Náttúrufræðingurinn - 1992, Blaðsíða 52
slíku. Á það er og að líta að vitneskja
annálaritara um svo staðbundna hluti
hlýtur að byggjast á athygli heima-
manna, sem að sjálfsögðu er misglögg
eftir einstaklingum á hverjum tíma.
Enn má nefna að það heyrir til und-
antekninga að tvö eða fleiri Heklugos
beri upp á fullorðinsár eins og sama
manns, þar til nú á síðastliðinni aldar-
helft. Af sömu ástæðu er það sem sagt
verður um árin næstu fyrir gosið 1947
heldur en ekki fátæklegt, svo jaðrar
við þjóðsagnablæ á köflum, en fær
eigi að síður að fljóta með.
Á árunum 1935 til 1947 er húsfreyja
í Selsundi Ólöf Kristjánsdóttir frá
Vetleifsholti í Ásahreppi. Draumspök
var Ólöf og nokkuð vættatrúar, en þó
af samtímamönnum talin snjallgreind.
Einhvern tíma á síðustu árum Ólafar í
Selsundi var eftir henni haft að eigi
myndi þrjóta vatn í bæjarbrunninum
meðan hún byggi þar, og bar fyrir því
draumkonu sína. Hvort sem menn
telja mark að draumum eður ei er þetta
þó nokkur vísbending um það að vatns-
þurrðar hafi farið að gæta í Selsundi
nokkru fyrir gosið 1947, en á því ári
flutti Ólöf og hennar fólk frá Selsundi.
Nú er að segja frá því að um sumar-
ið 1949 gerist sá sem þetta skráir hag-
vanur í Selsundi. Þá er svo háttað
vatnsbúskap þar að áðurnefndur bæj-
arbrunnur var þurr, og bæjarlækurinn
sem Lind nefnist, pollur einn við upp-
tök og varð eigi nýttur. Vitað er að í
júlí 1952 er þetta óbreytt og neyslu-
vatn enn sótt í Selsundslæk, og er sá
vatnsvegur um 300 m þar sem
skemmst er að fara. Ekki er nákvæm-
lega vitað hve lengi þetta ástand var-
aði, en mun þó hafa breyst fljótlega
eftir þetta. Er nú ekki tíðinda næstu
árin, nema lækir á Hekluslóðum
renna fram bakkafullir. Þá er það á
öndverðu sumri 1968 að mjög tekur að
lækka í lækjum á umræddu svæði og
var svo komið þegar Heklugos hófst
1970 að sumir þeirra voru alveg þurr-
ir. Ekki var hugað mjög að þessu að
því sinni og hefur þetta ástand senni-
lega ekki varað lengi að gosi loknu.
Verulega athygli vekur þetta eigi fyrr
en í gosinu 1980, en þá hafði hið sama
gerst að á árinu 1978 fór að þverra í
lækjunum og fyrst eftir gosið mun
vatnsborð í þeim hafa verið allt að 15
cm lægra en venjulega. Eitthvað mun
þessi vatnsþurrð hafa varað lengur en
um gosið 1970 og má vera að orsök
þess sé goshrinan á útmánuðum 1981.
Að fenginni þessari reynslu er kannski
ekki að undra þó heimamönnum
brygði nokkuð þegar snögglega tók að
minnka í Iækjum snemma á útmánuð-
um 1988. En nú brá mær vana sínum,
því í byrjun desember sama ár óx að
nýju vatnið án þess að til annarra tíð-
inda drægi. I þetta sinn varð mest 12
cm borð á lækjunum og voru þeir aftur
komnir í venjulegt horf þegar Heklugos
hófst í janúar 1991. Af þessu sést að
ekki er eðlilegt vatnsborð lækja trygg-
ing fyrir því að hið aldna fljóð bregði
eigi blundi þegar minnst varir.
Þess skal loks getið að við athugun
á úrkomumælingum veðurstofunnar á
Hæl í Gnúpverjahreppi og Leiru-
bakka í Landssveit er ekki að finna
neinar þær sveiflur í úrkomumagni
sem valdið gætu hinu duttlungafulla
atferli lækja á Heklusvæðinu á þessu
tímabili.
Um það sem hér er til tínt um við-
burði tengda þremur síðustu Heklu-
gosum hefur verið haft samráð við
Ófeig Ófeigsson í Næfurholti.
Frekari tíðinda af þessum hlutum
mun vart að vænta fyrr en að afloknu
hugsanlegu „aldamótagosi“ og má þá
vera að til komi nýjar og traustari
heimildir.
194