Andvari - 01.01.1987, Blaðsíða 56
54
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
ANDVARI
Pað er erfitt að ofmeta gildi þýðinga fyrir þær miklu breytingar sem urðu á
ensku máli á sextándu öld. Þótt Englendingar ættu á eldra máli slík stórvirki
epískrar ljóðlistar sem Bjólfskviðu (Beowulf) og Canterbury Tales, er það
fyrst og fremst á sextándu öld sem enskan siglir hraðbyri í að verða það þjála
tungumál sem hún er í dag. Það eru ekki síst þýðingar erlendra verka sem
temja og skerpa málið en ljá því jafnframt þann sveigjanleika sem það býr
yfir í lok sextándu aldar þegar það öðlast svo glæsilega framrás og allt að því
fullkomnun í verkum Shakespeares.2 Þau verk eru því að mörgu leyti óbeint
afsprengi frjóasta þýðingaskeiðs enskrar tungu.3 Raunar er einnig um alveg
bein áhrif að ræða, því Shakespeare studdist mikið við þýðingar er hann
samdi leikrit sín. Má nefna þýðingu Thomasar Nortons á ævisögum grískra og
rómverskra stórmenna eftir Plútark (The Lives of the noble Grecians and
Romanes), en sú þýðing hugnaðist Shakespeare svo mjög að hann skaut
mörgum línum þaðan svo til orðrétt inn í sum verka sinna.
Á hinn bóginn má segja, með ofurlitlum ýkjum, að það sé ekki síst
Shakespeare og sískynjuð návist hans í bókmenntalífi enskrar tungu sem
valda því að dregur úr mikilvægi þýðinga á ensku eftir hans daga. Nú verða
verk hans sjálfs glæstar fyrirmyndir um stórbrotna sköpunargáfu og listræna
meðferð enskrar tungu og minnkar þá þörf fyrir að flytja slíkar fyrirmyndir
inn frá öðrum málum. En um leið og af sömu ástæðum taka verk Shake-
speares að skipta höfuðmáli í þýðingastarfi á öðrum tungumálum, einkum er
líður fram á 18. öld. Brátt var svo komið að meðal vestrænna þjóða bjó
enginn texti nema Biblían yfir jafn miklu „átoríteti,“ þvílíku hefðarvaldi og
virðingaráru sem verk Shakespeares. Metnaðarhámark hvers þýðanda fólst í
að koma Shakespeare yfir á tungumál sitt og verk hans urðu grundvallar-
þáttur í jafnt bókmenntun sem leikhúslífi ótal þjóða. í sumum löndum —
Þýskaland er gott dæmi — hafa Shakespeare-þýðingar jafnvel haft svo gagn-
ger áhrif á tungutak bókmenntanna að það er erfitt að ímynda sér þróun þess
án hlutar Shakespeares og þýðenda hans.
Vart mun þetta þó gilda um hlut Shakespeares á íslensku bókmenntasviði.
Um miðja þessa öld höfðu einungis sjö þýðingar á heilum leikverkum eftir
Shakespeare komist á íslenskt prent. Fyrstur til að þýða Shakespeare varð
Steingrímur Thorsteinsson en íslensk gerð hans af Lear konungi birtist þó
ekki fyrr en 1878, eftir að Matthías Jochumsson hafði gefið út þýðingu sína á
Macbeth (1874). Matthías bætti við þremur Shakespeare-þýðingum: Hamlet
(1878), Othello (1882) og Rómeó og Júlíu (1887) og á þessum árum kom
einnig út þýðing Eiríks Magnússonar á The Tempest sem hann kallaði
Storminn (1885). Næsta heildar-þýðing á leikverki eftir Shakespeare kom
ekki út fyrr en 1946 þegar Kaupmaðurinn í Feneyjum birtist í búningi
Sigurðar Grímssonar. Áður hafði þó komið til sögunnar atkvæðamikill Shake-
speare-þýðandi, Indriði Einarsson, sem þýddi 14 leikverk Shakespeares á