Andvari - 01.01.1987, Blaðsíða 134
132
SIGURJÓN BJÖRNSSON
ANDVARI
samtímabókmennta og í heimspekinni höfðaði Sören Kierkegaard sterkast til
hans, en það er sá heimspekingur sem betur hefur lýst en flestir aðrir angist
nútímamannsins. Sigurður Nordal var hér að sjálfsögðu barn síns tíma enda
átti hann sér marga skoðanabræður bæði meðal erlendra og íslenskra bók-
menntamanna. Gunnar Gunnarsson ritaði t.a.m. mjög í þessum sama anda
fram um 1920 eins og Matthías Viðar Sæmundsson hefur nýlega gert ágæta
grein fyrir.14
Og eðli málsins samkvæmt upplifðu ungir menntamenn þetta sem per-
sónulega kreppu, þeir voru að gera uppreisn gegn feðrum sínum, gegn
arfhelgum skoðunum. Öðru vísi gátu þeir ekki orðið þeir sjálfir. Þetta skýrir
að nokkru, hygg ég, hvers vegna Sigurður tók á verkefni sínu eins og hann
gerði. í raun var hann hvorki að skrifa heimspeki, sálarfræði né siðfræði.
Hann var einfaldlega að leita að sjálfum sér með pennann í hendinni og í
viðfangi við þá vitmenn sem hann vissi besta. Hann var að móta sér hugsjónir
og lífsstefnu, réttlæta sjálfan sig fyrir sjálfum sér og réttlæta „uppreisn“ sína
gegn lærifeðrum sínum og öðrum sem sömu skoðun kunnu að hafa. Hann fór
eins nálægt kjama sjálfs sín og honum var unnt. Sú vinna var honum nauðsyn
og nautn, því að með henni skóp hann sjálfan sig á ný. Sjálfur lýsir hann þessu
betur en önnur orð fá gert í bréfi til Ágústs H. Bjarnasonar skömmu áður en
hann fór heim til að taka við embætti: „Hannesi sé lof og þér sé lof. Ég hef þó
a.m.k. lifað eitt ár æfinnar: maí 1917 - maí 1918“15
VII.
Ég hef hér á undan hreyft þeirri skoðun að Einlyndi og marglyndi sé
misheppnuð sem bók. Og víst er um það að ekki getur hún verið nein
kennslubók í „lífernislist“ og gagnsemi hennar sem sálarfræði, heimspeki eða
siðfræði er allmjög takmörkuð, a.m.k. fyrir fólk á ofanverðri tuttugustu öld.
Og í raun er óþarft að setja þetta fyrir sig, því að þetta eru hálfgerð aukaatriði,
sem aldrei hefðu þurft að koma til umræðu, ef vilji Sigurðar sjálfs hefði verið
virtur um að láta kyrrt liggja. Það sem höfuðmáli skiptir er hvort þessi vegferð
Sigurðar Nordals á vit sjálfs sín, þetta þriggja ára „moratorium“ skilaði
árangri. Breytti það honum sjálfum? Höfðu fyrirlestrarnir áhrif á áheyrendur
hans 1918-1919?
Lítum fyrst á hið síðarnefnda, þó að ekkert sé hægt að fullyrða. Hin mikla
aðsókn að fyrirlestrunum og hrifning sú sem þeir vöktu bendir til að þeir hafi
verið sem svaladrykkur þyrstum eyðimerkurfara. Voru ekki margir þenkj-
andi menn og konur í Reykjavík á þeim tíma með líkar spurningar í huga og
Sigurður en minni getu til að svara þeim? Þorkell Jóhannesson lætur svo um
mælt að „líkt var sem tjaldi væri svipt frá víðri útsýn“. Og hann heldur áfram: