Andvari - 01.01.2006, Blaðsíða 126
124
SVEINN EINARSSON
ANDVARI
veru), og engin hreyfing var viðhöfð án merkingar. Þó að ýmsar sviðslausnir
væru í anda sjónhendingastíls, voru þær allar leiddar út frá atburðakjarna, en
ekki sóttar utan að. í heild var sýningin jafnt í útbúnaði sem leikmáta míni-
malisk; áhrifameðulum spart beitt og eingöngu þegar ekki varð hjá því komist
til að færa flæði atvikanna frá einum hól til annars.
Þegar slík sparneytni á sviði er leiðarljós og þegar hreyfingin í leiknum
ekki minni innra en ytra, skiptir hljóðheimur sýningarinnar mjög miklu máli.
Sverrir Guðjónsson lýsir sinni vinnu á eftirfarandi hátt: „Hvernig hljómar
söngur trjádrumbs? Þessari hugsun skaut upp í kollinum á mér, þegar ég leit
trjádrumbinn hennar Elínar Eddu augum, á miðju leiksviðinu. - Tónlistin
leynist í textanum og því afar mikilvægt að gera sér grein fyrir þeim til-
finningum sem bærast með persónunum og láta tónlistina styðja við fram-
vindu verksins. Hvar eru dramatískar hæðir, lægðir og hvar ríkir þögnin ein?
Litur, áferð og tilfinning tónlistar skipta miklu máli og geta haft djúpstæð
áhrif á undirmeðvitund áhorfenda. - Hljóðheimur Hamlets er lagskiptur þar
sem hljóð blandast saman og mynda heild. í óhugnanlegum hljóðheimi aft-
urgöngunnar leynast ýmis hljóð sem eru leikin afturábak. Sjálfur raðaði ég
saman raddskúlptúrum sem ég söng og hljóðritaði í hinum undarlega hljóð-
heimi kúlunnar, í Ásmundarsafni. - Ófelía fær nokkrar laglínur sem tengjast
ljóðatextum. Mýkt hörpunnar fylgir henni en breytist og bjagast eftir því sem
hugarvíl hennar vex. Hin engiltæra rödd Ófelíu hljómar í hæstu hæðum þegar
drottningin flytur sorgarljóð um andlát hennar og áttar sig á afleiðingum
svika og illra verka. - Hvernig hljómar þá söngur trjádrumbs? Slagverksdeild
Sinfóníuhljómsveitarinnar átti nokkra sérsmíðaða kassadrumba sem ég próf-
aði að leika á í mikill heyrð. Þarna var kominn sá hljóðheimur sem áhorf-
endur mættu þegar þeir gengu í salinn, 12 mínútum fyrir upphaf sýningar. Á
sviðinu einmana trjábolur umvafinn dökkum litum margbreytilegra trétóna,
sem í gegnum áslátt gefa til kynna skapadægur, örlög sem ekki verða umflúin.
Tónar drumbanna fylgja Hamlet leynt og ljóst í gegnum sýninguna og deyja
með síðasta andvarpi Hamlets“.
í samræmi við þetta gegndi ljósbeiting Egils Ingibergssonar iðulega tákn-
legu hlutverki. I ofangreindu atriði drottningar var bakveggurinn sveipaður
rómantískri stemningu lita á hreyfingu sem skírskotaði til drukknunar Ofelíu
á sama tíma og frásögn drottningar varð kaldari og tilfinningalausari því
ljósara sem henni varð samhengi hlutanna. Annað dæmi: Þegar Fortinbras
sviptir sig herklæðum í lokin og lætur kvenhár sitt falla, rofar til á myrkum
bakveggnum og himinninn verður heiður og blár.