Morgunblaðið - 29.10.2008, Blaðsíða 31
Menning 31
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 29. OKTÓBER 2008
Eftir Gunnhildi Finnsdóttur
gunnhildur@mbl.is
LANDSPILDA úr eigu Einars Benediktssonar
við Elliðavatn er nú eign Bretadrottningar að sögn
Guðjóns Friðrikssonar sagnfræðings. Hann er
einn þeirra sem fjalla um skáldið á málþingi á
æskuslóðum þess við Elliðavatn um helgina.
„Einar erfði hluta jarðarinnar með veiðirétt-
indum í ám og þetta rann inn í hlutafélag sem hann
stofnaði á Bretlandi. Hann var kannski fyrsti út-
rásarvíkingurinn,“ segir Guðjón og tekur undir
það að sú nafnbót sé ekki jafn eftirsóknarverð í
dag og hún var fyrir fáeinum mánuðum. „En ég
held að hann hafi verið fyrirmynd sumra af þess-
um ungu mönnum sem hafa verið í fararbroddi út-
rásarinnar á síðari árum.“
„Félag Einars hét British North-Western
Syndicate og um 1970 fengu afkomendur Einars
Ragnar Aðalsteinsson lögfræðing til þess að kanna
hvað væri eftir af þessum eignum. Hann komst að
því að félagið var þá ennþá skráð sem eigandi að
þessu landi. Hann sendi fyrirspurn til Bretlands og
þá kom í ljós að félagið hafði verið afskráð um 1930
og honum var tjáð það að annað hvort yrði að end-
urreisa félagið eða að eigur þess teldust runnar til
bresku krúnunnar. Þannig að það er Elísabet Eng-
landsdrottning sem á þetta í raun og veru, þó að
Reykjavíkurborg telji sig nú eiga þetta. Drottn-
ingin hefur sennilega ekki hugmynd um þetta.“
Guðjón ætlar einnig að segja frá uppvexti Ein-
ars og sambandi hans við föður sinn. „Benedikt
Sveinsson var einn af forystumönnum þjóðarinnar.
Hann var dómari í Reykjavík og þingmaður, en
erfiður maður og það setti sitt mark á uppeldi Ein-
ars. Þau skildu, hjónin á Elliðavatni, sem var mjög
fátítt meðal fyrirfólks á þessum tíma. Einar var þá
sjö ára og var skilinn eftir þarna hjá föður sínum
sem var óreglusamur, þó hann væri merkismaður
að öðru leyti.“
Olli nánast sambandsslitum
„Ég er náttúrulega bara venjulegur trúður í
þessari sýningu,“ segir Benedikt Erlingsson leik-
ari sem ætlar að lesa upp úr Einræðum Starkaðar
og fleiri ljóðum á málþinginu. Hann hefur lengi
verið áhugamaður um kveðskap Einars og las ævi-
sögu Guðjóns sem kom út fyrir nokkrum árum.
„Ég hef lesið öll bindin og það olli nú nánast sam-
bandsslitum hjá mér og konunni minni um jólin
þegar hún kom í heimsókn til mín. Við vorum þá í
fjarbúð og ég var bara djúpt sokkinn í Einar og
mátti ekki vera að því að tala við hana.“
Benedikt segir Einræður Starkaðar vera sálar-
ferðalag eins og einræður séu gjarnan. „Einræður
eru eintal manns við sjálfan sig þegar hann skilur
ekki raunveruleikann. Þetta er til dæmis það sem
gerist þegar maður týnir hlutum, leitar lengi og
finnur þá ekki, þá byrjar maður að tala við sjálfan
sig uppúr eins manns hljóði: Hvað er í gangi? Hef-
ur einhver tekið þetta frá mér? Heilinn byrjar að
tala við sjálfan sig og þetta kvæði er svona einræða
um tilgang lífsins.“
Hann hefur líka farið um slóðir Einars í Kaup-
mannahöfn og segir hann tengjast Íslandssögunni
á ýmsan hátt. „Hann varpar til dæmis ljósi á það
hvað alkóhólismi hefur verið mikið vandamál á Ís-
landi lengi. Hann er alveg greinilega fullorðið barn
alkóhólista og ævi hans er mörkuð af því. Ef menn
eru verseraðir í 12 sporunum þá er hægt að lesa
þau í gegnum ýmislegt í hans kveðskap. Þetta er
eins og með svo marga andans menn, það má horfa
á þá í gegnum allskyns gleraugu.“
Morgunblaðið/Kristinn
Sérfræðingar Benedikt Erlingsson leikari og Guðjón Friðriksson sagnfræðingur koma fram á málþingi um Einar Benediktsson um helgina.
Fyrsti útrásarvíkingurinn
Málþing um Einar Bene-
diktsson í landi bresku
krúnunnar við Elliðavatn
Í HNOTSKURN
»Skógræktarfélag Reykjavíkur og Orku-veita Reykjavíkur standa fyrir mál-
þinginu. Það hefst klukkan 14 á laugardag-
inn á Elliðavatni.
»Meðal þeirra sem koma fram eru UnnurJökulsdóttir, Silja Aðalsteinsdóttir, og
Bergur og Snorri úr Sprengjuhöllinni.
Tæmandi dagskrá má finna á heidmork.is
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.
Úr Einræðum Starkaðar eftir Einar Benediktsson.
Orðrétt
ÁLFAKÓNGURINN eftir Schu-
bert er svo gott sem óspilandi.
Lagið er fyrir söngvara og píanó-
leikara og píanóhlutverkið er svo
gríðarlega erfitt að fáir treysta
sér í það. Það er því saga til
næsta bæjar að íslenskur píanó-
leikari spili það á tónleikum, og
ekki bara það, heldur hristi það
fram úr erminni.
Þetta gerði Ástríður Alda Sig-
urðardóttir á tónleikum með Jóni
Svavari Jósefssyni bariton á laug-
ardaginn var. Píanóleikur hennar
var fádæma glæsilegur, vandaður
og nákvæmur, en líka blæ-
brigðaríkur og skáldlegur, ekki
aðeins í Álfakónginum, heldur í
öllum hinum lögunum líka. Ástríð-
ur Alda er frábær meðleikari og
hún mætti vel vera meira áber-
andi í tónlistarlífinu.
Og hver voru hin lögin? Jú, auk
annarra voru þau eftir Sveinbjörn
Sveinbjörnsson, m.a. eitt sem heit-
ir Víðsöngur, en það hafði ég aldr-
ei heyrt áður. Þetta er forkunn-
arfagurt lag og er einskonar óður
til víðisins sem m.a. vex á Íslandi.
Víðirinn hefur gjarnan verið
tengdur við nornir og nornagaldur
eins og fram kemur í bókinni The
White Goddess eftir Robert
Graves, og í lagi Sveinbjörns svíf-
ur draumkennd, jafnvel ann-
arsheimsleg stemning yfir vötn-
unum. Jón Svavar söng það líka
afar fallega, með tilhlýðilegri inn-
lifun og þokka, og silkimjúkur
píanóleikurinn lyfti því upp í
hæstu hæðir.
Jón Svavar er prýðilegur söngv-
ari, hann hefur magnaða rödd og
góða tækni, og honum finnst
greinilega gaman að standa á
sviði. Í það heila voru lögin eftir
Sveinbjörn, Karl Ó. Runólfsson,
Hugo Wolf, Schubert og Carl
Loewe tilkomumikil í meðförum
hans, túlkunin var kraftmikil og
full af snerpu. Söngvarinn mætti
þó tileinka sér meiri mýkt og fleiri
litbrigði, stundum var túlkun hans
dálítið svarthvít, eins og hann
væri ýmist reiður eða ekki reiður.
Þetta var sérstaklega áberandi í
þremur lögum úr Vetrarferð
Schuberts, sem fyrir bragðið urðu
heldur litlaus og því ekki sérlega
sannfærandi. Margt annað var
samt vel gert hjá honum eins og
fram kom að nokkru hér að ofan
og því er ljóst að Jón Svavar er
stórefnilegur og á örugglega eftir
að vekja mikla athygli með aukn-
um þroska er fram líða stundir.
Hinn illi
álfakóngur
TÓNLIST
Salurinn í Kópavogi
Jón Svavar Jósefsson og Ástríður Alda
Sigurðardóttir fluttu tónlist eftir ýmsa
höfunda. Laugardagur 25. október.
Söngtónleikar bbbbn
Jónas Sen
ÞAÐ hefur verið mikið um söng á
Múlanum í vetur. Fyrr í október hélt
Andrea Gylfadóttir þar fína tónleika
og túlkaði snilldarlega „Strange
Fruit“ Billie Holiday, eitt vand-
meðfarnasta sönglag djassins. Og á
undan tónleikum Dance With Me
söng Heiða Árnadóttir lög eftir
franska tónskáldið og djasspíanist-
ann Michel Legrand.
„Kristjana og Urður, house-dívan
og djass- og blúsdrottningin, leiða
saman hesta sína ásamt fönk-
meisturunum í Funkmaster 2000,“
var sagt í kynningu tónleika Dance
With Me, en það er samnefni þeirra
Kristjönu, Urðar, Fönkmeistaranna
og nafnlítils söngkvartetts.
Það eru ein tíu ár síðan þeir fjór-
menningar Hannes Helgason hljóm-
borðsleikari, Ómar Guðjónsson gít-
aristi, Valdimar Kolbeinn
Sigurjónsson bassaleikari og Helgi
Svavar Helgason trommari hófu að
leika saman og þeir þrír síðastnefndu
eru nú í hópi helstu djassleikara Ís-
lands. Fönkið var líka sterkt hjá þeim
og Ómar átti besta sóló kvöldsins í
firnaflottum flutningi á „You Got The
love“ af efnisskrá fönksveitarinnar
Rufus, þar sem Chaka Khan söng og
Ray Parker var sólógítarleikari.
Kristjana sá um einsönginn, vel studd
af Urði og kvartettnum, og hún var
líka í aðalhlutverki í því lagi sem mér
þótti bera af, ásamt því fyrrnefnda,
þetta kvöld: „Ain’t That Peculiar“ eft-
ir Marvin Gay – einn mesta sólsöngv-
ara allra tíma. Mér skildist að þær
stöllur hefðu pikkað þetta upp af
Rufusskífu, en söngur Kristjönu var
samboðinn Gay, sem tókst oft á ótrú-
legan hátt að byggja söng sinn upp í
anda Lesters Youngs – stöðug sam-
fella frjórrar hugsunar. Kristjana var
kraftmikil og svört þetta kvöld og
hélt athygli manns allan tímann. Urð-
ur náði aldrei með tærnar þar sem
Kristjana hafði hælana þótt rödd
hennar sé sérdeilis sjarmerandi. Ein-
söngsballaða hennar, eftir Stevie
Wonder, var næsta máttlaus – og svo
hefðu þær stöllur mátt sleppa Herbie
Hancock-ópusnum og reyna við eitt-
hvað bitastæðara. Afgangurinn af
efnisskránni var kraftmikill, en mis-
jafnlega áhugaverður fyrir sitjandi
tónleikagesti.
Engum er Kristjana lík
TÓNLIST
Múlinn á Café Rosenberg
Kristjana Stefánsdóttir og Urður Hákonar
syngja ásamt Funkmaster 2000 og söng-
kvartett.
Fimmtudagskvöldið 23. október.
Dance With Mebbbmn
Vernharður Linnet