum við ekki
sáð meðfram veginum á Mýrdals-
sandi á síðustu árum, eftir að menn
áttuðu sig á því hvað landið hækkaði
mikið í kringum þjóðveginn.“
Melgrasið öflugt vopn gegn sandfoki á sandbreiðunni
Mýrdalssandur verði
gróinn um miðja öldina
Morgunblaðið/Jónas Erlendsson
Sáning Melgrasfræjunum er komið fyrir fimm til tíu sm undir sandinum.
ÁRNI M. Mathie-
sen fjármálaráð-
herra segir að
ummæli hans um
breytingar á
Íbúðalánasjóði á
fundi Samtaka
iðnaðarins í
fyrradag feli ekki
í sér að ríkið eigi
að draga sig út úr
almennum lánveitingum til íbúða-
kaupa. Rætt hefur verið um að
skipta Íbúðalánasjóði upp í tvo hluta,
annars vegar um félagslegt húsnæði
og hins vegar í almenna hlutann, og
afnema ríkisábyrðina á almennum
lánum Íbúðalánasjóðs. Árni sagði á
fundi SI að eðlilegt væri að almenni
hlutinn yrði þá rekinn að fullu á
markaðsgrundvelli. Árni segir að
ummæli hans hafi tekið mið af þeim
hugmyndum sem fjallað var um í
stýrihópi í fyrra. Rætt var á þeim
tíma um að notast yrði við sérvarin
skuldabréf (e.: „covered bonds“) við
fjármögnun í nýju heildsölukerfi.
Að sögn Árna felur þetta í sér að
gefin yrðu út sérvarin skuldabréf
sem síðan væru nýtt til þess að fjár-
magna íbúðakaup og bæði Íbúða-
lánasjóður sjálfur og bankarnir gætu
notað til þess að fjármagna íbúða-
kaup einstaklinga. „Bankarnir hefðu
líka aðgang að þessum útgáfum, sem
verða hagkvæmari eftir því sem þær
eru stærri. Ef þeir vildu þá gætu
þeir auðvitað farið í svona útgáfu
sjálfir. Þegar unnið var að þessu á
sínum tíma var afstaða bankanna
misjöfn. Sumir þeirra voru tilbúnir
að fara í þetta en aðrir vildu það
ekki. Ég ímynda mér að það hafi
breyst núna,“ segir Árni. Þar sem
ríkisábyrgð yrði afnumin jafnaðist
samkeppnisstaðan „og með því að
bankarnir gætu líka notfært sér
þessar útgáfur, þá væri verið að
auka líkurnar á að það fengjust hag-
stæð kjör fyrir alla. Síðan gætu
bankarnir og Íbúðalánasjóður keppt
um þá þjónustu sem veitt er. Þetta
voru þær hugmyndir sem þá voru í
gangi. Þetta er mjög þróað og þekkt
kerfi sem virðist gefast vel í því um-
hverfi sem núna er á fjármálamörk-
uðum.“
Kerfi sem virðist gefast vel
Árni M. Mathiesen
» Umsóknarfrestur er til 5. júní 2008
» Rafræn umsókn er á www.hjukrun.hi.is
» Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu
hjúkrunarfræðideildar í síma 525 4960
Viltu krefjandi, spennandi og fjölbreytt starf
sem skiptir máli?
Komdu þá í hjúkrunarfræði. Framúrskarandi
menntun með mikla atvinnumöguleika.
Hjúkrunarfræðideild
HEILBRIGÐISVÍSINDASVIÐ www.hjukrun.hi.is