Andvari - 01.01.1991, Page 57
ANDVARI
JÓRVÍKURFÖR í EGILS SÖGU
55
Heimskringlu eru alkunn. Hann vinnur af íhygli úr heimildum sínum og gef-
ur hvarvetna gaum að sennileika og samhengi við heildarstefnu frásagnar-
innar. Þegar honum þykja heimildirnar segja mjög ótrúlega frá breytir hann
einatt í raunsæis- eða rökhyggjuátt.11 Hefði Snorri talið þörf á að láta líta svo
út sem för Egils á fund Eiríks hefði verið sennileg, hefði hann ekki látið sig
muna um að segja þannig frá hvað sem heimildum hans leið. Þess vegna er
ástæða til að ætla að niðurstaðan sé nákvæmlega ei;.is og Snorri vildi hafa
hana. Hann vildi láta áhættu Egils vera svo mikla að lægi á mörkum þess sem
hægt væri að taka trúanlegt.
Freistandi er að velta því fyrir sér hvernig Egla tengist ævi Snorra og
straumum í samtíma hans. Voru einhverjar sérstakar aðstæður í samtím-
anum sem kölluðu á vegsömun manns eins og Egils Skallagrímssonar? F*að
lætur að líkum að svör við slíkri spurningu verði óviss.
Þegar reynt er að setja Eglu í samband við ævi Snorra skiptir óneitanlega
máli hvenær hann samdi söguna. Var það skömmu eftir heimkomu úr fyrri
utanför 1220 og þá áður en hann samdi Ólafs sögu og Heimskringlu, eins og
fræðimenn hafa löngum talið, eða var það eftir heimkomu úr síðari utanför á
allra síðustu æviárum hans, eins og Jónas Kristjánsson hefur látið sér detta í
hug og stutt ýmsum rökum?12 Nýjustu rannsóknir á máli Egils sögu styðja
hugmyndir um að einn sé höfundur hennar og Heimskringlu, en gefa jafn-
framt ýmsar vísbendingar um að höfundur sá hafi ekki lokið sögunni og séu
síðustu kaflar hennar eftir annan höfund.13 Það gæti vissulega samræmst því
að sagan væri samin á síðustu árum Snorra og hefði hann fallið frá áður en
henni var lokið. Um þetta er þó erfitt að fullyrða nokkuð. Vel getur verið að
Snorri hafi haft Eglu lengi í smíðum og hafi t.d. byrjað á henni eftir að hann
hafði lokið Ólafs sögu helga hinni sérstöku en aldrei lokið henni. Greinar-
munur á viðhorfum í Eglu og Heimskringlu er ekki meiri en svo að allt gat
það rúmast í marglyndum huga Snorra samtímis þótt ýmist væri hvað honum
var efst í huga. Óneitanlega kæmi það sér best fyrir vangaveltur sem hér
munu koma fram ef sagan væri samin á síðustu tveimur æviárum Snorra, en
varla getur það talist nauðsynleg forsenda.
í Heimskringlu skrásetti Snorri eftirminnilega sögu Noregskonunga.
Hann lýsti þeim sem mikilhæfum einstaklingum sem þó voru hver öðrum
harla ólíkir og áttu sér ólík örlög. Sagan er hvorki með né móti konung-
dæminu sem slíku. Það birtist sem söguleg staðreynd og sjálfsagður hlutur,
en augljóst er að Snorri gerir sér ákveðnar hugmyndir um vanda konungsins
°g telur nauðsynlegt fyrir konunga að koma á góðu samkomulagi við höfð-
ingja og stjórna landinu í samvinnu við þá. Þar skiptir miklu skaplyndi
hvorra tveggja, konunga og höfðingja, auk ytri aðstæðna. Valdataflinu lýsir
hann í raun og veru með það samfélag að fyrirmynd sem hann þekkti best,
hið íslenska. Heimsmynd hans er í meginatriðum heimsmynd íslenskra