Tímarit lögfræðinga - 20.12.1990, Page 61
áhrif tæknin kann að hafa í för með sér við gerð stefna og þingfestingu þeirra.
Ljóst er að fjölmörg önnur dæmi mætti taka úr viðskiptalífinu og af vettvangi
stjórnsýslunnar.
Meginatriðið er að sú þróun sem hér er lýst kemur án efa til með að verða að
veruleika fyrr eða síðar, alveg með sama hætti og glasafrjóvgunin sem vikið var
að í upphafi. Nauðsynlegt getur orðið að endurskoða löggjöf okkar í heild með
sérstöku tilliti til þessa nýja háttar við staðfestingu löggerninga, þannig að
núgildandi löggjöf verði ekki Þrándur í götu þróunar á þessu sviði. Kanna verður
og aðlaga ákvæði í íslenskri löggjöf með hliðsjón af því að tölvur taki við sem
hinn almenni miðill í viðskiptum einstaklinga sín á milli, svo og í samskiptum
einstaklinga og hins opinbera. Einnig er vert að kanna hvort réttur sá sem
mótast hefur vegna fordæma dómstóla kalli á lagabreytingar til þess að unnt
verði að nota hinn nýja miðil á öllum sviðum viðskiptalífs.
Þess má geta að þegar hefur verið gert ráð fyrir því í tollalögum nr. 55/1987 að
samskipti við tollyfirvöld geti farið fram með öðrum hætti en skriflegum, þ.e.
með aðstoð tölvu- og fjarskiptatækninnar. Vænta má frekari þróunar í samskipt-
um sem þessum á næstu árum.
Stór spurning er hversu fljótt þessari tækni muni fleygja fram? Erfitt er að
svara því, en víst er að notkun tölvunnar fer sífellt vaxandi og nýir möguleikar
hafa opnast varðandi skjalasendingar milli tölva, t.d. með gagnaflutningskerfi
Pósts og síma. Samhliða eykst þrýstingur á að viðurkennd verði alþjóðleg aðferð
til „undirskriftar" á löggerningum í tölvum og meira fé er varið til þess að þróa
hana. Ekki þarf því að koma á óvart að viðunandi lausnir séu á næsta leiti og nýir
tímar í tölvunotkun séu handan hornsins.
259