Samvinnan - 01.04.1969, Síða 37

Samvinnan - 01.04.1969, Síða 37
BRÉF TIL JOLIOTS (Brot) Kæri Joliot, ég skrifa þér frá eyju Heilags Stratis. Við erum hér um þrjár þúsundir, óbrotnar manneskjur, verkamenn handa og anda, með götóttar rýjur um axlir, með lauk, fimm ólífur og þurrar brauðskorpur í skjóðunni, óbrotnar manneskjur einsog trén í sólinni, manneskjur sem hafa engan glæp á samvizkunni nema þann að elska einsog þú frelsið og friðinn. Kæri bróðir, Joliot, árum saman höfum við hrakizt frá eyðiey til eyðieyjar með tjöldin á bakinu, en okkur vinnst ekki tóm til að tjalda né gera hlóðir og bregða potti á eldinn né raka okkur og reykja sígarettustubb í morgunsárið. Frá vitjun til vitjunar, frá þrælkun til þrælkunar berum við í vösunum gamlar myndir vorsins æ snjáðari og ókunnuglegri. Var þetta okkar garður? Hvernig var hann? Hvernig eru varir sem hvísla ,,ég elska þig“? Hvernig eru tvær hendur sem breiða yfir þig teppið þegar þú leggst til svefns brosandi í nýþveginni skyrtu? Við munum það ekki. Við munum aðeins tunglskinsbjarta rödd um nótt, hljóðláta rödd sem biður um frelsi og frið. Og þannig áfram frá eyðiey til eyðieyjar berum við pinklana frá harmi til harms, berum við hjarta okkar í pinklunum, berum við trú okkar í hjartanu, oft og einatt brauðlaus, oft og einatt vatnslaus, hlekkjuð á höndum, fáum ekki tóm til að vingast við tré eða glugga, ævinlega hlekkjuð á höndum, afþví við erum óbrotnar manneskjur sem lærðum aldrei fremur en þú að afrækja frelsið og friðinn. Joliot, beiskt var brauðið sem við lögðum okkur til munns, beiskt að sjá dag renna og langa ekki til að skola framanúr sér og heilsa sólinni, beiskt þegar kvöldaði og engin stjarna þekkti mann aftur, beiskt þegar náttaði og ekkert vers til að fara með á svæflinum, beiskt að vilja deyja ánþess að hafa lokið nýjum söng, beiskt að vita um fegurð lífsins og verða að deyja fyrir frelsið og friðinn. Með hverjum degi eru teknar fleiri grafir, grafir, grafir, grafir. Jörðin er krökk af gröfum, bróðir. Hvergi reitur aflögu fyrir rósir til að gróa, fyrir börn til að leika sér, fyrir elskendur til að kyssast. En ævinlega nóg rúm á gröfum okkar, Joliot, fyrir frelsið og friðinn. Við höfum gleymt hvernig grænt laufblaðið heilsar nýjum degi, hvernig maurarnir gera sér bústað, hvernig sólskinið reikar um garðana, hvaða lit skuggar trjánna fá í vatnsfletinum, hvað ský með krosslagða arma segir undir kvöld, hvaða lögun líkami konunnar fær undir hvítri rekkjuvoð. Við munum aðeins þá sem dóu fyrir frelsið og friðinn. Joliot, lengi hef ég verið án pappírs, penna, tónlistar, vissi ekki hvar sólin kom upp, atlot golunnar voru framandi á örmum mér, brunnvatnið framandi á vörum mér, ánþess að skera skegg mitt, ánþess að yrkja Ijóð gleymdi ég, Joliot, að yrkja Ijóð, og lærði aðeins að skrifa þessi tvö orð: frelsi og friður. Joliot, ég veit að söngvar mínir eru skrautlausir og grófir; ég færi Ijóð mín í klossa með járnuðum sólum fyrir stórgrýtið sem þau verða að klöngrast yfir í dauðann fyrir frelsið og friðinn. Joliot, margir vildu setja nafn sitt undir þetta bréf, en þeir kunna ekki að skrifa, gera bara kross einsog bændurnir í Boníkró, en þetta fólk sem kann ekki að stafa nafnið sitt það getur gefið hjarta sitt allt fyrir frelsið og friðinn, og ég skrifa undir fyrir alla sem geta gefið hjarta sitt allt fyrir frelsið og friðinn. Sigurður A. Magnússon þýddi úr grísku. 37

x

Samvinnan

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.