Andvari - 01.01.1991, Side 128
126
BOLLI GÚSTAVSSON
ANDVARl
ingunni og beðið guð að hjálpa sér að svara henni rétt, en þegar á hólminn
kom, reyndist hann ekki maður til að svara henni öðruvísi en presturinn vildi,
og í því lá viðurkenning á tilveru djöfulsins. Þetta fannst honum algjörlega
rangt, lygi og stór synd, sem guð hafði ekki hjálpað honum að komast hjá,
þrátt fyrir bæn af öllum hug. Það setti að honum ofsagrát, sem hann réð
ekkert við í kirkjunni frammi fyrir söfnuðinum, því að honum fannst hann
hafa orðið sér til svívirðingar, afneitað sannleiksást sinni og drengskap - og að
guð hefði yfirgefið sig í ýtrustu neyðinni. Næstu tvö árin var hann gleðisnauð-
ur og framfaralítill, en fann svo aftur þroska sinn vaxa“.
Þetta hugarstríð virðist fjarlægt við lok tuttugustu aldar og að liðnum eitt-
hundrað og tíu árum frá fermingu Sigurjóns. Kirkjan hefur fyrir löngu fellt
niður framangreinda spurningu úr fermingartextanum, svo hún veldur ung-
mennum ekki hugarangri lengur. Að margra mati er djöfullinn nú nokkurt
feimnismál í prédikunum hennar. Öld tveggja heimsstyrjalda, kjarnorku-
ógna, óstöðvandi eiturlyfjabylgju og ólýsanlegs misréttis hlýtur að eiga erfitt
með að afneita tilvist illra afla í heiminum; öld, sem t.d. hefur kynnst vand-
lega skipulögðum voðaverkum nasismans og kúgun og guðsafneitun komm-
únismans. Kirkjan horfir því ekki fram hjá djöflinum sem illu og eyðandi
afli, er rís gegn Guði og skipun hans og getur þrælbundið manninn. Hins veg-
ar var gömul mynd þjóðsögunnar af myrkrahöfðingjanum enn við lýði fyrir
síðustu aldamót. Á fermingarári Sigurjóns Friðjónssonar var hann sá höfuð-
skelmir, sem bar ægishjálm yfir draugaskara og margvíslegar forynjur, er þá
fylltu börn í myrkum torfbæjum á íslandi hugarangri og ósjaldan ofsahræðslu.
Arnór getur þess að birt hafi í lífi föður hans, er nær dró tvítugs aldri, enda
hafi hann farið átján ára til náms í búnaðarskólann á Eiðum „með ráði og at-
beina föður síns, sem studdi hann einan til náms barna sinna, enda voru efni
lítil til þvílíks stuðnings. Hann sótti nám sitt af kappi, enda hlaut hann ágætis-
einkunn við próf sitt úr skólanum“. Þess er getið, að hann hafi unnið öðru
hvoru utan heimilis eftir að hann kom frá Eiðum, að jarðabótum á sumrum og
barnakennslu á vetrum. Var hann talsvert á Einarsstöðum í Reykjadal við
kennslu veturinn 1890-91. Það var árið áður en hann kvæntist Kristínu Jóns-
dóttur, sem þá var á Einarsstöðum hjá Ásrúnu systur sinni og manni hennar
Haraldi Sigurjónssyni. Sigurjón minnist þess ósjaldan, að kynni hans við Ás-
rúnu Jónsdóttur mágkonu sína hafi orðið honum mikilvægur skóli, ekki síst í
bókmenntum. Segir mér hugur um, að þar hafi þó fleira verið rökrætt og kruf-
ið til mergjar. Á ég þá við nýstárlegar skoðanir og stefnur í trúarefnum, sem
áttu eftir að hafa mikil áhrif þar í héraðinu og vöktu athygli víða um land.
En Arnór Sigurjónsson víkur að þessum umræðum og telur að þar muni
skáldskap og ljóðagerð hafa borið hæst: „Bar þeim þar mikið í milli í fyrstu,
því að hann hafði mestar mætur á Bjarna Thorarensen og því, er var honum
skyldast í kveðskap, en Ásrún dáði Jónas Hallgrímsson. Taldi hann sig hafa