Andvari - 01.01.1987, Blaðsíða 90
BALDUR JÓNSSON:
Islensk orðmyndun
í þessari grein mun ég ekki einskorða mig við myndun orða í þrengsta
skilningi, heldur ætla ég öllu fremur að ræða um vöxt orðaforðans. Pað er of
stórt verkefni til að gera því viðhlítandi skil í stuttu máli, svo að ég verð að láta
mér nægja að grípa á ýmsu og jafnvel af dálitlu handahófi. Mig langar til að
haga orðum mínum svo, að þeir, sem ekki eru málfræðingar, hafi eitthvert
gagn af og málfræðingarnir finni, jafnvel betur en áður, hvaða gagn þeir geta
gert.
Við, sem erum að leita uppi orð yfir ný hugtök og nýja hluti, stöndum
frammi fyrir viðfangsefnum, sem eiga sér í rauninni engin stærðarmörk. En
nú hrannast þau upp með vaxandi hraða, að því er virðist, og knýja þá líka á
um skjótari úrlausn en nokkru sinni fyrr. Það er reyndar íhugunarefni, að
þetta eða eitthvað þessu líkt hafa menn verið að segja — og ekki að ástæðu-
lausu — síðastliðin 100 ár og jafnvel helmingi lengur. Ekki er nema von, að
einhver spyrji þá: Er þetta ekki vonlaust basl allt saman? Og svarið er:
Reynslan vill ekki viðurkenna það enn sem komið er.
Við viljum a.m.k. ekki leggja á ráðin um, hvernig best sé að gefast upp,
heldur ræða um leiðir til að stækka orðaforða íslenskunnar. Við hljótum að
setja okkur það markmið að auðga málið að orðum og orðalagi, svo að það
geti á hverjum tíma gegnt sem best því hlutverki að vera tæki til að tjá hverja
þá hugsun, sem menn vilja koma á framfæri í ræðu eða riti.
En samhliða þessu verður að hafa það hugfast, að við erum ekki að tala um
að búa til nýtt mál fremur en að flytjast af landi brott. Hér er um það að ræða
að nýta og rækta þær víðáttur, sem rúmast innan landamæra okkar eigin
tungu, e.t.v. að færa þau út, ef þörf krefur og engum er misboðið með því. Það
skal þá einnig í heiðri haft, að allt, sem forfeður vorir hafa eftir sig látið — og
einhvers virði er — í rituðu máli og nú einnig hljóðrituðu, megi áfram vera
skiljanlegt hverjum, sem íslensku kann til einhverrar hlítar. Ég legg mikla
áherslu á þetta atriði, af því að gildi þess vill dyljast mönnum meir en hið
augljósa hagnýta markmið.
Sá, sem tekur sér nú fyrir hendur að auðga orðaforða máls með þetta
tvíþætta markmið í huga, þarf margs að gæta og margs að spyrja. Hann væntir
þess, að svör fáist a.m.k. að einhverju leyti frá málfræðingum og með málvís-
indalegum rannsóknum.