Samvinnan - 01.06.1971, Side 40
ríkjastjórn reyndi að reisa um þá, með
því að koma á stjórnmálasambandi við
sem flest lönd.
Á síðasta Allsherjarþingi Sameinuðu
þjóðanna bar það til í fyrsta skipti á
þeim vettvangi, að meirihlutafylgi fékkst
við tillögu fulltrúa Albaníu og Alsír um
að Kínastjórn beri aðild að Sameinuðu
þjóðunum og sætið í Öryggisráðinu sem
stjórn Sjang Kaíséks á Taívan skipar nú.
Með þessari tillögu greiddu fulltrúar 51
ríkis atkvæði, en 49 voru á móti. Hún
náði þó ekki fram að ganga, þar sem
Bandaríkjunum tókst að fá sambvkkt
með 66 atkvæðum gegn 52, að í bessu
máli þyrfti tvo þriðju atkvæða til að
samþykkt fengi gildi.
Um síðustu áramót hafði Kína stjórn-
málasamband við 54 lönd, og síðan hafa
verið teknar upp viðræður við sjö önnur
um sendiherraskipti, ýmist opinberlega
eða í kyrrþey. Eru það Belgía, Luxem-
burg, Austurríki, Tyrkland, Perú, Bólivía
og Nýja Sjáland. Getur því hugsanlega
svo farið þegar á þessu ári, að ógerlegt
reynist fyrir Bandaríkin að hindra leng-
ur að raunveruleg stjórn Kína taki sæti
landsins i alþjóðasamtökunum, og í aðal-
stöðvum Sameinuðu þjóðanna er ríkjandi
skoðun, að útilokunarstefnan gagnvart
Kína hljóti að bíða skipbrot ekki síðar en
á Allsherjarþinginu 1972.
Þegar af þessari ástæðu er knýjandi
nauðsyn fyrir Bandaríkjastjórn að hugsa
sitt ráð og reyna að draga úr þeim álits-
hnekki, sem óhjákvæmilega verður því
samfara, þegar stefna hennar í tvo ára-
tugi samfleytt fer út um þúfur. Nú er
haft fyrir satt í Washington, að Nixon og
ráðgjafar hans hneigist að því að reyna
að bjarga sér úr þessari klípu með því að
taka upp svokallaða tveggja Kína stefnu,
sem felst í því að ekki verði lengur reynt
að þvinga bandamenn Bandaríkjanna til
að hindra að Kínastjórn taki sæti lands
síns hjá Sameinuðu þjóðunum, heldur
einungis að koma því til leiðar, að þetta
gerist án þess að stjórnin á Taívan
hrökklist brott. Á þessu úrræði er þó sá
hængur, að hvorki Kínastjórn né stjórnin
á Taívan vilja við lausninni líta; báðar
gera tilkall til að vera eina löglega stjórn
Kma, og er reyndar tilveruréttur stjórnar
Sjang Kaíséks í Taípeh háður þeirri kröfu
hennar.
Fjörbrot fyrri stefnu Nixons
En afstaðan til þess, hver fer með um-
boð Kína hjá Sameinuðu þjóðunum, er í
rauninni aðeins lítið atriði í þeim vanda,
sem Bandaríkin eru komin í vegna stefnu
sinnar gagnvart Kína á undanfarandi
áratugum. Sú stefna mótaðist í öndverðu
ekki sízt af því, að harðsnúinn hópur
í Repúblikanaflokknum sá sér leik á
borði í upphafi kalda stríðsins að koma
höggi á stjórnarflokkinn, Demókrata,
með því að kenna þeim um að kommún-
istar skyldu komast til valda í Kína.
Meðal þeirra Repúblikana, sem gátu sér
pólitískan orðstír í herferðinni sem náði
hámarki með kosningasigri Eisenhowers
1952 og blómaskeiði McCarthyismans sem
á eftir fór, var ungur fulltrúadeildar-
maður frá Kaliforníu, Richard Milhous
Bandaríski
borðtennisflokkurinn
leemur til Kina.
Nixon. Fyrir tilstilli hans og skoðana-
bræðra hans var mörkuð sú stefna, sem
nú er í fjörbrotunum á blóði drifnum
vígvöllum Indó-Kina. Stríðið sem hófst
í Suður-Víetnam og nú hefur breiðzt út
til nágrannalandanna byggðist á þeirri
forsendu, að bandarískt hervald yröi að
koma til skjalanna, ef heimskommún-
isminn, sem svo var nefndur, og kínversk
yfirráð ættu ekki að flæða um alla Suð-
austur-Asíu.
Eftir áratugs blóðsúthellingar og hern-
að sem víða stappar nærri landauðn er
deginum ljósara, að víetnömsk þjóðernis-
barátta undir kommúnískri forustu reyn-
ist Bandaríkjamönnum jafn torsótt og
Frökkum áður. Striðsreksturinn hefur
magnað um allan helming þjóðfélags-
vandamál í Bandaríkjunum sjálfum. Ric-
hard Nixon komst til æðstu valda við þær
aðstæður, að stefnan sem hann sjálfur
hafði átt þátt í að móta og koma á haíði
leitt Bandaríkin í ógöngur.
Nixon hefur sett sér að bjarga því sem
bjargað verður, valdaaðstöðu þess hóps í
Bandaríkjunum, sem hann er merkisberi
fyrir. Það hyggst hann gera með því að
binda enda á mannskæðan hernað af
Bandaríkjanna hálfu í Suðaustur-Asiu,
án þess þó að þurfa að viðurkenna upp-
gjöf eða ósigur. Eitt helzta skilyrðið til
að þetta takizt er, að afstaða Bandaríkj-
anna til Kína, helzta veldis Austur-Asíu,
sé skilgreind á ný.
Fyrir hálfu öðru ári var í þessum dálk-
um fjallað um hnattferð Nixons á fyrsta
valdaári hans, og því haldið fram, að hún
væri af hálfu Bandaríkjastjórnar viður-
kenning á breyttum valdaaðstæðum í
stórveldaátökum, þar sem fyrirsjáanlegt
væri að þríveldajafnvægi milli Banda-
ríkjanna, Kína og Sovétríkj anna myndi
taka við af tvíveldakeppni Bandaríkj-
anna og Sovétríkjanna, sem setti svip
sinn á fyrstu tvo áratugina eftir heims-
styrjöldina síðari.
Nú er engum blöðum lengur um það að
fletta, að þróunin stefnir í þessa átt.
Kunnugt er orðið, að strax á öndverðu
ári 1969 fyrirskipaði Nixon endurskoðun
á öllum þáttum afstöðu Bandaríkjanna
gagnvart Kína. Síðan hefur hann skref
fyrir skref linað á hömlum á samskiptum
og verzlun Bandaríkjamanna við Kína.
Jafnskjótt og Sjá Enlæ heilsaði borð-
tennisliðinu bandaríska með þeim orðum,
að brotið væri í blað í samskiptum þjóð-
anna, svaraði Nixon með því að aflétta
ýmsum bönnum á bandarísku liðsinni
við kínverska aðila í alþjóðaviðskiptum
og samgöngum, jafnframt því sem hann
ákvað heildarendurskoðun á ríkjandi
banni við beinni sölu bandarísks iðn-
varnings til Kína, með stórfelida rýmkun
fyrir augum.
Þrátt fyrir formlegt sambandsleysi
milli stjórnanna í Peking og Washing-
ton, er ekki svo að skilja að vinahót
þeirra hvorrar í garð annarrar, takmörk-
uð að vísu enn sem komið er, séu fálm í
blindni. Ýmsar ríkisstjórnir hafa í kyrr-
þey gerzt milligöngumenn, komið áleiðis
skilaboðum og uppástungum. Þótt allt
síkt fari fram með mestu leynd, er opin-
bert að stjórnir Frakklands og Rúmeníu
hafa þar einkum komið við sögu.
Sameiginlegir hagsmunir
Þegar grannt er að gáð, kemur á dag-
inn að bandarískir og kínverskir hags-
munir fara i ýmsu saman, þótt í mismun-
andi mæli sé, jafnskjótt og Bandaríkja-
stjórn hefur gefið frá sér fyrirætlanir um
að gerast drottnunarveldi i Suðaustur-
Asíu undir því yfirskini að verja svæðið
fyrir kínverskri ásælni. Undanhald
bandaríska heraflans frá Indó-Kína er
staðreynd; þar og í öðrum löndum í
Suðaustur- og Austur-Asíu hefur banda-
rísku herliði fækkað úr 740.000 manns í
420.000 á þrem misserum, síðan Nixon-
kenningin svonefnda var sett fram. Við
þetta rénar mesta hættan sem að Kina
steðjaði utanfrá, sem sé að hin stórveldin
tvö gerðu sameiginlega atlögu, Banda-
ríkin úr suðri, en Sovétríkin úr norðri.
Aftur á móti auðveldar það Nixon stór-
um að framkvæma og réttlæta stefnu
sína um heimkvaðningu herliðs frá Asíu,
ef sýna má fram á að sambúð við Kina sé
batnandi. Loks er bæði Bandaríkjunum
og Kína umhugað um að Sovétríkin fái
ekki komið ár sinni fyrir borð að neinu
marki í Suðaustur-Asíu, við það að
40