Eimreiðin - 01.07.1933, Side 40
264
AUSTFJARÐAÞOKAN
EIMREIÐIfí
rétt eins og tindarnir væru að kallast á og ákæra hann fyrir
lögbrot og griðrof á þessum friðlýsta stað. Nei, þetta dugði
ekki. Hann lagði upp árarnar og hugsaði: Gaman væri ná
að skjótast út í hólmann og skoða — og fá sér fáein egg.
Mörg ár voru síðan hann hafði skoðað þennan glataða
dýrgrip. Hann hafði einhvern veginn ekki getað fengið sig til
þess. Hann dýfði árunum hægt og reri hljóðlega til hólmans.
Það reyndist snögt um lengra en honum sýndist. Hann vissi
vel, hvar átti að lenda, kipti bátnum svolítið upp í mjúkan
sandinn, tók með sér skotfærakassann og austurs-fötuna-
Kassinn var hvort sem var nærri tómur og bezta eggjaílát —»
Hann litaðist um, er hann kom upp á miðjan hólmann.
— ]á, satt var það, mikið hafði varpið aukist. Samt
virtist það ekki meira en í meðallagi vel hirt. Hann gekk
lengra áfram, horfði hugfanginn á þessar feikna eggjabreiður.
En kríurnar létu hann ekki hafa mikinn tíma til hugleiðinga»
Þessi sjálfskipaði landvarnarher allra varplanda hóf þegar hat-
rama árás á þennan óvin. Og sú árás gekk ekki hávaðalaust.
Það var eins og þessi árás yrði til þess að æsa löngun hans
í að láta greipar sópa. Nú var um að gera að láta ekki
undan! — Hann skyldi sýna þeim. —
En það var nokkuð liðið á varptímann, og það var töluverður
vandi að taka ekki nema ný, eða að minsta kosti aðeins lítið
unguð egg. Þórður var varpvanur og kunni skil á þessu.
Hann tíndi aðeins egg þar sem hann þóttist öruggur. Aður
en hann eiginlega vissi, hafði hann farið meira en hálfhring
yfir hólmann.
Honum varð litið upp og þá sá hann nokkuð sem honum
kom óvænt. Bátinn hans hafði tekið út, og hann flaut all-
hratt frá hólmanum og var þegar kominn alt of langt til þess»
að ósyndur maður eins og hann gæti náð honum!
Þarna var hann fallega settur!
Mikill bölvaður klaufi gat hann verið! Nú sat hann þarna
fastur eins og mús í gildru og gat enga björg sér veitt!
Ætli þeim þætti það ekki fengur vinnumönnum prestsins,
þegar þeir kæmu næst, að finna hann þarna!
Hann æddi fram og aftur um hólmann, ef ske kynni að
þar fyndist eitthvað, sem hann gæti flotið á út til bátsins.