Morgunblaðið - 15.11.2008, Side 44

Morgunblaðið - 15.11.2008, Side 44
44 Umræðan MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 15. NÓVEMBER 2008 Við erum í raun rík þjóð, bæði að mannauði og auðlindum. Framundan eru tækifæri til nýrrar sóknar, sem mun eins og fyrr byggjast á hugviti og heilbrigðu framtaki einstaklinga. Markaðs- hagkerfið hefur reynst okkur Ís- lendingum best til að bæta hag þjóðarinnar ... ’ OKKAR þjóð er í vanda, landsmenn eru í áfalli, þjóð- arstoltið og ímynd landsins hefur beðið hnekki. En við megum ekki láta bugast og nú er mikilvægt að bregðast við af yfirvegun og skynsemi. Í svona stöðu bíða alltaf fjöl- mörg tækifæri og nýir mögu- leikar. Vandamálin sem við horfumst í augu við eru auðvitað risavaxin á okkar mælikvarða þegar þrír stærstu bankar landsins fara á hliðina, en við megum heldur ekki gleyma því, í umfjöllun um þessi mál hér innanlands, að við erum hluti af alþjóða- fjármálakerfinu og kreppan í fjármálakerfi heimsins hittir okkur mjög hart fyrir. En nú er það skynsemin og rósemin sem skiptir mestu máli og að allir aðilar taki sam- eiginlega á málum til að lágmarka skaðann, sem við verðum fyrir, og hefja eins fljótt og unnt er uppbyggingarstarf að nýju. Þar berum við stjórnmálamennirnir mikla ábyrgð, við eigum að vera í fararbroddi og hvetja til samstöðu, efla bjartsýni og grípa til þeirra aðgerða sem þörf er á, jafnvel þó að sársaukamiklar geti ver- ið um skamma hríð. Samstaða þarf að nást með sveitarstjórnum, aðilum vinnumarkaðarins og heimilunum í landinu. Við verðum öll að gera okkur raunsanna grein fyrir ástandinu, en meg- um ekki missa sjónar á góðum kostum í stöð- unni. Einhvers staðar segir að þegar einn gluggi lokast opnast dyr annars staðar. Þetta verðum við ávallt að hafa hugfast. Við verðum að leita leiða til að tryggja framtíð íslenskrar þjóðar og þá meina ég allra leiða. Við búum að því núna hvað undirstöður okkar samfélags eru í raun traustar. Nú kemur sér vel að hafa náð því á undanförnum árum að greiða upp nánast allar skuldir ríkissjóðs. Nú kemur sér vel að hafa byggt upp innviði sam- félagsins eins og gert hefur verið á und- anförnum árum. Nú kemur sér til dæmis vel sú áhersla sem ríkisstjórnin og Sjálfstæðisflokk- urinn hefur lagt á menntamálin og þær fram- farir sem þar hafa orðið með nýjum mennta- stofnunum og öflugra vísindasamfélagi. Nýlega var ég viðstödd vígslu nýs menntaskóla í Borgarbyggð. Þar var mikið lof borið á mennta- málaráðherra og ríkisstjórnina fyrir stuðning við uppbyggingu á svæðinu. Samfélagið á Vest- urlandi hefur styrkst mikið með nýjum og öfl- ugum skólastofnunum, bæði framhaldsskólum og háskólum. Í menntun þjóðarinnar er einn mesti auð- urinn fólginn. Þar munum við finna undirstöður fyrir nýja sókn og með nýtingu þeirra auðlinda sem landið okkar býr yfir og við eigum að halda áfram að nýta af virðingu og skynsemi. En nú skiptir mestu að koma gjaldeyr- ismálum okkar í lag og tryggja stöðugleika krónunnar. Samkomulagið við Alþjóðagjaldeyr- issjóðinn er auðvitað lykilatriði í því sambandi og mikilvægt að menn standi nú heilshugar að baki þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru í því sambandi og aðilar vinnumarkaðarins hafa meðal annarra hvatt til að undanförnu. Umræð- an um hugsanlega inngöngu í Evrópusam- bandið, eins takmörkuð og hún hefur verið, get- ur í raun villt mjög um fyrir fólki. Stór hluti þjóðarinnar trúir því að bara með því að taka upp evru þá leysist öll okkar vandamál, fólki er jafnvel talin trú um að verðlag muni lækka við upptöku evru. Og almenningur er jafnframt farinn að halda að hægt sé að ganga inn í Evr- ópusambandið með skömmum fyrirvara og evr- an bíði okkar bara við næsta horn. Hlutirnir eru ekki svona einfaldir og allir hljóta að sjá að samningsstaða okkar í dag er ekki góð við gjör- breyttar forsendur. Ég tel hins vegar að það sé forgangsatriði að endurskoða peningamálastefnuna og vænti þess að í því sambandi verði allar hugsanlegar leiðir skoðaðar og aðilar víða að fengnir til þess verks. Umræður um hvar ábyrgðin liggi á stöðu mála er skiljanleg. Eðlilega liggur sú ábyrgð víða, en mikilvægt er að sú skilgreining fari fram með málefnalegum og faglegum hætti. Reiði og hefndarþorsti eru ekki gott veganesti inn í þá vinnu. Það er að mínu viti afar mik- ilvægt að væntanleg hvítbók verði unnin sem fyrst, um leið og ástandið batnar og öldur lægja og af aðilum sem hafa til þess þekkingu og njóta trausts. Ég fagna ennfremur að ákveðið hefur verið að undirbúa málssókn gagnvart Bretum vegna þess skaða sem þeir hafa valdið Íslendingum með framgangi sínum og beitingu hryðjuverkalaga. Núna skiptir mestu að missa ekki sjónar á aðalatriðum málsins og vinna hratt og örugg- lega og án flumbrugangs að því að koma málum í eins eðlilegt horf og kostur er. Samvinna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og lán frá honum verður okkur vonandi til heilla og stuðlar að frekari lántökum frá öðrum þjóðum. Með þeim hætti mun okkur takast að styrkja gjaldmið- ilinn okkar og koma gjaldeyrisfærslum í örugg- an farveg. Við erum í raun rík þjóð, bæði að mannauði og auðlindum. Framundan eru tæki- færi til nýrrar sóknar, sem mun eins og fyrr byggjast á hugviti og heilbrigðu framtaki ein- staklinga. Markaðshagkerfið hefur reynst okk- ur Íslendingum best til að bæta hag þjóð- arinnar og þannig mun það áfram verða. Íslendingar munu standa þetta af sér og Ísland standa sterkt þegar óveðrinu linnir. Herdís Þórðardóttir, þingmaður Sjálf- stæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Í gegnum þjóðarvandann með raunsæi og styrk Á TÍMUM breytinga og um- róts er vert að minnast þess að menntun íslensku þjóðarinnar legg- ur grunn að hag- sæld til fram- tíðar. Gleymum ekki að Ísland er á meðal þeirra þjóða í heiminum sem búa við hvað best lífskjör sam- kvæmt skýrslum Sameinuðu þjóð- anna. Á síðustu dögum höfum við fengið að kynnast því á harkalegan hátt að gæfan getur verið hverful og á augabragði getur allt snúist í höndum okkar. Það er ekki gefið að við getum haldið áreynslulaust einu af þessum toppsætum á fyrr- nefndum lista – en líkurnar eru góð- ar ef við lögum menntakerfið enn frekar að þörfum einstaklingins. Á tímum hnattvæðingar og örra breyt- inga í efnahags- og atvinnumálum er tími til að sækja fram og þar gegnir menntun lykilhlutverki. Menntun landsmanna fylgir ákveðinni menntastefnu sem menntamálaráðuneytið leiðir. Menntastefna er því loforð um fram- boð á menntun, að menntakerfið geti verið sveigjanlegt og sérsniðið að þörfum hvers og eins. Það er skylda okkar sem vinnum að menntamálum að gera fólki kleift að stunda það nám sem það óskar eftir og að það geti nýtt menntunina áfram út í samfélagið. Í okkar sam- félagi sem býr við öra þróun og oft og tíðum snarpar breytingar er það einnig í okkar verkahring að hafa ávallt í boði námsleiðir fyrir ein- staklinga til að bæta við sig í mennt- un og auka þar með hæfni sína til að lifa og starfa í nútíma þjóðfélagi og þar koma sí- og endurmennt- unardeildir vítt og breitt um landið afar sterkar inn. Við Landbúnaðarháskóla Íslands er rekin öflug endurmenntunardeild sem býður upp á fjöldann allan af námskeiðum. Framboðið end- urspeglar þær námsleiðir sem kenndar eru í skólanum bæði á starfsmennta- og háskólastigi. Vett- vangur Endurmenntunar LBHÍ er landið allt en helmingur námskeið- anna er haldinn utan starfsstöðva skólans. Á þann hátt reynum við m.a. að koma til móts við óskir landsmanna og bjóða þeim upp á aukin tækifæri og val um viðbót- armenntun. Styrkleikar Endurmenntunar LBHÍ felast aðallega í tvennu: Ann- ars vegar í breiðu úrvali námskeiða þar sem gæði eru sett í fyrsta sæti. Þar má benda á afar öflug námskeið er tengjast landbúnaði í víðasta skilningi, hestanámskeið, umhverf- isskipulagi, blómaskreytingum, skógfræði og garðyrkju svo fátt eitt sé nefnt. Hins vegar er um að ræða afar gott samstarf við fjöldann allan af fyrirtækjum, stofnunum og fé- lagasamtökum um þróun námskeiða og hugsanlega námsstyrki til þátt- takenda. Með þessu viljum við meina að Endurmenntun LbhÍ sé afar framarlega í því að laga mennta- kerfið að ólíkum þörfum ein- staklinga og skapa þá sveigju sem til þarf í hvert og eitt skipti. Eins gerir þetta Endurmenntun LBHÍ afar hæfa til þess að bregðast hratt og örugglega við breytingum sem geta átt sér stað í þjóðfélaginu. Látum ekki hugfallast, horfum fram á veginn. Menntun íslensku þjóðarinnar mun fleyta henni áfram inn í bjartari tíma. Guðrún Lárusdóttir, endur- menntunarstjóri LBHÍ. Mennt er máttur „ÞAGAÐ gat ég þá með sann, þegar hún Skál- holtskirkja brann.“ Þessi orðskviður er hafður um þá sem eru vitrir eftir á. Nú er stórbruni nýafstað- inn og uppbygging framundan, sem tvísýnt er um hvernig til tekst. Lítið hefur farið fyrir Hannesi Hólmsteini í aðdraganda brunans, sem brennt hef- ur upp stóran part af sparifé landsmanna og hluta- bréfamarkaðinn eins og hann lagði sig. Hinn 29. okt. talaði hann þó til lesenda Fréttablaðsins og heitir greinin: „Jafnvægið raskaðist“. Nákvæmara hefði verið hjá Hannesi að segja: Jafnvæginu var raskað, því að ekki er um að ræða náttúruhamfarir heldur ein örlagaríkustu mistök Ís- landssögunnar. Ég hef grun um að kveikjan að grein Hannesar hafi verið lítil grein sem undirritaður skrifaði í Mbl. 12. okt., um það hvernig frumstæður kapítalismi (frjálshyggjan) raskaði valda- jafnvægi á Sturlungaöld með afleiðingum sem flestir þekkja. Hann- es skýrir ástandið með alþjóðlegri lánsfjárkreppu. En það er sauð- ljóst að skuldatryggingarálagið var fyrir alllöngu orðið þungt. Það kom að sjálfsögðu til vegna þess að erlendar lánastofnanir sáu að ís- lensku bankarnir voru ekki trausts verðir. Aðvaranir komu á löngu tímabili, úr öllum áttum. Seðlabanki og ríkisstjórn skelltu skollaeyr- um við eða sáu ekki hætturnar. Hannes Hólmsteinn bærði ekki á sér. Ekki var von til þess að Gordon Brown tæki hluta óreiðunnar ótilneyddur á herðar bresku þjóðinni. Hannes dregur Jón Ásgeir út úr hinum stóra hópi fjárhættuspil- ara frjálshyggjunnar og lastar hann. Það er þó morgunljóst að þeir feðgar seldu okkur vöru á betra verði en aðrir lærisveinar Hannesar Hólmsteins. Jóhannes föður Jóns Ásgeirs kannast ég lít- illega við. Hann er prentari, eins og ég, en fór snemma að starfa að verslun og var þekktur að dugnaði og framtakssemi, sem mig hefur sjálfan sárlega vantað. Öfund hjá mér í hans garð hefur aldrei bært á sér. Hana hefur ekki vantað úr ýmsum stað. Hannes Hólmsteinn segir í grein sinni þrjá auðmannahópa hafa átt bank- ana, stærstu fyrirtækin og fjölmiðlana. Kannski saknar Hannes Hólmsteinn Þjóðviljans gamla jafn mikið og ég saknaði Morg- unblaðsins og Fréttablaðsins, ef þau hættu að koma út? Hannes og frjálshyggjusveit hans hafa, að best ég man, lengi viljað einka- væða Ríkisútvarpið eða gelda, með afnámi auglýsingatekna. Ekki er tryggt ef svo færi, að Ríkisútvarpið lenti í „réttum“ höndum. Hannes segir að Davíð hafi skynjað hættu og ætlað með fjölmiðla- frumvarpinu að tryggja dreifingu valds og eitthvert aðhald, en forset- inn synjað staðfestingar. Þetta má rétt vera, en harkalegur málflutn- ingur og einræðistilburðir settu málið í lokaðan farveg. Hannes segir: „Vinstri sinnar klöppuðu fyrir forsetanum af sama kappi og hann fyrir útrásarmönnunum. Áræðnir auðmæringar töldu sér eftir þetta alla vegi færa.“ Ég hef svo sem enga löngun til þess að verja forseta vorn, en þessi ummæli Hannesar eru ótrúlega ósann- gjörn. Forsetinn hefur með samböndum sínum í fjarlægum löndum jafnvel, komið á tengslum milli aðila í verslun og iðnaði. Hann ber að sjálfsögðu enga ábyrgð á því hvernig úr spilast. Hitt er svo bersýni- legt að þeir félagar í Seðlabankanum og stjórnvöld hafa vanrækt að setja hinum frjálshyggnu útrásarmönnum eðlileg takmörk. Nú verður þjóðin með samstilltu átaki félagshyggju að hafa mild- andi áhrif á þróunina. Úlfarnir bíða í skógarjaðri frjálshyggjunnar, en við sláum skjaldborg hvert um annað. Við skulum spara bíla okkar, en nota almenningssamgöngur sem mest. Við skulum kaupa íslenskt. Við ættum að efla félagsstarf af ýmsum toga, en fækka utanferðum. Þetta á líka við um þingmenn og seðlabankastjóra. Ég er staðráðinn í því að minnast ekki á eftirlaunin sem þingmenn tóku sér, en skammast mín sárlega fyrir tvískinnung hinna „vinstri“ sinnuðu þingmanna og ráð- herra. Jafnvæginu var raskað Jóhannes Eiríksson, prentari. KÆRI Björgvin! Mig langar til að herma upp á þig margendurtekið loforð í fjöl- miðlum um að tap innistæðueig- enda í peningamarkaðssjóðum verði lágmarkað. Nú er komið í ljós að eigendur peningabréfa í Landsbankanum tapa að jafnaði um þriðjungi innistæðna sinna; eigendur í peningamarkaðssjóðum Glitnis og Kaupþings 15-22%. Ætl- ar ríkisstjórn Íslands, hinn nýi eigandi bankanna, að bregðast við þessari eignaupptöku á einhvern hátt? Einhver kynni að segja að þessum innistæðueigendum hefði verið nær að leggja peningana sína bara á gamaldags bankabæk- ur. En þar er ekki allt sem sýnist. Í fyrra lagi fékk fjöldi innistæðueig- enda þau boð frá bönkum sínum (og sumir eiga það skriflegt) að peningamarkaðssjóðir væru jafn- öruggir og aðrar innistæður. Það sem meira er: Hringt var í fjölda viðskiptavina, þar á meðal und- irritaðan, og þeir snupraðir fyrir þá heimsku að geyma peningana sína ekki í bestu, öruggu ávöxt- unarleiðinni. Ég treysti bankanum mínum – sem ég vann meira að segja einu sinni í sem ungur mað- ur og þekkti af góðu einu. Ég las aldrei smáa letrið. Í síðara lagi hefði það í raun ekki skipt máli þótt smáa letrið væri lesið. Á vef Tryggingarsjóðs innistæðueigenda kemur fram að fyrir neyðarlögin hafi innistæður á venjulegum bankabókum verið tryggðar upp að rúmum 3 milljónum króna. Hins vegar er sagt berum orðum að „litlar líkur“ séu á að hlutdeild- arhafar í verðbréfasjóðum tapi innistæðum sínum þó að eigandi þeirra (hér: bankinn) fari í þrot þar sem rekstri þeirra sé haldið sjálfstæðum. Hafi einhver óttast bankahrun á Íslandi fyrir byrjun október þá hlaut sá hinn sami að draga þá ályktun að öruggara væri að geyma peninga (yfir 3 milljónir kr.) í peningamarkaðssjóðum en á venjulegum bankareikningum. Neyðarlögin ykkar gjörbreyttu þessu. Þar var á einni kvöldstund ákveðið að venjulegar bankainnistæður væru tryggðar að fullu en pen- ingamark- aðssjóðir alls ekkert. Gat ein- hver séð það fyrir? Var jafnræði þegnanna tryggt með þessari ákvörðun, Björgvin? Eigendur innistæðna í peningamarkaðssjóðum voru ekki áhættufíklar heldur öryggisfíklar! Nú gjalda þeir þess. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þröngt er í búi hjá smáfuglum þessa lands, hvort sem þeir heita ríkissjóður eða bankasjóðir. Ég geri ekki þá kröfu að fá þriðjung- inn af sparnaði mínum sem hvarf í Landsbankahítina (vegna dæmaf- árrar óráðsíu stjórnenda sjóðsins síðustu vikur fyrir hrunið) greidd- an út í beinhörðum peningum á morgun. En ég tel mig eiga laga- lega og ekki síður siðferðilega kröfu á hendur Landsbankanum – og hinum nýja eiganda hans – að ég fái þessa peninga til baka með tíð og tíma. Til þrautavara geri ég þá kröfu að endurgreiðsluhlutfallið verði a.m.k. ekki lægra en hjá öðr- um ríkisbönkum. Mörg okkar sem töpuðum fé skuldum húsnæðislán í ríkisbönk- unum þremur og/eða Íbúðalána- sjóði. Ég væri fullkomlega sáttur við að tap okkar væri jafnað á móti þessum skuldum. Annar möguleiki væri að fá mismuninn settan inn á bundinn, verð- tryggðan reikning sem við gæt- um tekið út af þegar um hægist í samfélaginu og bankarnir eru komnir á skrið, til dæmis eftir þrjú ár. Með slíkum ákvörðunum væri vissulega verið að „lág- marka“ tap okkar. Væri slíkt ekki í samræmi við fyrirheit þín í vikunni eftir bankahrunið, Björg- vin? Opið bréf til viðskiptaráðherra um peningamarkaðssjóði Kristján Kristjánsson, prófessor og ólánsamur eigandi peningabréfa Landsbankans

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.