Samvinnan - 01.06.1971, Síða 43
sér yfirbragð sálarfræði og félagsfræði og
boðaður er gegnum fjölmiðlunartæki nú-
tímans, svo sem kvennablöð, sjónvarp og
nær m. a. s. inní skólana. Inntakið er
sumsé það, að konunni sé það sjálfri
fyrir beztu að beina sér algerlega að
hinu þrönga sviði, fjölskyldu og heimili,
og þannig njóti hún sín bezt persónulega.
í augum Betty Friedan er þetta óskamm-
feilin tilraun til að löghelga stöðnun og
forpokun konunnar og kalla það lífs-
hamingju, en hún bendir einnig á það,
að amerískar konur séu ekki líklegar til
þess að sætta sig endalaust við þessa
skipan."
Fyrsta rannsókn
Siðan greinir þar frá í forspjalli höf-
undar, þegar augu hennar taka smám-
saman að opnast fyrir því, að það hljóti
að vera meira en lítið bogið við það,
hvernig amerískar konur lifi lífi sínu.
Það byrjar þannig, að ýmsar spurningar
taka að leita á hana varðandi hennar
eigið líf. Hún var gift kona og þriggja
barna móðir og notaði jafnframt mennt-
un sína og hæfni til starfa, er færðu
hana burt frá heimilinu. Hún vann þessi
störf nánast með sektartilfinningu og þar
af leiðandi ekki heils hugar, eiginlega í
trássi við sjálfa sig.
Það eru þessar efasemdir, þetta spurn-
ingarmerki, sem stöðugt bærist hið innra
með henni, knýr hana til þess að hefjast
handa árið 1957 og gera skoðanakönnun
og félagslega rannsókn, sem byrjar meðal
skólafélaga hennar frá Smith College 15
árum eftir að hópurinn útskrifaðist það-
an. Hún framkvæmir þetta með víðtæk-
um spurningalistum og svo með persónu-
legum viðtölum.
Rétt er að skjóta þvi hér inn í, að
spurningar hennar vörðuðu til dæmis
fjölskyldustærð; voru þær giftar, ekk.'ur
eða fráskildar; hafði þeim fundizt skóla-
gangan verða sér til gagns eftir að skóla
lauk; unnu þær önnur störf en hússtörf
og þá hvers konar störf og að hve miklu
leyti; hvernig var viðhorf þeirra til
heimilis- og uppeldisstarfa; hvernig
framkvæmdu þær sitt heimilishald; hvað
eyddu þær miklum tíma í hin daglegu
hússtörf; fannst þeim rétt, að húsmæð-
ur ynnu einnig önnur störf; var þeim nóg
að sinna einungis um heimili; hvernig
eyddu þær tómstundum sínum; hvernig
lesefni völdu þær sér; höfðu þær lokið
frekara námi og þá hverju; hvað höfðu
þær hugsað sér að gera af sér, þegar
börnin stækkuðu og þær væru ekki eins
bundnar við heimilið; voru þær tilbúnar,
ef færi gæfist, að hefja einhver störf,
eitthvert nám eða halda áfram þar sem
frá var horfið; fannst þeim að fyrri
skólaganga myndi vera þeim stuðningur
og gagnleg hvað það snerti; höfðu þær
alla tíð frá skólalokum sinnt alvarlegum
áhugamálum og þá hverjum; fannst þeim
eitthvað á skorta, að þær hefðu á sínum
tíma tekið nám sitt nógu alvarlega; fundu
þær nú til þess, að þær iðruðust einhvers
í þeim efnum? Höfundur bendir einnig á,
að þessi árgangur sé meðal þeirra síðustu,
sem ljúka skólanámi áður en áhrif vissra
viðhorfa gagnvart konum og stöðu þeirra
taki fyrir alvöru að breiðast út. Svörin
frá þeim 200 konum, sem þetta tók til í
fyrstu lotu, gerðu henni það ljóst, að sá
vandi, sem ýmsum þeirra var á höndum,
stóð ekki i sambandi við skólagönguna,
menntunina, einsog þá var útbreidd skoð-
un. Vandamál þessara kvenna voru þau
sömu, sem hún kannaðist sjálf mætavel
við; allt það, sem gaf lífi þeirra innihald,
mat þeirra á menntuninni, var einhvern-
veginn á allt annan veg en þær höfðu
heyrt haldið fram á opinberum vett-
vangi. Þessi viðhorf þeirra féllu einfald-
lega ekki að þeirri ímynd amerisku kon-
unnar, sem birtist á almennum vettvangi,
í blöðum og fjölmiðlunartækjum. Það
reyndist vera undarlegt ósamræmi milli
raunveruleikans, staðreyndanna í lífi
þeirra, og þeirrar ímyndar, sem þær höfðu
leitazt við að laga sig að, þess lífs-
munsturs sem hún nefnir „Þjóðsöguna
um konuna“. Hún veltir því fyrir sér,
hvort einnig öðrum konum finnist þær
standa frammi fyrir slíkum andstæðum,
og hvað það gæti þýtt.
Þá fer Betty Friedan að hefjast handa
um að rekja orsakirnar til þessarar þjóð-
sögu og áhrifa hennar á þær konur, sem
lifðu lífi sínu samkvæmt henni og voru
aldar upp við hana. Hún nefnir, að fleiri
sambærilegar félagslegar rannsóknir hafi
verið á döfinni um þetta sama leyti, og
minnist einr.ig á verk Simone de Beau-
voir um vandamál og stöðu franskra
kvenna, sem hafi verið sér til hvatningar
og örvunar. Þá tekur hún einnig fram,
að athygli sín hafi mjög beinzt að því
sviði, sem hin nýrri sálar- og félagsfræði
fjalli meira og meira um, en það er
vandamálið um sjálfsmynd mannsins,
identitet hvers og eins í heimi nútímans,
og hafi það mjög knúið á um framkvæmd
þessa verks. Þá kveðst hún hafa rætt við
sérfræðinga hinna ýmsu greina, svo sem
sálfræðinga, lækna, félagsfræðinga,
presta, ritstjóra fjölmargra blaða og
tímarita, kaupsýslumenn, kennara, pró-
fessora.
Henni fannst dæmið mjög fara að skýr-
ast, er hún átti viðtöl við konur, sem
stóðu á einskonar tímamótum í lifi sínu,
stóðu frammi fyrir persónulegum vanda.
Sumar reyndust færar til þess að fara
inn á nýjar slóðir, takast á við spurning-
una „Hver er ég raunverulega?“; aðrar
viku sér undan. Þetta voru ungar eigin-
konur og mæður, sem ekki hefðu átt að
vera að velta neinu slíku fyrir sér, ef
þjóðsagan hefði lög að mæla, og þær
gátu ekki heldur gefið því vandamáli,
sem íþyngdi þeim, neitt heiti. Höfundur
tekur fram, að hvort sem þær niðurstöð-
ur, sem hún setur hér fram, séu endan-
legar eða ekki, því það er fjölmargt sem
þjóðfélagsvísindin eiga eftir og verða að
fjalla um, þá sé staðreyndin sú, að vandi
amerískra kvenna sé raunverulegur.
Niðurstöður hennar krefjast gagngerra
þjóðfélagslegra umbreytinga og endur-
bóta, og e. t. v. verður mörgum hverft
við, segir hún, en það er trúa mín, að
ekki einungis samfélagið hafi áhrif á
konurnar, heldur geti þær að sinu leyti
haft áhrif á umhverfið. Það hefði verið
tilgangslaust að skrifa þessa bók án
þeirrar sannfæringar, að hver einstakl-
ingur, karl eða kona, eigi að geta valið
og þarmeð skapað sína eigin tilveru, góða
eða illa.
Nafnlaus vandi
Bókin hefst á kafla, sem höfundur kall-
ar „Hið nafnlausa vandamál“ og telur,
að átt hafi sér langan aðdraganda. Ein-
hver óskilgreinanlegur tómleiki tók að
gera vart við sig; spurningin „Er þetta
allt og sumt?“ fór smámsaman að taka
á sig skýrari mynd i hugum húsmæðra
að daglegum störfum sínum. Árum sam-
an kom ekki fram eitt einasta orð um
þessar hugarhræringar kvennanna í allri
þeirri orðasúpu, sem framreidd var og
skrifuð um konur og fyrir konur í bók-
um, tímaritsgreinum og blöðum. Þar var
þeim aftur á móti sagt, að hlutskipti
konunnar væri að leita síns lífsinnihalds
í hjúskap og móðerni. Það var klifað á
þeirri fullyrðingu, að æðsta markmið
þeirra í lífinu hlyti að vera það að ná að
uppfylla sitt kvenlega, líffræðilega hlut-
verk. í ræðum og ritum voru þeim gefin
góð ráð, hvernig þeim bezt mætti takast
að rækta og efla sinn kvenleika. Honum
tilheyrði aldeilis ekki löngunin til mennt-
unar, pólitískra réttinda eða sjálfstæðra
starfa, m. ö. o. þess sjálfstæðis sem hin-
ar stórhlægilegu, gamaldags kvenrétt-
indakonur voru að berjast fyrir á sinum
tima.
Aldur við giftingu lækkaði stöðugt,
og fæðingum fjölgaði. Mörgum til stórrar
undrunar var um mikla fjölgun fæðinga
að ræða meðal skólagenginna kvenna;
þar sem tvö börn voru áður reglan, voru
nú 4—5—6. Konur, sem áður höfðu stefnt
að því að stunda sjálfstætt starf, gerðu nú
barneignir að aðalstarfi sínu. Á árunum
kringum 1960 var meðalaldur kvenna við
giftingu kominn niður fyrir 20 ár. Sömu-
leiðis dró úr aðsókn stúlkna að fram-
halds- og menntaskólum. Fyrir einni öld
höfðu frumherjar kvenréttindabarátt-
unnar barizt fyrir rétti kvenna til
mennta; nú leit helzt út fyrir, að þær
færu í skólana til þess að krækja í
mann. Eldhúsið og saumavélin varð mið-
punktur í lífi milljóna kvenna! Á þessum
árum eftir 1950 unnu að vísu margar gift-
ar konur utan heimilis, einkum við verzl-
unar- og skrifstofustörf part úr degi, og
alls hafði um þriðjungur amerískra
kvenna launaða atvinnu, en fæstar höfðu
alvarleg fagleg sjónarmið eða markmið
með vinnu sinni. Flestar voru að hjálpa
til, t. d. við nám eiginmanns eða barna,
húsbyggingu, húsbúnað, og svo var að
sjálfsögðu um að ræða einstæðar konur,
ekkjur eða fráskildar, sem urðu að fram-
fleyta fjölskyldu með vinnu sinni. Færri
og færri konur leituðu inn á starfssvið
þar sem krafizt var meiri háttar kunn-
áttu og menntunar. Skorturinn á hjúkr-
unarfólki og kennurum, svo nokkuð sé
nefnt, var slíkur, að alstaðar horfði til
meiri og minni vandræða. Vísindamenn,
sem voru uggandi vegna afreka Sovét-
ríkjanna í geimvísindum, bentu á, að í
hópi kvenna væri að finna stærstan forða
af gáfum, sem nýttust ekki. Það var bara
ekki í tízku, að stúlkur legðu stund á eðl-
43