Fréttablaðið - 09.05.2009, Qupperneq 24
24 9. maí 2009 LAUGARDAGUR
Ættum að hætta með átaksdagana
Þorgeir Ástvaldsson fór einu sinni á „vatnskúrinn“. Ilmur Kristjánsdóttir hefur prófað „sítrónukúrinn“. Leikkonan og útvarps-
maðurinn sögðu Júlíu Margréti Alexandersdóttur álit sitt á megrunarkúrum, átaksdögum og voru bæði á því að jógasetur Íslands
yrði flott í nýju glerhöllinni í Borgartúni.
Hver er fyrsta minning ykkar um
hvort annað?
Ilmur: Já, það er nefnilega saga
að segja frá því. Dóttir Þorgeirs,
Eva Rún, er nefnilega gömul vin-
kona mín, og ég man hvað mér
fannst alltaf gaman að koma heim
til þeirra og hitta útvarpsmann-
inn. Mömmu fannst heldur alls
ekki slæmt að ég væri að kynnast
Togga Tempó.
Þorgeir: Haha. Já, það var held-
ur ekki slæmt að kynnast Ilmi.
Hún var svolítið öðruvísi en þess-
ir venjulegu undirleitu ungling-
ar. Og hún gat verið fyndin og var
svolítið frökk.
Ilmur: Og svo var það Icy-taskan.
Þorgeir fór nefnilega út með Icy-
hópnum á sínum tíma og átti tösk-
una sem var merkt hópnum. Ein-
hvern veginn frétti hann að systir
mín væri einn mesti Eurovision-
aðdáandi Íslands. Og úr varð að
systir mín fékk töskuna.
Þorgeir: Ég man meira að segja
eftir því að við fórum í sér bíl-
túr til að afhenda töskuna. Syst-
ir Ilmar var ofsalega ánægð, sem
kom mér mikið á óvart, því á þess-
um tíma þótti alls ekki töff að fíla
Eurovision. En hún var ákaflega
heil í því að dá keppnina og Gleði-
bankataskan gladdi hana greini-
lega innilega.
Lína Langsokkur á sítrónukúrnum
Byrjum á fæðubótarefnum. Lyfja-
eftirlit Bandaríkjanna hefur hvatt
neytendur til að hætta neyslu
á nokkrum tegundum af fitu-
brennsluefninu hydroxycut þar
sem grunur leikur á um að það geti
valdið lifrarskaða og gulu. Hafið
þið neytt einhverra fæðubótar-
efna eða farið á sérstaka megrun-
arkúra? Hver er fyrsti megrunar-
kúrinn sem þið heyrðuð af?
Ilmur: Ég hef aldrei verið á nein-
um fæðubótarefnum og finnst
það mjög óhugnanlegt fyrirbæri.
Heldur trúi ég ekki á megrunar-
kúra og finnst þeir bara, tja, frek-
ar sorglegir.
Þorgeir: Munið þið eftir banana-
og hvítvínskúrnum? Eitt hvítvíns-
glas og einn banani í hverri mál-
tíð. Frá morgni til kvölds.
Ilmur: Já, alveg rétt. En þetta er
auðvitað allt spurning um sál-
rænt ástand. Að leita að jafnvægi
og finna það almennt í lífinu í öllu,
þótt óhóf í öllu, og líka mat, sé vit-
anlega slæmt. Ha, hef ég sjálf
farið í megrun? Uhm. Tjajá.
Þorgeir: Hvaða megrunarkúr
fórstu á?
Ilmur: Sko, þetta var þegar ég
var að leika í Línu Langsokk. Þá
fékk ég þá grillu í hausinn að fara
á kúr. Fór á sítrónukúrinn. Drakk
vatn með sítrónu í heila viku.
Þorgeir: Og borðaðir ekkert?
Ilmur: Hm, nei. Sem gekk auðvit-
að ekki. Að sjálf Lína Lang sokk-
ur væri að fara í heljarstökk á
einni sítrónusneið. Ég var orðin
frekar orkulítil og máttlaus eftir
þessa viku. Og fyrsti megrunar-
kúrinn sem ég heyrði um, hver
skyldi hann vera? Er það ekki
bara þessi „borða-ekki-nammi“
kúr sem maður heyrði fyrst um
sem krakki.
Þorgeir: Vatnskúrinn. Það var
fyrsti kúrinn sem maður heyrði
talað um. Þá átti maður sem sagt
bara að drekka vatn. Ég skildi
aldrei almennilega út á hvað þessi
kúr gekk því ég hef nefnilega allt-
af verið mjög duglegur að drekka
vatn. En ég prófaði þetta í einn
dag og gafst upp. Ég hef aldrei
enst við svona lagað – að verða að
gera eitthvað.
Jóhanna og Gunnar
Úr megrun yfir í innhverfa íhug-
un. David Lynch kom um síðustu
helgi til landsins og hélt fyrirlestur
um það fyrirbæri. Ef þið ættuð að
velja þjóðþekktan Íslending í hlut-
verk jógagúrús landsins, hver yrði
fyrir valinu og hvar mynduð þið
velja jógamusterinu stað?
Ilmur: Jógameistari eða annar
álíka leiðtogi þarf að vera mann-
eskja sem allir geta speglað sig í,
manneskja sem er heiðarleg og
ófeimin við að sýna bresti sína.
Sem sagt ekki fullkomin. Þar
stendur fremst að mínu mati for-
sætisráðherrann, Jóhanna Sig-
urðardóttir. Hún er heil í sínu og
reynir ekki að sýnast önnur en
hún er.
Þorgeir: Ég myndi fá Gunnar í
Krossinum til að vera jógameist-
ara.
Ilmur: (lítur snöggt á Þorgeir):
Ha?
Þorgeir: Já, ég er alls ekki sam-
mála Gunnari en ég get samt sagt
ykkur það að sem útvarpsmað-
ur hef ég aldrei haft annan eins
viðmælanda og Gunnar. Hann er
svo staðfastur í sinni trú og sínum
boðskap að það er eiginlega ekki
annað hægt en að hrífast með oft
á tíðum. Ég hef mjög oft talað við
hann í gegnum tíðina, tekið viðtöl
við hann og hlustað á hann á opin-
berum vettvangi. Á öllum þessum
tíma hugsa ég að ég hafi aðeins
einu sinni séð hann hika smáveg-
is. Það er sama hvaða spurning-
um ég dembi á hann, hann er allt-
af með svör á reiðum höndum og
talar fumlaust.
Ilmur: Þarna verð ég að vera ósam-
mála. Mér finnst menn sem efast
ekki hættulegir. Fyrir mér er það
að trúa – það að efast.
Þorgeir: Ég spurði einmitt Gunnar
út í hraðbátinn sem hann var að fá
sér. Benti honum á að frelsarinn
hefði ekki þurft neitt slíkt tól til að
sigla með sig á vatninu, hann hefði
bara gengið. Gunnar var ekki lengi
að svara því og sagðist ekki vera
frelsarinn, þótt hann kæmist ansi
nálægt því. Og lærisveinar Jesú
hefði allir verið fiskimenn og svo
taldi hann upp það sem veitt var og
svo framvegis, þar til maður var
orðinn kjaftstopp.
Ilmur: Allt í lagi þá. Ég er svo
með húsnæðið fyrir jógamuster-
ið okkar, Þorgeir. Glerhýsið þarna
risastóra á horni Borgartúns
og Höfðatúns. Getum látið þau
bæði messa og fólk íhuga á öllum
hæðum. Það er auðvitað svo stór-
kostlegt útsýni þarna til allra átta
að ég get ekki ímyndað mér annað
en að allir nái innri ró.
Þorgeir: Það hljómar vel.
Ekki-tala-dagurinn
Áfram á heilsufarslegum nótum.
Nú stendur yfir átakið Hjólað í
vinnuna. Ef þið ættuð að hanna
einhvern dag í þessum anda þar
sem Íslendingar gera ekki eitthvað
sem þeir eru vanir að gera, eins og
að vera í megrun, hvernig yrði sá
dagur? Og ef þið ættuð að hanna
heilt ár út frá sömu hugsun, hvert
yrði þemað? Hvaða Íslendingur
haldið þið að sé pottþétt ekki á
reiðhjóli í dag og verði ekki næstu
daga?
Þorgeir: Vitið þið að helst þrái ég
þögn. Ég myndi vilja að allir þegðu
í heilan dag. Þarna er ég auðvitað
mjög litaður af því að vinna við
fjölmiðla. Þar heyrir maður allt
of mikið og mjög mikið hreinlega
sem mann langar ekkert að heyra,
um alls kyns svínari og spillingu.
Mitt besta frí er þögnin.
Ilmur: Og þá myndi ég nýta þögn-
ina hans Þorgeirs þennan dag í að
fá þjóðina til að íhuga hvort við
getum ekki hætt að vera með alla
þessa „ekki“ daga. Hvort sem er
megrunarlausa eða bíllausa dag-
inn. Allt sem heitir átak hljómar
frekar illa. Það liggur eiginlega
í orðsins eðli, „átak“, að þetta sé
eitthvað sem þú þarft að rembast
við að ná í gegn og taka grettis-
taki. Viljum við ekki hætta remb-
ingi og bara láta hlutina gerast
rólega og eðlilega?
Þorgeir: Innilega sammála. Og
ekki dettur mér í hug að hvetja
börnin mín til að fara hjólandi út í
þessa umferð.
Ilmur: En þemað í heilt ár. Það
yrði nú svolítið erfitt að þegja Þor-
geir í heilt ár. Eigum við að segja
að það sé ár íhugunar þar sem
þakklætið er þemað. Að þjóðin
myndi hugsa hvað hún hefði margt
til að þakka fyrir. Ég var úti í Mós-
ambík þegar efnahagshrunið varð
í haust og yfir okkur dundu sms-
skilaboð um þjóðnýtingu Glitnis
og fall bankanna. Ég verð að segja
að mér gat ekki hafa verið meira
sama. Í fyllstu einlægni. Ég var í
kringum alnæmissmituð börn sem
áttu enga foreldra og varla mat.
Við höfum svo margt hér, hreint
vatn, fiskinn í sjónum, fjölskyldu.
Hvað annað þurfum við?
Þorgeir: Það er gott þema. Ég held
að það sé spurning um að hugleiða
gömlu góðu gildin.
Ilmur: Og ekki endilega bara þau.
Það er svo mikil nostalgía í okkur
nefnilega. Við ættum kannski ekki
að þurfa að hanga í gildum fortíð-
ar. Hvað með bara gildi framtíð-
arinnar?
Þorgeir: Kannski gæti árið verið
helgað því að huga að þeim sem
standa okkur næst. Gamla fólkinu
sem hefur lifað tímana tvenna og
hlær nú eiginlega bara að því að
við teljum okkur eiga svona bágt.
Mér finnst annars mjög ólíklegt að
Gissur Sigurðsson sé á reiðhjóli.
Ilmur: Ekki heldur Sigurjón Kjart-
ansson. Hann er pottþétt ekki
hjólandi í dag.
Að lokum. Íslendingar virðast
ætla að rækta sem aldrei fyrr
þetta sumar miðað við aðsókn-
artölur í matjurtagarða. Þó ekki
bara grænmeti heldur líka kanna-
bisplöntur. Af hverju haldið þið að
lögreglan sé allt í einu að finna
allar þessar hassplöntur? Hvað
finnst ykkur að gera eigi við allar
þessar plöntur sem hafa verið
gerðar upptækar? Og búnaðinn;
lampana og vökvunarbúnaðinn?
Þorgeir: Er ekki talað um að þeir
hafi komist yfir einhver gögn?
Ilmur: Jú. Skrár Orkuveitunnar
eða eitthvað slíkt. Það bara hlýtur
að vera komin einhver ný aðferð.
En varðandi hassplöntuna, hamp-
inn, þá er hún fínasta efni og til
margra hluta nytsamleg. Það er
mjög óhentugt ef þessu verður
bara hent. Það mætti nota hamp-
inn í margt. Til að mynda er hann
frábært efni í vefnað, sápur, krem,
byggingarefni og fleira.
Þorgeir: Þetta er auðvitað bara
frábært plan hjá Ilmi. Ég verð
bara að vera sammála þessu. Og
þá þurfum við áfram á ljósunum
og vökvunarbúnaðinum að halda.
Hér höfum við nýjan iðnað.
Á RÖKSTÓLUM
ÞEKKJAST FRÁ FORNRI TÍÐ Þorgeir Ástvaldsson útvarpsmaður og Ilmur Kristjánsdóttir leikkona hafa þekkst lengi en Ilmur er vinkona dóttur hans. Þorgeir gaf systur Ilmar eitt sinn forláta Gleðibankatösku. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI