Andvari - 01.01.1991, Page 26
24
HALLDÓR ÞORMAR
ANDVARI
væri hagstæðastur, þ.e. gæfi mestu ónæmissvörun án þess að saka
kindurnar að marki. Bólguhnútur myndaðist í undirhúð á bólusetning-
arstað en virtist ekki valda skepnunni teljandi óþægindum. Eftir að
ljóst var að bólusetningin orsakaði öfluga ónæmissvörun lá næst fyrir
að ganga úr skugga um hvort hún veitti vörn gegn náttúrulegri garna-
veikisýkingu. Til þess að rannsaka þetta voru gerðar bólusetningartil-
raunir á sex bæjum í Árnessýslu á árunum 1947 til 1949 þar sem garna-
veiki hafði verið landlæg um árabil. Ásetningslömbum var skipt í tvo
álíka stóra hópa og var annar bólusettur en hinn ekki. Ónæmissvörun
var mæld með blóðprófi skömmu eftir bólusetningu og síðan var fylgst
með afdrifum beggja hópa næstu fjögur árin, en báðir hópar höfðu
jafnar líkur á að sýkjast af garnaveiki vegna umgangs við annað fé.
Niðurstaða tilraunarinnar var sú að 16 af 266 óbólusettum kindum
drápust af garnaveiki á þessu tímabili, eða 6 af hundraði, en engin
bólusett kind.
Bólusetningin veitti því greinilega vernd gegn sjúkdómnum sem
einnig staðfestist við krufningu þegar báðum hópunum var slátrað í lok
tilraunarinnar haustið 1951. Stærri bólusetningartilraunir hófust
haustin 1950 og 1951 en þá voru alls yfir 3000 lömb á 141 bæ í fjórum
sveitum á Austurlandi bólusett gegn garnaveiki og álíka stór óbólu-
settur hópur notaður til samanburðar. Garnasýnishorn úr kindum sem
drápust eða var slátrað á þessum bæjum næstu árin voru send að Keld-
um til rannsóknar. Tilraunir þessar tóku mörg ár, en niðurstöður sem
höfðu fengist árið 1956 sýndu að af þeim lömbum sem voru bólusett
haustið 1950 drápust að meðaltali 0.8% úr garnaveiki árlega, borið
saman við 11.9% í óbólusetta hópnum. Hliðstæðar tölur í tilrauninni
sem hófst 1951 voru 0.5% í bólusetta hópnum og 8.2% í þeim óbólu-
setta. Dánartalan af völdum veikinnar í bólusetta hópnum var því að-
eins 6% af dánartölunni í óbólusetta viðmiðunarhópnum. Fækkaði
dauðsföllum þannig um 94%. Bólusetningin gaf því mjög góða vörn
gegn sjúkdómnum.
Björn birti þrjár greinar um rannsóknir sínar á garnaveikibóluefni á
árunum 1949 til 1952. Árið 1954 sendi hann Kaupmannahafnarháskóla
stutta samantekt á rannsóknum sínum á garnaveiki og var hún, ásamt
þeim átta greinum sem áður höfðu birst í vísindatímaritum, tekin gild
til doktorsprófs við læknadeild háskólans. Varð Björn dr.med. við
Kaupmannahafnarháskóla þann 15. mars 1955 að aflokinni doktors-
vörn. Seinna birtust nokkrar greinar eftir Björn um endanlegar niður-