Andvari - 01.01.1991, Blaðsíða 101
ANDVARI
VANGAVELTUR UM FULLVELDI ÍSLANDS 1918
99
var ... einungis rökrétt framhald þess sem Hannes Hafstein hafði lagt grunn-
inn að árið 1908.“14 Tíðarandinn hefur e.t.v. líka orðið tortryggnari á
ósveigjanlegt fylgi við meginreglur. Og almennt virðist andstaðan við Upp-
kastið fá heldur lakari dóma í ritum frá síðari áratugum en tíðkast hafði áður.
Heimir Þorleifsson telur reynsluna úr Uppkastsdeilunum „sýna, að íslend-
ingar ... létu fremur stjórnast af tilfinningahita en hagrænum sjónarmið-
um.“15 Bergsteinn Jónsson lýsir kosningaósigri Hannesar Hafstein og ræðir
síðan um „stjarfa sigurvímu andstæðinga hans“ þegar á þing kom og þeir
vildu að hann viki úr ráðherrastóli.16 Túlkun af þessu tagi ber ekki með sér
að litið sé á höfnun Uppkastsins sem beint skref í átt til fullveldisins 1918.
5 Persónusamband eða málefnasamband
Nú er rétt að glöggva sig á því ögn nánar hvernig tengslum íslands og
Danmerkur var háttað samkvæmt Sambandslögunum 1918 og hvað þar
hafði á unnist við tíu ára töfina frá 1908.
Stöðu íslands eftir 1918 er í grófustu dráttum lýst svo, að það hafi verið
sérstakt konungsríki, en í konungssambandi við Danmörku, og hafi Danir
farið með utanríkismál íslands.
Konungssamband eða persónusamband var sú staða gagnvart Danmörku
sem íslenska þjóðfrelsishreyfingin hafði jafnan gert tilkall til. Konungsvald-
inu höfðu íslendingar forðast að mótmæla, en ekki viljað lúta yfirráðum
danska þingsins eða dönsku stjórnarinnar. Meðan konungur var einvaldur,
bæði í Danmörku og á íslandi, kom í einn stað niður hvort ísland taldist
heyra undir konung einan eða danska ríkið sem slíkt. Þegar konungur afsal-
aði sér einveldi í Danmörku, varð krafa Jóns Sigurðssonar um konungs-
samband að allróttækri sjálfstæðiskröfu - öldungis óraunhæfri í augum
Dana. Og sú krafa varð sjálfkrafa æ róttækari eftir því sem persónulegt vald
konungs þvarr. Eftir að þingræði komst á í báðum löndunum hefði einbert
konungssamband nánast þýtt fullt sjálfstæði íslandi til handa. Það töldu
Danir alls óaðgengilegt fyrir sig.17
í Uppkastinu er sneitt hjá því að tala beinlínis um ísland sem sérstakt ríki,
heldur sem hluta af „det samlede danske Rige“, en þó myndar það með
Danmörku „ríkjasamband“ sem er samband „um einn og sarna konung“ og
um sameiginleg málefni sem tilgreind eru; þar af eru „utanríkismálefni“ og
„hervarnir á sjó og landi" óuppsegjanlega undir danskri stjórn.18
í Sambandslögunum er afdráttarlaust talað um ísland sem sérstakt ríki, og
það er ekki í sambandi við Danmörku urn tiltekin málasvið sem stjórna skuli