Andvari - 01.01.1987, Blaðsíða 26
24
INGVAR GÍSLASON
ANDVARI
Fyrri ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar
Þannig stóðu sakir þegar Ólafur Jóhannesson varð formaður
Framsóknarflokksins á fyrrihluta árs 1968, að Framsóknarflokkurinn
hafði verið í stjórnarandstöðu síðan í desembermánuði 1958, eða
meira en 9 ár. Allt þetta tímabil hafði verið samstarf um ríkisstjórn
milli Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins. Enn átti þetta samstarf
eftir að endast í þrjú ár, til 1971, þegar þessir flokkar misstu meirihluta
á Alþingi. Framsóknarflokkurinn var því í stjórnarandstöðu 12 1/2 ár
samfellt, allan sjöunda áratuginn og rúmlega það. En á þeirri stöðu
varð breyting eftir alþingiskosningarnar 1971. Ólafur Jóhannesson
varð forsætisráðherra í þriggja flokka stjórn, sem tók til starfa 14. júlí
það ár. Auk þess var hann dóms- og kirkjumálaráðherra.
Að stjórninni stóðu auk Framsóknarflokksins Alþýðubandalagið og
Samtök frjálslyndra og vinstri manna. Alls voru ráðherrar sjö. Auk
Ólafs voru þeir þessir: Lúðvík Jósepsson sjávarútvegsráðherra og
viðskiptaráðherra og Magnús Kjartansson heilbrigðis- og trygginga-
málaráðherra og iðnaðarráðherra, báðir frá Alþýðubandalaginu,
Hannibal Valdimarsson félagsmálaráðherra og samgönguráðherra og
Magnús Torfi Ólafsson menntamálaráðherra, báðir frá Samtökum
frjálslyndra og vinstri manna, Einar Ágústsson utanríkisráðherra og
Halldór E. Sigurðsson fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra, frá
Framsóknarflokknum.
Ríkisstjórnin hafði á bak við sig í upphafi stjórnarsamstarfsins 32
þingmenn af 60 og mátti ekki tæpara standa. í stjórnarandstöðu voru
Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn.
Til grundvallar stjómarsamstarfinu 1971 lá mjög ítarlegur mál-
efnasamningur. Þar var m.a. kveðið á um eftirfarandi:
I. Landhelgissamningnum við Breta og Vestur-Þjóðverja frá 1961
skyldi sagt upp og fiskveiðilandhelgin færð út í 50 sjómílur 1. sept.
1972.
II. Lögð er áhersla á að takast megi að koma í veg fyrir „þá
háskalegu verðlagsþróun, sem átt hefur sér stað í efnahagsmálum
undanfarin ár og leitt hefur til síendurtekinna gengislækkana og óða-
verðbólgu.“ Tekið er fram að ríkisstjórnin vilji hafa um þessi mál sem
nánast samstarf við samtök launafólks og atvinnurekenda og sé það
stefna ríkisstjórnarinnar „að bæta afkomu verkafólks, bænda, sjó-
manna og annarra, sem búa við hliðstæð kjör.“ Enn fremur segir í
málefnasamningnum: