Morgunn - 01.12.1965, Side 30
108
MORGUNN
Kfí lirili ;m<lskoliiiii.
Þegar við hjónin bjuggum á Dvergasteini, var hjá okkur
í fóstri systurdóttir mín, þá 11—12 ára að aldri, og stundum
einkennilega draumspök.
Það var á fyrsta dag jóla, að ég var að búa mig af stað
inn í Seyðisfjarðarkaupstað til þess að messa. Um leið og ég
fór, gekk ég upp á loftið til frænku minnar til þess að kveðja
hana og óska henni gleðilegra jóla. Ég sé, að hún er hálf-
döpur í bragði, segir hún mér, að sig hafi dreymt svo voða-
lega ljótan draum. Hún þóttist vera komin á bernskuheimili
okkar beggja, Garð í Kelduhverfi. En þar bjó þá systir mín,
Björg, ásamt manni sínum. Þau höfðu fósturbarn, stúlku á
aldur við þessa systurdóttur mína og höfðu þær verið þar
leiksystur, og fór vel á með þeim.
Nú þykist hún í svefninum vera horfin heim að Garði og
koma inn í baðstofuna. Liggur þá fóstursystir hennar í rúm-
inu, en yfir það grúfir sig maður, sem henni finnst helzt vera
læknir, en hún sér ekki betur en að hann haidi á hjólsveif
og sé að bora göt á fætur leiksystur sinnar. Þykist hún þá
verða hrædd við þennan mann og hyggur að hann ætli að
vinna þarna eitthvað illt, og kallar til hans. í sama bili snýr
hann sér við, hvessir á hana augun og segir: ,,.Ég heiti and-
skotinn". Við það vaknaði hún. Og þetta fannst vesalings
barninu að vonum voðalegur draumur á sjálfa jólanóttina.
Á jóladagskvöldið kom ég við hjá póstmeistaranum á
Seyðisfirði, sem var góðkunningi minn, og fékk hann mér
nokkur bréf, sem ég hafði fengið með pósti. Þar á meðal var
bréf frá systur minni í Garði, en þaðan hafði ég þá ekkert
frétt alllengi. Hún segir mér þær fréttir, að fósturdóttir
hennar sé rúmliggjandi. Hefði hún orðið fyrir því slysi, að
í ógáti hefði hlaupið skot úr byssu á örstuttu færi og meitt
hana. Lenti skotið í gegnum annan kálfann en reif stykki úr
hinum. Hafði orðið að sækja lækni til þess að gera að þess-
um meiðslum.