Andvari - 01.01.2006, Blaðsíða 166
164
ÁRMANN JAKOBSSON
ANDVARI
afbrigðum saman líkamlegt og andlegt atgervi. Fríðleik hans var við brugðið. Framan
af í skóla var hann lítill vexti. En síðustu tvö árin blés hann svo sundur, að þegar hann
varð stúdent, 19 ára gamall, var hann orðinn með hærri mönnum, og eftir því var vöxt-
urinn karlmannlegur og fagur, og rammur var hann orðinn að afli. Námsgáfumar vom
fyrirtak ... 26
Með grein Einars í Eimreiðinni fylgdi mynd af styttu Hannesar Hafstein eftir
Einar Jónsson myndhöggvara, þeirri sem nú er framan við Stjórnarráðið.
Hannes var orðinn stytta í ýmsum skilningi.
Karlmennska, glæsileiki og fríðleiki eru lykilorð í öllum lýsingum á
Hannesi Hafstein, ásamt orðum eins og skörungsskapur og höfðingjabragur.
Koma lykilorðin strax fyrir í grein Einars Kvaran árið 1932. Arni Pálsson
(1878-1952) lýsti Hannesi í Morgunblaðinu 4. desember 1941: „Hann hafði
fríðleik, vöxt og afl fram yfir flesta menn aðra. Aldrei hef ég séð nokk-
urn mann svo auðkenndan frá öðrum í mannfjölda11.27 Þetta orðalag er
beinlínis sótt í norrænar konungasögur og sama á við um lýsinguna á skaps-
munum Hannesar: „tilfinningarnar voru næmar og geðsmunirnir stórir“.28
Karlmennskan er svo á sínum stað þegar Arni lýsir ræðum Hannesar: „Þar
birtist karlmannsvilji sem bítur á jaxlinn, trú, sem helzt vildi geta flutt fjöll,
mannvit, sem skilur tákn tímanna, og auðug skáldgáfa, sem blæs lifandi anda
í hvert málefni, sem hann ræðir.“29 Þó að stílgáfa Árna sé eftirbreytniverð
er samt eins og það vanti hér einhvern veikleika til þess að gera Hannes að
manni fremur en helgimynd.
Eins og sjá má skapaðist snemma sú hefð í sagnaritun um Hannes Hafstein
að spara ekki stóru orðin og réð nokkru um að flestir sem halda á penna
eru stuðningsmenn og aðdáendur Hannesar. Inn í þá hefð skrifar Kristján
Albertsson (1897-1989) þriggja binda ævisögu sína um Hannes Hafstein sem
enn er rækilegasta verkið um fyrsta ráðherrann, en þá eru liðin fjórir áratugir
frá láti hans.30 Sló Kristján öll fyrri met í að hlaða á ráðherrann lofsorðum.
Hann gefur tóninn strax í upphafi. í fyrstu tólf línunum koma fyrir orð eins og
kraftur, gifta, gleði, hreysti, vitur, farsœll, Ijóðsnillingur, og að lokum töfra-
orðið karlmannlegur. Um kvæði Hannesar segir Kristján að þau hafi komið
„sem heilnæmur, vermandi vorþeyr í erfiðri tíð, forboði gróðrar og vaxtar.“31
Hannes sjálfur var „töfrandi maður, í sjón og framkomu11.32 Og með Hannesi
„kom gleði og hreysti inn í hug þjóðarinnar“.33
Kristján lætur alls ekki staðar numið heldur leiðir lesendur sína inn í verkið
með þessari lýsingu á söguhetjunni:
Myndir gefa enga eða litla hugmynd um áhrifm af persónu Hannesar Hafsteins. Öll
ásýnd hans og framganga var heillandi, bar með sér göfugan og stórbrotinn mann,
höfðingja og skáld; stillta, virðulega karlmennsku, samfara heitri og næmri lund;
ástúðlegt glaðlyndi og þunga alvöru; ljúfmennsku, nærgætni, kurteisi, en undir niðri