Tímarit lögfræðinga - 01.06.2004, Blaðsíða 91
sinn. Verður talið vafasamt að notkun eftirlitsmyndavéla einungis í þeim til-
gangi að tryggja að starfsmenn vinni störf sín vel og af kappi geti réttlætt
vöktun.
Fram kemur í riti Peter Blume og Jens Kristiansen, Databeskyttelse pá
arbejdsmarkedet, að starfsmaður eigi rétt á því að njóta ákveðinna grund-
vallarréttinda, s.s. að klæðast og matast í friði og því myndu eftirlitsmyndavélar
í búningsklefum, á salemum eða á kaffistofum ekki vera heimilar þar. Hið sama
gildi um staðsetningu eftirlitsmyndavéla inni á einkaskrifstofum eða væri
myndavél beint að einu ákveðnu skrifborði þótt skrifborðið sjálft sé staðsett í
opnu rými.14 Hér er þó rétt að benda á að í úrskurði stjómar Persónuvemdar frá
8. ágúst 2003 í máli Búnaðarbanka íslands var talið heimilt að beina eftirlits-
myndavélum að skrifborðum á lokuðum skrifstofum einstakra starfsmanna
bankans eftir að formlegum vinnudegi lauk. Um var að ræða skrifborð fram-
kvæmdastjóra og bankastjóra bankans en þessum aðilum hafði verið gert
kunnugt um vöktunina. Af því sem að framan sagði verður að telja að fyrir
hendi þurfi að vera sérstakar ástæður til þess að viðhafa rafrænt eftirlit og að
eftirlitið verður að vera þannig að ekki sé á ónauðsynlegan hátt vegið að virð-
ingu starfsmanns.
Hér að framan hefur verið vísað til leyfis Persónuverndar frá 21. desember
2001 til Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar ehf. um vinnslu persónuupp-
lýsinga sem til urðu í eftirlitsmyndavélum fyrirtækisins. Leyfið átti sér stoð í
þágildandi 2. mgr. 9. gr. pvl., nú 3. mgr. 9. gr., en þar segir að Persónuvemd geti
heimilað vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga í öðrum tilvikum en greini í 1.
mgr. telji hún brýna almannahagsmuni mæla með því. Einnig var í álitinu vísað
til skilyrða 4. gr. um „sérstaka þörf ‘ vegna „eðlis“ þeirrar háttsemi sem fram fór.
Mál þetta varðaði eftirlitsmyndavélar sem staðsettar voru við út- og inngöngudyr, á
útisvæði og við framleiðslulínu fyrirtækisins þar sem áfengi fór um. í rökstuðningi
sínum tók Persónuvemd fram að ljóst væri að mjög strangar kröfur giltu um
framleiðslu áfengis, sbr. áfengislög og lög um gjald af áfengi. A handhafa leyfis
fyrir framleiðslu áfengis hvíldi sú skylda að tryggja að framleiðslan væri í samræmi
við lög og það gæti varðað handhafa leyfis missi þess ef upplýst yrði um ítrekaða
rýrnun eða brot á lögum eða þeim skilyrðum sem starfseminni voru sett. Þannig taldi
Persónuvemd að rafrænnar vöktunar á áðurgreindum stöðum innan ölgerðarinnar
gæti verið þörf vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar færi fram, sbr. 2. mgr. 8. gr.
laga (nú 2. tl. 1. mgr. 4. gr.) pvl. Hvað heimildarákvæði 2. mgr. 9. gr. (núverandi 3.
mgr.) varðaði sagði Persónuvernd: „að virtu öllu því sem að framan er rakið og í
ljósi almannaöryggis og hagsmuna ríkisins af nauðsynlegri refsivörslu er það mat
Persónuvemdar að tiltekin vinnsla Ölgerðarinnar á myndefni sem til verður í
tengslum við framkvæmd rafrænnar vöktunar, uppfylli skilyrði 2. mgr. 9. gr. laga nr.
77/2000 um brýna almannahagsmuni".
14 Peter Blume og Jens Kristiansen: Databeskyttelse pá arbejdsmarkedet. Kaupmannahöfn 2002,
bls. 107-108.
275