Saga - 1962, Blaðsíða 112
452
ÞORLEIFUR EINARSSON
dumbrauðir flákar engjarósa, en þurrlendi hefur verið
skógi vaxið. Með ám og lækjum hafa vaxið gróskumikil
hvannstóð. Birkiskógurinn hefur staðið höllum fæti, er
landnám hófst.
Frjólínuritin bera með sér, að birkiskóginum hefur tek-
ið að hraka fljótlega eftir að landnám hófst, enda varð
landið alnumið á 60 árum. Sum héruð, svo sem Húnavatns-
sýsla og Skagafjörður, munu hafa orðið skóglaus þegar
snemma á öldum. Orsakir þessarar miklu og skjótu skóg-
eyðingar munu vera ýmsar, en þessar þó helztar. Allt frá
landnámstíð og lengi síðan var höggvinn mikill skógviður
til kolagerðar. Til rauðablásturs þurfti mikinn við, en
meginhluti þess járns, sem til smíða fór, mun hafa verið
unninn úr mýrarauða fram á 15. öld a. m. k. Einnig var
allt fram á 19. öld gert til kola vegna smíða svo og til deng-
ingar ljáa. Bezti viðurinn mun hafa verið notaður til tré-
smíða og húsagerðar, enda þótt innflutt timbur hafi verið
notað til hinna stærri húsa. Þá hefur einnig mikill skógur
verið höggvinn til eldiviðar, enda þótt tað og mór hafi ver-
ið notað samhliða viðnum til þessara hluta. Skógarhöggið
hefur vafalaust verið vægðarlaust. Skógurinn hefur verið
felldur á stórum svæðum, enda er viðarmagn lítið á hekt-
ara í íslenzku skóglendi. Þá er að geta áhrifa beitarinnar.
Sauðfjárrækt hefur löngum verið stunduð sem rányrkja.
Einkum hefur vetrarbeitin komið hart niður á skóginum,
og þar sem skógurinn hafði verið höggvinn, sá búpeningur
um það, að hann ætti ekki afturkvæmt.
Þá er þess að geta, að víða finnast í jarðvegssniðum í
nágrenni bæja og eyðibýla þunn viðarkolalög frá upphafi
byggðar (Sigurður Þórarinsson 1944). Þessi viðarkolalög
benda til þess, að landnámsmenn hafi brennt skóg eða
kjarr í kringum bæi. Landnámsmönnum hefur verið ósárt
um skóginn, enda átt honum að venjast úr heimkynnun-
um, þar sem myrkur furuskógurinn var þrándur í götu við
alla jarðrækt. Sviðningsræktunin hefur verið mun væn-
legri hér á landi á frjósömum fokjarðvegi en á súrum