Nýjar kvöldvökur - 01.01.1957, Blaðsíða 23
N.Kv.
HUGLEIÐINGAR ÓLAFS Á HAMRABORGUM
9
„göfga guðs“. Bak við hversdagslegustu
önn mannsins fyrir hagsæld sinni og far-
sæld blikar á hinn órökræna lífblæ — hinn
dulda anda. Vallarstjarnan er búin töfrum
hans. Gnýr fossins er blandinn ómi hans.
Yfir hæsta tindinum djarfar fyrir honum.
Bak við sólarlagið og morgunroðann bær-
ist hann. I sögn fortíðarinnar og spá fram-
tíðarinnar felast rúnir hans. I skuggum og
skini þess, sem er og þess sem verður, hrær-
ist hann. Og þess vegna er ástarstjarnan
hans á bak við ský yfir hraundranga skær-
asta stjarnan á himninum öllum, því að eng-
ir skýflókar né þokubönd megna að hylja
skin hennar. Og þess vegna var hann öðrum
fremur þess umkominn að arfleiða þjóð
sína að fegurstu ástarljóðum, sem íslenzk
tunga geymir.
Skáldið — maðurinn, sem hafði sam-
einað raunkenndina og guðstrúna lífsvitund
sinni, hlaut að eiga þá ást í hjarta, sem
sameinuð var önd hans — vitundina um
guð. Hvað gat hann átt fegurra og háleitara
en hana? Þess vegna finnast honum grösin,
sem prýða umhverfið, þar sem hann kveður
stúlkuna sína, vera krossgrös, það er heilög
grös.Og þess vegna veit hann, að „anda, sem
unnast, fær aldrei eilíf að skilið.“ Geisl-
arnir, sem gjörðu jörðina svo undur fagra
og lífið unaðslegt, þar sem starfsgleðin
ríkti og trúnaðurinn hélt vörð, voru frá
himnum. Þess vegna hlaut eilífðin að vera
staðreynd. Alltaf var hann hrifnæmur eins
og barn. Landið hans var eins og vermireit-
ur. Með barnslegum hreinleik og trúnaðar-
trausti biður hann „föður alls, sem er“ að
annast hann. Þegar hann stendur á helgistað
þjóðar sinnar og bendir á máttarverk drott-
ins, segir hann: „Vittu, barn, sú hönd er
sterk.“ Og hvað eru landar hans annað en
hörn í hans skyggnu augum og raunar hann
sjálfur líka, þegar hann spyr á sorgarstund:
„Veit þá enginn, að eyjan hvíta
á sér enn vor, ef fólkið þorir
guði að treysta, hlekki hrista,
hlýða réttu, góðs að bíða.“
Ég held, að óhætt sé að slá því föstu, er
ég sagði hér að framan. Jónas Hallgrímsson
var barn þessarar jarðar, barn þessa jarð-
ríkis. En eigi að síður barn guðs, barn guðs-
ríkis. Kjarni lífsvitundar hans var meðvit-
undin um „göfgan guð“, þann göfga guð,
er hinn skyggni og hugprúði lærisveinn
hans, Davíð Stefánsson skáld frá Fagra-
skógi, ávarpar svo í Hátíðarljóðum sínum:
„Þú raikli, eilífi andi,
sem í öllu og alls staðar býrð,
þinn er mátturinn, þitt er valdið,
þín er öll heimsins dýrð.
Þú ríktir frá upphafi alda,
ert allra skapari og skjól,
horfir um heima alla,
hulinn myrkri og sól.“
Þegar maðurinn hefur yfirgefið barnið
í sjálfum sér eða glatað því — barninu í
þess orðs djúpu merkingu — er voði á ferð-
um. „Því sannlega segi ég yður: Hver, sem
ekki tekur á móti guðsríki eins og bam,
mun alls eigi inn í það koma.“
Ég hefi hér að framan farið nokkrum
orðum um ljóðin okkar og „listaskáldið
góða“, vegna þess að ljóðin voru mér eins-
konar formáli — inngangur að þeim lífs-
sannindum, sem ég hefi haft kynni af og
mér hafa fundizt mikilvægust alls. Á geisla-
vængjum þeirra leit ég lönd ódauðleikans
og náði fóstfestu þar. Fyrir mörgum árum
varð mér það ljóst, að listaverkin eru vegir
til guðsríkis, — ljósbrautin til himna. Þetta
er lífsreynsla mín. Og vegna þess, sem á
eftir kemur, vil ég undirstrika það, að það,
sem hér er sagt um ljóðin, er ekki útúrdúr
frá efninu. Því eina beina brautin, sem ég
hef gengið um ævina, liggur um lönd ljóð-
anna.