Náttúrufræðingurinn - 1970, Page 14
138
NÁTTÚRUFRÆÐINGURINN
Jón kvæntist Kristínu Vigfúsdóttur frá Vatnsdalshólum árið
1921, en hún lézt 1946. Þau eignuðust sex börn, Björgu, Sverri,
Eyþór, Ingibjörgu, Eirík og Kristínu. Ingibjörg dó ung, en Sverrir
flugstjóri fórst í flugslysi við Norðfjörð í janúar 1966. Síðari kona
hans var Ada V. Ágot, f. Holst. Þau slitu samvistum.
Aldrei átti ég þess kost að kynnast Jóni á leiðangursferðum. En
þeir, sem til þekkja, segja hann hafa verið frábæran leiðangurs-
stjóra, hagsýnan og örvandi, fór að öllu með gát, en þrautseigur,
ef með þurfti. Og þessu líkur var liann einnig við dagleg skyldu-
störf.
Jón var oft þungt haldinn síðustu mánuðina, sem hann lifði.
Þá mun hugur flestra snúast að því, sem hverjum manni er nánast,
fjölskyldu og einkavinum. Jóni var þó svo farið, að hann sinnti
einnig þeim málum, er hann hafði helgað langt ævistarf, að þessu
sinni til að tryggja eftir mætti, að þar tækju aðrir upp þráðinn,
er hann varð frá að hverfa. Hann lézt 6. marz 1968 og var jarð-
settur að fæðingarstað sínum, Þingeyrum, nokkru síðar.
Nú verða næstu kynslóðir íslenzkra náttúrufræðinga að taka við
vísindagreinum þeim, er hann starfaði að, bæta við þær og skila
áfram næsta áfangann.
Hlynur Sigtryggsson.