Andvari - 01.01.1991, Page 67
AÐALGEIR KRISTJÁNSSON
Á aldarártíð
Konráðs Gíslasonar
I
Konráð Gíslason sagðist vera fæddur 3. júlí 1808, en kirkjubækur Glaum-
bæjarsóknar tilgreina aðra dagsetningu. Faðir hans segir í ævisögu sinni að
hann hafi fæðst sunnudaginn í 11. viku sumars, en Konráð bar móður sína
fyrir þeirri dagsetningu sem hann hélt fram, og hefir unnið sér hefð í sög-
unni.1 Foreldrar Konráðs voru Evfemía Benediktsdóttir og Gísli Konráðs-
son bóndi og sagnaritari og var Konráð þeirra elsta barn.
Snemma kom í ljós að Konráð var gæddur miklu andlegu atgervi. Þegar
Rasmus Chr. Rask dvaldist á íslandi 1813-15 komst hann í kynni við Gísla
Konráðsson sem sagði honum frá þessum efnilega syni. „Eg hef þá líklega
verið á 7. árinu. Og hafði Rask talað um, að það væri gaman að geta tekið
mig með sér til Danmerkur“, skrifaði Konráð Birni M. Ólsen í elli sinni.2
Gísli Konráðsson lagði mikla stund á ritstörf jafnhliða búskapnum svo að
Konráð hefir drukkið í sig löngun til fróðleiks og skrifta með móðurmjólk-
inni. F*að var móðir hans sem kenndi sveininum að Iesa og skrifa og æfði
hann í biblíulestri, en séra Jón Konráðsson, frændi hans, tók brátt við að
segja honum til nokkrar vikur á vetri og dóttir hans kenndi honum dönsku.
Mestu réð samt að séra Jón hóf að segja honum til í latínu og gaf honum
„Donati paradigmata“. Prestur lét mikið af lyst og gáfum Konráðs til bók-
legra mennta og taldi upp þau rit sem hann hafði brotist í gegnum af sjálfs-
dáðum í vitnisburði sem hann sendi stiftsyfirvöldum 24. júní 1824.3
Æska Konráðs Gíslasonar leið samt ekki yfir bókum einum saman. Hann
var löngum smali frá því á áttunda ári og þar til hann hafði hálfnað það átj-
ánda. Konráð gætti sauða föður síns á vetrum og hélt þeim til beitar. Hann
kunni vel hinu frjálsa og einmanalega lífi og hugði að hann hefði sárkviðið
fyrir ef hann hefði vitað að hann ætti eftir að eyða ævi sinni í fjölmenni.4 En
menntaþráin var sterk. Hann hafði með sér bækur í hjásetuna og glímdi þar
við leyndardóma latínunnar að ráði séra Jóns Konráðssonar sem hélt áfram
að segja honum til og eggja Gísla að sækja um Bessastaðaskóla fyrir svein-
inn. Sumarið 1824 ferðaðist Konráð með föður sínum og öðrum lestamönn-
um suður til Bessastaða þar sem Hallgrímur Scheving reyndi kunnáttu
5