Tímarit lögfræðinga - 01.03.1951, Síða 13
Eggert Claessen, hæstaréttarlögmaSur
5
tókst að vísu ekki. Olli því það tvennt, að íslandsbanki var
fjárhagslega sligaður, er Eggert Claessen tók við, svo og
hitt, að bankinn var á þeim tíma stjórnmálalegt bitbein.
Sjá það nú allir, að við svo búið var það hverjum manni
ofraun að bjarga bankanum.
Það, sem framar öðru snýr að lögmannastéttinni, eru
lögmannsstörf Eggerts Claessens. Hann gerðist brátt for-
ustumaður meðal stéttarbræðra sinna og þeir Sveinn
Björnsson báðir. Fyrir þeirra forgöngu var stofnað Mál-
flutningsmannafélag Islands, sem nú heitir Lögmanna-
félag Islands. Þetta var 1911 og er félagið því fertugt á
þessu ári. Var Eggert Claessen formaður félagsins 1911—
1918 og 1939—1940. Stofnun félagsins var táknræn um
umgengnisvenjur lögmanna. Á undan þeim Eggert Claes-
sen hafði samvinna lögmanna verið mjög í molum og ber
dómasafn Yfirdóms glögglega vitni þess. Þetta breyttist
smátt og smátt í það horf, sem vér nú þekkjum, að lögmenn
vilja hver annars götu greiða. Oft undraðist ég það, hve
vel Eggert Claessen lét að umgangast yngri stéttarbræður
sína, þótt aldursmunur væri stundum mikill. Hann um-
gekkst þá sem jafningja. Hitt var eðlilegt, að allir skoðuðu
hann sem Nestor stéttarinnar.
Mestu varðaði þó að sjálfsögðu hitt um lögmannsstörf
Eggerts Claessens að hann var snjall lagamaður, en jafn-
framt samvizkusamur og vandvirkur, svo að af bar. Fékk
því hver maður traust á honum, sá er til hans leitaði. Vissi
ég og engan verða fyrir vonbrigðum, þann er bað hann
að ljá sér lið. Það sagði við mig ritstjóri þessa tímarits
skömmu eftir andlát Eggerts Claessens, að engan myndi
hann hafa kosið sér sem málsvara honum fremur, ef hann
hefði átt hendur sínar að verja fyrir dómstólum hér á
landi.
Eggert Claessen var maður fluggáfaður. Fóru þar saman
góðar námsgáfur, traust minni og örugg dómgreind. Hann
var þrekmenni, viljafastur, einarður og hreinskilinn. 1
málflutningi var hann kappsamur og öruggur bardaga-
maður, hvort sem var fyrir dómi eða á öðrum vettvangi.