Tímarit lögfræðinga


Tímarit lögfræðinga - 01.04.2001, Síða 16

Tímarit lögfræðinga - 01.04.2001, Síða 16
spili lögsögu einstakra aðildarríkja og lögsögu dómstólsins hefur því verið nefnd meginreglan um fyllingarlögsögu í íslensku lagamáli.9 Með meginreglunni um fyllingarlögsögu tóku samningsaðilar mið af þeirri almennt viðurkenndu grundvallarreglu í alþjóðlegum refsirétti að frumskyldan til þess að rétta yfir þeim einstaklingum sem grunaðir eru um að hafa framið glæpi gegn mannkyninu hvílir á einstökum þjóðríkjum. Alþjóðlegi sakamála- dómstóllinn eigi því aðeins að beita lögsögu sinni í þeim tilvikum þegar sýnt sé að þau ríki sem hlut eiga að máli skorti vilja eða getu til að fullnægja þjóðrétt- arlegum skyldum sínum til að saksækja og eftir atvikum refsa þeim sem grun- aðir eru.10 Margvísleg rök hafa verið færð fram fyrir frumskyldu þjóðríkja á vettvangi alþjóðlegs refsiréttar. Fyrst má nefna það almenna sjónarmið að nyti hennar ekki við væri hætt við því að einstök ríki glötuðu þeirri ábyrgðartilfinningu sem fylgir skyldunni að sjá til þess að einstaklingum sé refsað fyrir alvarlega glæpi enda þótt þeir séu alþjóðlegir í eðli sínu. Þessi röksemdarfærsla hefur þó sætt talsverðri gagnrýni. Hefur á móti verið haldið fram að yrði komið á fót alþjóð- legu refsivörslukerfi myndi það hvetja ríki til aðgerða fremur en ekki. Önnur rök sem færð hafa verið fram til stuðnings frumskyldu ríkja eru þó meðal ann- ars þau að réttarhöld í einstökum ríkjum séu fjárhagslega hagkvæmari kostur en kostnaðarsöm málsmeðferð fyrir alþjóðlegum dómstóli. Þá hefur verið á það bent að skjalleg sönnunargögn og aðgangur að vitnum sé betur tryggður að landsrétti." 3.2 Fyllingar- eða forgangslögsaga og sjónarmið um fullveldi Meginregla Rómarsamþykktarinnar um fyllingarlögsögu er einkum studd við sjónarmið um að gæta þurfi að fullveldisrétti þjóðrikja þótt komið sé á fót varanlegum alþjóðlegum sakamáladómstóli. Er hún einnig árétting á þeirri grundvallarreglu þjóðaréttar sem vísað er sérstaklega til í sjöttu málsgrein inn- gangsorða12 samþykktarinnar, og ég vék að hér að framan, að það sé skylda sér- hvers ríkis að beita refsilögsögu sinni gagnvart þeim sem bera ábyrgð á alþjóða- glæpum. Samkvæmt samþykktinni er það á valdi aðildarríkis að ákveða í upp- hafi hvort það muni sjálft annast rannsókn, saksókn og dómsmeðferð í málum sem annars myndu falla undir lögsögu Alþjóðlega sakamáladómstólsins. I þessu sambandi er einnig rétt að nefna hér ákvæði áttundu málsgreinar inn- gangsorða samþykktarinnar en þar kemur fram að aðildarríkin leggi á það áherslu að engin ákvæði samþykktarinnar beri að skilja á þann veg að aðildar- 9 Reglan er nefnd The Pvinciple of Complementarity í fræðilegri umfjöllun á ensku. 10 Kristina Miskowiak: The Intemational Criminal Court: Consent, Complementarity and Coop- eration. DJ0F Publishing, Kaupmannahöfn 2000, bls. 40. 11 Kristina Miskowiak: sama rit, bls. 42. 12 í ákvæði sjöttu málsgreinar inngangsorða við Rómarsamþykktina segir meðal annars svo í ís- lenskri þýðingu: „[Ríkin, sem eru aðilar að samþykkt þessari,] minna á að það er skylda sérhvers ríkis að beita refsilögsögu sinni gagnvart þeim sem bera ábyrgð á alþjóðaglæpum". 10

x

Tímarit lögfræðinga

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit lögfræðinga
https://timarit.is/publication/586

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.