Andvari - 01.01.1991, Síða 126
124
BOLLI GÚSTAVSSON
ANDVARI
skeggi, kattardyn og öðru þessháttar og þó - eða öllu heldur vegna þess - var
sterkasti fjöturinn. Sá gróandi, sem er að koma fram í okkar nýjasta máli, er
einmitt nátengdur þessari hugsýn“.
Þetta er í fyllsta samræmi við skáldskaparstefnu Sigurjóns. Ljóð hans búa
fyrst og fremst yfir mýkt málsins, aldrei kaldhömruð, stirð eða leikur að lang-
sóttum, fyrndum kenningum. En þau skortir ekki tign málfegurðar. Og at-
hyglisvert er, að hann sér gróandann í okkar nýjasta bókmenntamáli við upp-
haf fimmta áratugarins. Virðing hans fyrir orðinu er djúp og einlæg eins og
lesa má í Skriftamálum einsetumannsins:
Orð!
Hversu dásamlegur er ekki
þessi ávöxtur mannsandans!
Angan, hljóma, liti, hita, kulda
- allt þetta - og miklu fleira -
getur það fjötrað og geymt.
Jafnvel um árþúsundir.
Af öllu þessu getur það gefið
og átt þó jafnmikið eftir.
Jafnvel um árþúsundir.
Og þó er það
ekki nema klæðnaður þess,
sem er miklu meira.
- Ekki nema leiftur af því,
sem býr í djúpi manns-sálarinnar.
Pá hafa verið rakin þau tvö fyrri megin-markmið, sem Sigurjón Friðjónsson
stefndi að í skáldskap sínum, en það þriðja kynnir hann í stuttu máli, þótt
þungt verði á metum, þegar við kynnumst betur skáldinu, manninum og trú-
ar- og lífsviðhorfum hans:
„Þriðja skáldskapar markmið mitt, efnið, sem mörgum hefur orðið svo erf-
itt að finna, eða þeir hafa litið á sem barnaskap að öðrum kosti, má líka segja
að sé mýktin - að mjög miklu leyti, þ.e. andstæða harðneskjunnar, grund-
vallartónn kristninnar, góðvildin, kærleikurinn, sá máttur, sem fáeinum
mönnum hefur sýnst „mestur í heimi“ og hið eina, sem dugað geti í fjötur á
Fenrisúlf, - styrjaldarofstopa mannanna“.
Þessi orð bera þess merki, að ófriður geisar í heiminum, enda skrifuð á
þriðja ári heimsstyrjaldarinnar síðari. Hins vegar voru þau ekki ný skoðun
Sigurjóns þá. Lífsviðhorf hans frá barnæsku voru í ákafri andstöðu við alla
afskræmingu og hörku. Hann var ákafur afneitari illskunnar, neitaði að trúa
á tilvist djöfulsins og þess kvalastaðar, sem nefndur hefur verið Helvíti. Ógn
og miskunnarleysi dauðans og vítistrúar varð hann að sigra. Hann var við-