Tímarit lögfræðinga - 01.03.1951, Side 37
Þjófamark (brennimark) samkvæmt íslcnzkum lögum
29
orðið sekur um eyrisstuld, að fá dauðadóm, ef hann stelur
síðan til t. d. tveggja álna? Og með sama hætti mætti
spyrja, hvort sá, sem einu sinni hefur stolið til merkur
eða tveggja marka, hafi átt að hljóta dauðadóm, ef hann
stelur til tveggja álna? Hvinnska er stuldur eða þýfska,
enda segir í Þjófab. 1. kap., að sá „steli“, sem fremur
hvinnsku. Slík og þvílík atriði hafa dómendur víst mátt
með fara samkvæmt Þingfararb. 4. kap.
Vafalaust hefur áðurnefndum ákvæðum Jónsbókar um
merkingu þjófa verið fylgt frá öndverðu eftir 1281. Ekki
hef ég þó getað fundið dæmi þess, að brennimark hafi
verið dæmt, þar til er alþingisbækur hefjast reglulega,
nema ið fræga dæmi um Kvæða-önnu, sem Nýi annáll segir
um árið 1424, að þá hafi verið merkt fyrir 20 árum.1)
Þetta ár segir, að svo mikið hallæri hafi verið á Islandi,
að kona þessi hafi lánað Þingeyraklaustri sex vættir af
smjöri. Markið bendir til þess, að Kvæða-Anna hafi tvisvar
stolið til eyris, því að mark var ekki á lagt, fyrr en eftir
annað slíkt brot. Þó að ekki finnist nú dómar um þjófa-
markið fram á síðara hluta 16. aldar, þá er það vitanlega
engin sönn,un þess, að það hafi ekki verið tíðkað, þegar
efni stóðu til, því að tiltölulega lítið hefur geymzt af dóm-
um frá 14. og 15. öld. Eftir 1570, er lögmenn tóku að láta
skrá alþingisbækur reglulega, svo að kunnugt sé, er allt af
við og við verið að dæma menn til brennimerkingar. Og
er það auðvitað enginn nýr siður, sem þá hefur verið upp
tekinn, heldur hefur það verið framhald gamallar laga-
framkvæmdar. En ekki hafa öll þjófnaðarmál komið til
alþingis, þar sem brennimark var þjófi dæmt, því að einatt
hefur verið látið við það sitja, sem lögmenn og sýslumenn
hafa að gert í héraði með dómsmönnum sínum. Skulu hér
á eftir nokkuð raktar aðgerðir lögmanna og lögréttu og
síðar landsyfirdóms, þar sem þjófamark var dæmt.
Árið 1572 segir í dómi Þórðar lögmanns Guðmunds-
sonar, að Sumarliði nokkur Pétursson hafi tvisvar stolið
1) Annales Islandici I. 24.