Tímarit lögfræðinga - 20.12.1990, Page 46
forsetaembættinu í stað hins eiginlega forseta2. Ölafur Jóhannesson áleit
vafasamt, hvort slík skipun væri heppileg, þótt ekki væri kunnugt, að hún hefði
gefizt illa hér á landi.3 Að mínum dómi er fjölskipað forsetavald óheppilegt
einkum af tveimur ástæðum.
II.
Annars vegar er það slæmur kostur, að ágreiningur kunni að rísa við
framkvæmd starfa forsetaembættis, sem samkvæmt stjórnlögum og eðli sínu á
að vera sameiningartákn og utan og ofan við pólitískar deilur. Slíkt getur þó
auðveldlega hent til dæmis við stjórnarmyndanir eða þegar til álita kæmi, að
einhver eða einhverjir handhafa forsetavalds vildu neyta réttar 26. gr. stjórnar-
skrárinnar til þess að synja lagafrumvarpi staðfestingar. Við stjórnarmyndun
væri fráfarandi forsætisráðherra einn af handhöfum forsetavaldsins og forseti
sameinaðs Alþingis að öllum líkindum úr hópi stuðningsmanna fráfarandi
ríkisstjórnar. Það er ekki ólíklegt, að sjónarmið þeirra tveggja, meirihluta
handhafanna, kynni að vera nokkuð annað en forseta Hæstaréttar eða þjóðkjör-
ins forseta. Umfram allt væri það bæði óeðlilegt og óheppilegt, að forseti
Hæstaréttar væri settur í þá stöðu að þurfa að taka með öðrum þátt í svo
pólitískum ákvörðunum, sem stjórnarmyndun er, og það þeim aðilum, sem þar
hafa beinna pólitískra hagsmuna að gæta. Við slíkar aðstæður er viðbúið, að
hann og Hæstiréttur gætu dregizt inn í stjórnmáladeilur, en slíkt myndi bæði
skaða Hæstarétt og trúverðugleika dómsvaldsins í landinu.4
III.
í annan stað er óheppilegt, að staðgenglar forseta íslands séu fleiri en einn, af
þeirri ástæðu, að vafasamt er, að embættisathafnir þeirra fái stjórnskipulegt
gildi, nema þeir standi að þeim allir saman. Um þetta eru án efa skiptar
skoðanir. Þannig segir til dæmis Ólafur Jóhannesson: „Hjá handhöfum forseta-
valds ræður afl atkvæða. Meirihluti þeirra, t.d. tveir þeirra, gætu sjálfsagt farið
með forsetavald saman, t.d. undirritað veitingarbréf, staðfest lög o.s.frv.
Eðlilegra væri þó, að staðgengill hvers þeirra um sig kæmi til, ef þeir væru
forfallaðir, enda gætu orðið vandkvæði á því, ef tveir þeirra færu með
forsetavaldið, en væru sinn á hvoru máli.“5 Sömu sjónarmiða gætir hjá Benedikt
2 Bjarni Benediktsson: Land og lýðveldi I. 187. Þar greinir frá ræðu höfundar á fundi landsmála-
félagsins Varðar 21. janúar 1953, sem birt var í Morgunblaðinu 22.-24. janúar 1953. í þessari ræðu
gerir höfundur grein fyrir sjónarmiðum sínum, Gunnars Thoroddsen og Jóhanns Hafstein í
endurskoðunarnefnd stjórnarskrárinnar, sem skipuð var 1947 en skilaði ekki áliti.
3 Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun fslands, 131.
4 Sbr. Gunnar G. Schram: Um endurskoðun stjórnarskrárinnar, 70.
5 Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun íslands, 132.
244