Sjómannablaðið Víkingur - 01.12.1979, Qupperneq 9
horfinn. Menn búa sér til skurðgoð sem eru
gráðug og svikul. Og þegar þau bregðast
stendur maðurinn eftir einn, aleinn.
Rödd kirkjunnar er ekki þögnuð. Kirkjan
kallar inn í þennan heim, heim vonleysis og
óhamingju og biður menn að snúa við. Hún
bendir á að ef líf þitt er grundvallað á Kristi,
ertu aldrei einn. En hver heyrir rödd kirkj-
unnar í hávaðasömum heimi? Hver má vera
að því að staldra við og hlýða á boðskap
Krists, sem oft er eins og fleinn i það
samfélag sem metur allt til fjár? Er það ekki
ástæðan fyrir því að víða er brákaður reyr og
tár á hvarmi?
Frelsi er orð sem lætur hátt í eyrum dag
hvern. Frelsi er lausnarorðið á tungu margra
sem telja sig til þess kallaða að leiðbeina og
kenna öðrum. En frelsið getur verið tví-
eggjað.
Frelsi er eitt grundvallaratriði þess að
maðurinn nái mannlegri reisn. En ef við
misnotum það og gerum bæði það sem rangt
er og óhollt, glötum við mennsku okkar. Þá
erum við ekki frjáls, heldur þrælar lítilmót-
legra hvata.
Víðsýni, framfarahugur og frelsisást er
ekki fólgið í takmarkalausu umburðalyndi
gagnvart hverju sem er, ólifnaði, ranglæti
eða hverri kenningargolu sem um samfé-
lagið leikur.
Frelsi kristins manns er fólgið í því að
leiðbeina, örva og styrkja af góðum og ein-
lægum huga. Hlúa að brákuðum reyr og
þerra tár af hvarmi.
Það er frelsi kærleikans sem vill reyna að
bjarga en horfir ekki aðgerðarlaust á þegar
barn Guðs lendir í ófæru. Kirkja Krists vill
ekki vera hljóðlát um framtíðarheill þjóðar.
Hún vill tala skýrt og opinskátt svo að eftir
verði tekið. En umfram allt vill hún vera
sönn og beygja ekki af vegi sannleikans sem
opinberaður er í heilagri ritningu.
„Líðandi stund er gullið á fingri tímans“.
Láttu ekki gullið dýra sáldrast niður milli
fingra þinna og týnast í sora og forarpollum
mannlegrar niðurlægingar.
Reisn mannsins er mikil þegar best lætur.
Þá er hann kóróna sköpunarverksins. En
hann er lítilsigldur í veikleika sínum þegar
hann lætur undan hverri freistingu, eltir
sérhvert tískutildur og hégóma sem birtist
honum á öld tilgangsleysis og undansláttar.
Menn leita oft langt út í fáránleikann til i
að reyna að finna sál sinni frið og lífi sínu
tilgang. En það þarf ekki að leita í austur eða
vestur að forskrift að lífi þjóðar eða ein-
staklings.
Svör og leiðsögn er að finna í trú og trausti
á Drottin Guð. Hann bregst ekki þegar
kaldur raunveruleikinn hefur tínt af mann-
inum gerviblómin, skrautfjaðrirnar. Þegar
skurðgoðin eru fallin af stalli og maðurinn
er eftir skilinn einn. Þegar glamur og hávaði
heimsins þagnar og maðurinn stendur einn í
þögninni þá er Kristur þar og býður honum
nýtt líf.
Fagnaðarboðskapurinn sem fiskimenn
fátækir fengu í hendur forðum á vissulega
erindi við þig.
„V erið óhræddir," sagði engillinn við fjár-
hirðana á Betlehemsvöllum. Verið óhrædd-
ir, segir kirkjan í dag. Kristur sem á jólum
fæddist, lifir. Hann vill gefa þér nýtt líf.
Guð gefi sjómönnum öllum og fjölskyld-
um þeirra gleðileg og heilög jól.
Drottinn Guð gef sjómönnum öllum far-
arheill og góða heimkomu.
Kjartan Örn Sigurbjörnsson
sóknarprestur
í Vestmannaeyjum.
VÍKINGUR
9