Uppeldi og menntun - 01.01.2009, Síða 49
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 18(1)/2009 49
kolbrÚn Þ. pálsdóttir
fram hjá starfsemi frístundaheimila og skóladagvista sem þó er nú almennt talin til
grundarvallarþjónustu í hverju sveitarfélagi. Á þessu hljóta að verða umbætur eigi að
gera kröfur um aukna fagmennsku og fagþróun í starfsemi frístundaheimila.
Lög um æskulýðsstarfsemi voru endurskoðuð og gefin út í breyttri mynd árið 2007,
en höfðu þá staðið óbreytt frá árinu 1970. Í 2. gr. segir að lögin taki m.a. til „æskulýð-
sstarfs á vegum sveitarfélaga og ríkis og í skólum, að svo miklu leyti sem við á og önn-
ur lög og aðrar reglur gilda ekki um“. Þótt ekki sé minnst á frístundaheimili, skóla-
dagvistir eða lengda viðveru má því ætla að slík starfsemi falli undir þessi lög.
Í 1. grein kemur fram að:
[m]eð æskulýðsstarfi er átt við skipulagða félags- og tómstundastarfsemi þar sem börn
og ungmenni starfa saman í frístundum sínum að hugsjónum, markmiðum og áhuga-
málum sem þau sjálf meta að verðleikum. Í skipulögðu æskulýðsstarfi skal hafa í huga
félags-, forvarna-, uppeldis- og menntunarlegt gildi þess sem miðar að því að auka
mannkosti og lýðræðisvitund þátttakenda. Í öllu starfi með börnum og ungmennum
skal velferð þeirra höfð að leiðarljósi og þau hvött til frumkvæðis og virkrar þátttöku.
Lögin miðast við æskulýðsstarf fyrir börn og ungmenni, einkum á aldrinum 6–25 ára.
(Æskulýðslög nr.70/2007)
Af framangreindu má ljóst vera að löggjafinn lítur svo á að skipulagt æskulýðsstarf
geti haft mikið gildi fyrir æsku landsins. Nefndar eru þær hugsjónir sem stefnt skuli
að, svo sem að starfið taki mið af áhugamálum barnanna og að það skuli miða að efl-
ingu mannkosta og aukinni lýðræðisvitund, sem sannarlega eru lofsverð markmið.
Þessum markmiðum er ekki lýst nánar í reglugerðum, lögin eru ákaflega víðtæk og
því erfitt að meta hvenær æskulýðsstarf samræmist þeim.
Eitt grundvallaratriðið í þróun fagstarfs á þessu sviði er að tryggja að starfsmenn
sem leiða starfið hafi hlotið menntun sem tryggi að þeir búi yfir nægri þekkingu á
þroska og uppeldi barna. Ein ástæða þess að frístundaheimilin standa höllum fæti í
skólakerfinu er sú staðreynd að stjórnvöld gera ekki sérstakar menntunarkröfur til
starfsmanna þeirra. Samkvæmt íslenskum lögum um dagvistarstofnanir frá 1976 (Lög
um dagvistarheimili, 1976) átti að ráða fóstrumenntaða einstaklinga (nú leikskólakenn-
ara) til starfa á skóladagheimilum. Löggjafinn hafði því fyrir ríflega 30 árum skýrari
sýn á það hvaða fagmenntun, þ.e. menntun úr Fósturskóla Íslands, væri nauðsynleg
til að uppfylla kröfur um gæði skóladagheimila og til að tryggja fagleg vinnubrögð.
En hvað segir í nýlega endurskoðuðum æskulýðslögum frá 2007 um menntun starfs-
manna í skipulögðu æskulýðsstarfi? Í lögunum er einungis tiltekið að „ … þeir sem
starfa með eða hafa umsjón með börnum og ungmennum í æskulýðsstarfi séu lög-
ráða og hafi þjálfun, menntun, þekkingu eða reynslu til starfsins“ (10.gr.). Hafa ber í
huga að æskulýðslögin eiga að ná yfir mjög breytt svið: allt æskulýðsstarf með 6−25
ára börnum og ungmennum. Í því ljósi er eðlilegt að ekki sé hægt að ætlast til þess
að allir leiðbeinendur uppfylli ákveðin skilyrði um menntun, óháð því hvort um sé
að ræða starf ólaunaðs hópstjóra í skátastarfi, þjálfara í hlutastarfi hjá íþróttafélagi
eða starfsmann sveitarfélags á frístundaheimili svo dæmi séu tekin. Þetta undirstrikar
þörfina á sérstakri löggjöf um starfsemi frístundaheimila. Sé litið til nágranna okkar