Andvari - 01.01.1991, Qupperneq 166
164
GUNNAR STEFÁNSSON
ANDVARI
aö sé heimafengið. Er raunar ekki aö undra þótt Norðmanni fari svo. Hitt er
kynlegra í fræðiriti að Orgland hyllist til að gera samanburð á persónugerð
Stefáns og þeirra norsku skálda sem hann hreifst af. Er vandséð um fræðileg-
an ávöxt af svo huglægum vangaveltum. Það er eins og Orgland stari svo
mjög á landa sína og áhrif þeirra á Stefán í smáu og stóru að hann taki að sjá
ofsjónir.
Þetta var gagnrýnt þegar ritið kom fram til doktorsprófs á sínum tíma og
hent nokkurt gaman að. Kostulegast er það sem hér segir um að í Sálma-
söngsbók norsku kirkjunnar og Nýnorskri sálmabók sé eitt dæmi um sömu
hrynjandi og í Aðfangadagskvöldi jóla 1912 eftir Stefán. En það er sálmur
sem Stöylen nokkur biskup þýddi - úr íslensku, Heyr, himna smiður eftir
Kolbein Tumason: „Ef Stefán hefði þekkt og kannað þýðingu Stöylens,
hefði hin meitlaða, sérkennilega hrynjandi getað orkað á hann . . . Frammi
fyrir oss liggja hér tveir sálmar, og nærtækt væri að ætla að þýðing Stöylens
sé fyrirmyndin að ljóði Stefáns. En nýnorska sálmabókin kom ekki á prent
fyrr en 1925, og rannsókn hefir leitt í ljós að Stöylen getur ekki hafa þýtt
sálminn fyrr en 1921-23“, þ.e. nokkrum árum eftir að Stefán orti sinn sálm
(!)(244-45)
Þótt þetta sé óvenjuslæmt eða - gott dæmi um hve langt áhrifaleit Org-
lands getur teygt hann er fleira af þessu tagi, marklausum getgátum og
vangaveltum: „Ef Stefán hefir þekkt kvæðið Sáng till solen (Söngur til sólar-
innar) eftir sænska skáldið Esaias Tegnér, væri nærri lagi að ætla, að hið
stórbrotna, tilfinningaheita kvæði hefði haft áhrif á hann.“(235) Um íslenskt
kvæði eftir nær óþekktan Vestur-íslending segir að „Stefán gæti hafa lesið
þetta kvæði heima á íslandi, og það vakið athygli hans, svo að hann hafi fest
það í minni. Þegar hann síðar kynnist samskonar hrynjandi, gæti það hafa átt
þátt í, að hann tileinkaði sér bragarháttinn." (234—35). Annars er ekki að sjá
að Orgland telji að Stefáni geti verið íslenskur skáldskapur ofarlega í huga í
Noregi, því hann leggur mikið upp úr að Stefán hafi ekki haft hjá sér aðrar
íslenskar kvæðabækur en ljóð Matthíasar Jochumssonar, að því er fram
kemur í bréfi hans ti) hins aldna skálds.
Hér skal ekki lengra haldið út í sparðatíning sem bók Ivars Orgland býður
raunar upp á. Smáatriðin byrgja víða yfirsýn, dómgreind höfundar reynist
brigðul. Aftur á móti veitir bókin, með öllum sínum upplýsingum og vitnis-
burðum, töluvert góða mynd af persónunni Stefáni frá Hvítadal. Fæst af því
er raunar til að auka virðingu lesandans fyrir manninum, fremur en það sem
fram kom í fyrra bindi Orglands um skáldið. En það er ástæðulaust að láta
bresti mannsins skyggja á list skáldsins. Það gerir bókarhöfundur ekki held-
ur og ást hans og aðdáun á skáldinu, sem lýsir sér í þessu eljuverki, gefur
bókinni geðfelldan svip. Það er auðvelt hverjum Ijóðaunnanda að taka undir
lokaorð bókarinnar: