Andvari - 01.01.1987, Blaðsíða 156
HELGI SKÚLI KJARTANSSON:
Jónas frá Hriflu og upphaf
Framsóknarflokksins
I
„Stofnun Framsóknarflokksins var beinlínis skipulögð af honum,“ segir Jón
Sigurðsson í Ystafelli um Jónas Jónsson frá Hriflu sjötugan (í Samvinnunni,
apríl - maí 1955, bls. 4). Framsóknarflokkurinn var stofnaður í árslok 1916,
og mátti Jón í Ystafelli gjörla vita um hlut Jónasar að því máli, því að þeir
voru þá pólitískir samstarfs- og trúnaðarmenn. í sömu átt hníga fleiri vitnis-
burðir; það er nánast viðtekin söguskoðun að telja Jónas öðrum fremur
„föður Framsóknarflokksins“. Hins vegar var hann ekki formlegur aðili að
stofnun flokksins né undirbúningi hennar, því að hann var stofnaður af
þingmönnum einum; Jónas var ekki þingmaður og hafði einkum áhrif að
tjaldabaki. Það er því ekki alls kostar augljóst hver hlutur hans var að stofnun
Framsóknarflokksins. Hér verður bent á ýmsar hliðar þess máls, aðallega
eftir prentuðum ritum,1 en einnig verður stuðst við nokkur einkabréf.
II
Jónas Jónsson varð ekki formaður Framsóknarflokksins fyrr en 1934, en
löngu fyrr var hann orðinn einhver áhrifamesti leiðtogi flokksins og sá maður
sem öðrum fremur var tákn og andlit flokksins í vitund alþjóðar. Hann hafði
verið þingmaður fyrir framsóknarmenn frá 1922, þegar hann var efstur á lista
þeirra við landskjör; og hann var sjálfsagður ráðherra í fyrstu ríkisstjóm
Framsóknarflokksins 1927. Og áður en Jónas settist á þing hafði hann verið
kjörinn í miðstjórn Framsóknarflokksins, raunar jafnsnemma og hún var
stofnuð 1918. Þangað til hafði flokkurinn einungis verið til sem þingflokkur,
en nú kaus hann sér miðstjórn þriggja manna, sem allir voru utan þings —
enda enginn þingmaðurinn búsettur í Reykjavík. Það voru, auk Jónasar,
Tryggvi Þórhallsson ritstjóri Tímans og Hallgrímur Kristinsson forstjóri
Sambandsins.