SunnudagsMogginn - 02.05.2010, Blaðsíða 16
16 2. maí 2010
sambandið,“ kveður Toggi upp úr með. „Við syngjum t.d. miklu fallegar um bjór
en um Guð. Hins vegar eru alls konar yrkisefni á plötunni, t.d. svolítið uppgjör við
pönkið...“
„...og lag um Bibba,“ skýtur Ármann inn í og fær um leið spurningu út í hött frá
blaðamanni: „Ha? Morthens?“ Toggi tekur að sér að leiðrétta: „Nei Ármann samdi
lag um Bibba sem er með okkur í hljómsveitinni.“ Aggi tekur við: „Við gætum
sennilega dekkað heila plötu með lögum um sjálfa okkur. Reyndar á Ármann lag
um Bubba Morthens en það fór ekki á plötuna. Og ef titlinum hefði verið breytt úr
Bubbi í Bibbi hefði það komið eins út.“
Einu yrkisefni er úthýst á plötunni; kreppunni. „Hún er bara ekkert skemmti-
leg,“ segir Ármann og Baldur er sama sinnis. „Hún er fyrst og fremst ofmetin,“
segir hann. „Við áttum reyndar lag með krepputexta sem var saminn löngu fyrir
kreppu. Þar að auki inniheldur hann línuna: „Og hvenær var það síðast sem að
Katla gaus?“ En á endasprettinum var ákveðið að það lag færi ekki á plötuna,“ seg-
ir Toggi og Ármann er með skýringu á því: „Það hefði bara kynt undir einhverjum
samsæriskenningum. Og við vildum ekki kalla vandræði yfir okkur með því.“ Aggi
kinkar kolli: „Við köllum bara yfir okkur viðráðanleg vandræði.“
Lögin á plötunni eru bæði gömul og ný. „Við fórum yfir helgi í vinnubúðir á yf-
irgefinn bóndabæ í Borgarfirðinum og æfðum og sömdum en tvö laganna eru sam-
in þar,“ segir Toggi og Aggi minnir á að það hafi verið aðrar vinnubúðir vetrarins.
„Við fórum líka í Hrísey í haust og nokkur lög úr þeirri ferð eru líka á plötunni.“
„Við vinnum vel á svona einangrunarstöðvum,“ botnar Toggi.
Að þessi sinni hljóðrita þeir félagar á nýjum stað og með nýjum upptökustjóra,
Axel Árnasyni í stúdíói Reflex, sem þeir segja koma með nýja vídd í tónlistina. Það
er jafnframt á þeim að heyra að upptökustjóranum sé viss vorkunn. Í raun sé það
afrek í sjálfu sér að níu stofnfélagar hljómsveitarinnar starfi enn saman og séu nú
að gefa út þriðju plötuna sína, „ekki síst miðað við hverjir þessir níu eru,“ eins og
Aggi orðar það. Samstarfið hafi gengið „lygilega smurt“ fyrir sig, þótt stundum
hafi vissulega blásið. „En það er innan eðlilegra marka. Við höfum ekkert slegist
ennþá, nema Baldur og Bibbi og það er alveg óháð hljómsveitinni,“ segir Ármann
en Baldur er fljótur til varna: „Það er bara af því að við erum bræður sem við nudd-
um stundum bringunum hvor í annan.“ En, jújú – vissulega flæki það málið dálítið
að tíundi maðurinn sé kominn í upptökustjórnina. „sérstaklega af því að hann er
ráðinn til að hafa skoðanir.“
Eins og þekkt er eiga Ljótu hálfvitarnir rætur sínar að rekja norður. Sjö þeirra eru
uppaldir á Húsavík en tveir eru „sveitamenn úr nágrenninu“, annars vegar Oddur
Bjarni sem er úr Aðaldal og hins vegar Sævar sem kemur frá Ásbyrgi. Þeir segja þó
djúpt í árinni tekið að segja þá æskuvini. „Það er brjálæðislegur aldursmunur í
þessari hljómsveit því Baldur er fæddur 1984 en við Ármann árið 1968. Við vorum
löngu búnir að stofna hljómsveit þegar hann fæddist,“ segir Toggi. Ýmsar æsku-
tengingar eru þó innan hópsins, eins og Ármann útskýrir:
„Bibbi og Aggi eru æskuvinir og við Toggi og Sævar. En þegar
hljómsveitin var stofnuð höfðum við Baldur aldrei hist.“
Fljótu hálfvitarnir í kvennaboltanum
Aggi bendir á að ýmsar aðrar tengingar séu innan bandsins.
T.a.m. hafi Toggi kennt Eggerti (Edda) og Gumma í mennta-
skóla og sjálfur þjálfaði hann Baldur í fótbolta um tíma. „Og
þegar Ármann spilaði tölvuleikinn Football manager var Aggi
einn af mönnunum sem hann notaði,“ rifjar Toggi upp og Ár-
mann staðfestir það fúslega: „Já, þannig kynntist ég Agga
fyrst!“
Þegar blaðamaður afræður að kafa dýpra ofan í íþróttaferil
þeirra félaga koma afhjúpandi upplýsingar fram í dagsljósið.
Aggi var einhverju sinni „góður í fótbolta“ eins og vinir hans
orða það svo hógværlega, en á sínum tíma spilaði hann með
unglingalandsliðinu. Sjálfur hefur hann þó meiri áhuga á að
rifja upp önnur afrek. „Ekki gleyma að við Bibbi vorum einu
sinni í unglingalandsliðinu í frjálsum íþróttum, sem er ótrú-
legt,“ segir hann og Toggi grípur orðið: „Og Sævar átti, síðast
þegar vitað var, ennþá héraðsmet Norður-Þingeyinga í há-
stökki. Hann verður brjálaður ef þú kvótar þetta ekki rétt!“
Baldur vill líka koma mikilvægum upplýsingum á framfæri: „Ég held ég eigi
ennþá Vatnaskógarmetið í hástökki,“ segir hann grobbinn. Ármann verður hins
vegar hálfmóðgaður þegar hann er spurður hvort íþróttaferill hans sé bundinn við
Football manager? „Nei aldeilis ekki, ég æfði nú fótbolta til 12, 13 ára aldurs,“ svar-
ar hann að bragði. „Var héraðsmeistari!“ bætir hann ábúðarfullur við svo hlátur
hinna kæfir næstum því mikilvægt niðurlag máls hans: „Ég var fyrsti varamaður!“
Þeim finnst þó mikilvægt að fram komi að Ljótu hálfvitarnir í heild séu ósigraðir
sem íþróttalið, þar sem þeir hafi eitt sinn unnið fótboltaleik. „Þá hétum við Fljótu
hálfvitarnir og skoruðum á meistaraflokk kvenna hjá Völsungi í fótbolta á sjó-
mannadaginn. Við slátruðum þeim,“ segir Baldur. „Þetta var sigur skriðþungans,“
skýtur Toggi inn í áður en Baldur heldur áfram: „Eddi var reyndar fluttur upp á
sjúkrahús eftir upphitunina, án gríns. Hann gat hvorki andað né hreyft sig svo við
fórum með hann uppeftir. En kláruðum leikinn með stæl.“
Þar með eru íþróttaleikir og -sigrar Ljótu hálfvitanna upptaldir, þótt annað gull-
ið tækifæri hafi gefist. „Skömmu síðar vorum við með tónleika á Litla-Hrauni og
þeir vildu endilega fá okkur aftur til að spila við sig fótbolta. Þá gátum við sem bet-
ur fer afþakkað og sagt að við spiluðum bara við stelpur,“ segir Toggi. „Annars
hefðum við sennilega dáið og ekki komið aftur,“ klykkir Baldur út með.
Einhverjum kann að þykja merkilegt að níu manna hljómsveit komi í heild sinni
frá ekki stærri bæ en Húsavík og nágrenni. Það liggur því beint við að spyrja hvort
bærinn sé einhvers konar norðlensk hliðstæða bítlabæjarins Keflavíkur? Toggi
verður fyrir svörum: „Ég myndi frekar segja að Húsavík hafi verið eins konar
pönkbær því þar reið yfir hressileg pönkbylgja 1987 til 1992 – dálítið á eftir, ég veit.
En langflestir okkar, fyrir utan Baldur, voru þátttakendur í því.“
„Elstu mennirnir í bandinu stóðu þá á sviðinu og þeir yngri úti í sal,“ heldur
Aggi áfram. „Ég man t.d. eftir því að ég byrjaði að safna hári og keypti mér eins gít-
ar og Eddi átti eftir að hafa séð hann uppi á sviði þegar ég var svona 13 ára og hann
19. Þá var hann aðaltöffarinn í bænum. Og er náttúrulega!“
Þeir segja hljóðfærakunnáttuna þó misjafna í bandinu. „Oddur Bjarni er fyrst og
fremst söngvari, en hann lemur í allt lauslegt ef það er lítið að gera hjá honum,“
segir Ármann og Toggi samsinnir: „Og hann semur fín lög, sérstaklega miðað við að
hann spilar ekki á neitt hljóðfæri.“
„Sævar er líka helvíti hógvær þegar kemur að hljóðfæraleik. Hann getur ekki gert
hlutina nema vel,“ bætir Baldur við og Toggi hefur skýringuna á reiðum höndum:
„Hann er bara svona vandaður! Hann vandar sig svo rosalega mikið.“
Annars hafa hljómsveitarliðar þann kæk að „grípa í hljóðfæri sem þeir eru ekkert
rosalega góðir á,“ eins og Toggi orðar það. „Menn spila sjaldnast tvisvar í röð á sama
hljóðfærið á tónleikum.“ „Fyrstu fjárfestingar okkar voru þráðlausir sendar á hljóð-
færin svo við enduðum ekki í flækju á sviðinu út af snúrunum og stæðum þar síðan
vandræðalegir í einni kös,“ bætir Ármann við.
Þrátt fyrir spaugilegar lýsingar á hugsanlegum vandræðagangi á sviðinu eru Ljótu
hálfvitarnir á heimavelli fyrir framan áhorfendur. Flestir hafa þeir haft puttana í
leiklist, bæði sem höfundar, leikstjórar, leikarar og tónlistarmenn í hinum ýmsu
áhugaleikfélögum. „Það er sennilega bara Arngrímur sem er leikhúsjómfrú,“ segir
Toggi en þessi ummæli vekja þegar hörð mótmæli Baldurs: „Hann hefur nú einu
sinni samið tónlist fyrir barnaleikrit,“ segir hann og téður Arngrímur grípur boltann
á lofti: „Og það var m.a.s. tilnefnt til Grímunnar!“
Og undanfarið hefur verið meira en nóg að gera í leiklistinni fyrir drjúgan hluta
hljómsveitarinnar. Nýlega frumsýndi Hugleikur leikritið Rokk undir leikstjórn Togga
en margir hálfvitanna hafa verið áberandi í starfi þess leikfélags. Í þessari sýningu fer
t.d. Baldur með hlutverk trommara og Eggert semur tónlistina. „Leiksýningin er
með söngvum og fjallar um stelpnaband og strákaband, sem deila æfingarhúsnæði.
Þannig að þetta er veröld sem við þekkjum mjög vel,“ segir Toggi og svarar að-
spurður játandi að í sýningunni sé því dálítil „Með allt á hreinu“ stemning. „Þarna
eru strákar á móti stelpum og strákar með stelpum ef ekki vill betur til.“ Baldur dett-
ur þegar í „plögg“-gírinn: „Við sýnum á sunnudag, miðvikudag og fimmtudag, og
svo má fara inn á www.hugleikur.is til að sjá hvað þetta er yndislegt!“
Vilja þátttökurétt í Evróvisjón í kílóavís
Það hefur því verið ansi stíf dagskrá að púsla saman leikæfingum og hljóðverstímum
undanfarið hjá þeim félögum. Rullan yfir leiklistarafrek hálfvitanna er þó mun lengri
eins og þeir tíunda fúslega. „Bibbi skrifaði og leikstýrði með fyrrverandi kærustu
sinni á Húsavík fyrir framhaldsskólann í vetur og er að skrifa leikrit fyrir leikhópinn
Lottu, sem fer í gang í sumar. Hann er líka að skrifa eitthvert túristaleikrit sem á að
sýna á Húsavík og Oddur ætlar að leika í. Gummi hefur samið tónlist í leikrit og Ár-
mann er að fara á Reyðarfjörð að setja upp eigið leikrit um hernámið þar, en hann
vinnur líka hjá Bandalagi íslenskra leikfélaga. Okkar frægasta seleb er hins vegar
skaupstjarnan Sævar,“ en eins og lesendum er í fersku minni fór hann á kostum í síð-
asta áramótaskaupi í hlutverki Sigmundar Ernis Rúnarssonar alþingismanns. „Vand-
aður, Sævar!“ klykkir Toggi út með.
Þeir vísa því þó á bug að þessi sviðssækni sé afleiðing ein-
hvers konar athyglissýki. „Ég held að við séum aðallega
með valkvíða yfir því hvað við eigum að verða. Það er betra
að vera lélegir í mörgu en góðir í einu,“ segir Ármann.
„Þórarinn Eldjárn kallar það að vera fjölómenntaður,“ bætir
Toggi við.
Sú staðhæfing stangast þó óneitanlega á við árangur Ljótu
hálfvitanna í hinum ýmsu spurningakeppnum, s.s. Útsvari
og Popppunkti, eða hvað?
„Við vitum ýmislegt en getum ekki margt. Reyndar koma
árangurinn í Popppunkti okkur á óvart,“ segir Toggi og Ár-
mann glottir: „Ég held að hann hafi nú bara sýnt að hinir
vissu jafnvel ennþá minna en við.“ Óvænt yfirlýsing frá
Baldri vekur lukku: „Ég er mjög feginn að ég fór ekki í þess-
ar keppnir því ég er eiginlega öfugur. Ég get ýmislegt en veit
ekki neitt...“ „...sem er einmitt það sem felst í því að vera
öfugur!“ botnar Aggi og uppsker hlátursrokur félaga sinna.
Þeir segja allt á huldu með framhald þess að þeir brýni
gráu sellurnar í spurningakeppnum. „Við vorum ekki beðn-
ir um að koma aftur í popppunkt, enda vilja þeir alltaf nýjar
hljómsveitir í þáttinn. Svo er ekkert vitað með Útsvar; hvort
það verður, hvort við verðum þá beðnir um að taka þátt og
hvort við myndum þá taka það að okkur. Það verður bara að koma í ljós. Síðan erum
orðnir of gamlir til að taka þátt í Gettu betur,“ segja þeir en unglambið Baldur er ekki
á sama máli. „Talið fyrir sjálfa ykkur,“ segir hann snúðugt.
Þá er bara spurning hvort ekki sé kominn tími til að spreyta sig á einhverjum öðr-
um keppnum? Evróvisjón?
„Við erum of margir til þess, því það mega bara vera sex á sviðinu,“ segir Toggi en
Baldur veit ráð: „Ef við fengjum þessu breytt yfir í kíló gætum við kannski verið
átta.“ Toggi heldur óhindraður áfram. „Ég held raunar að fleiri en þrír í hljómsveit-
inni væru til í að bíða í græna herberginu á meðan. Þeir gætu komið sem lagahöf-
undur, textahöfundur og danshöfundur,“ segir hann og á staðnum er Eddi félagi
þeirra ráðinn í síðasttalda djobbið.
Raunar blundar mismikið í mönnum að taka þátt í keppninni. „Toggi er með eitt-
hvert helv... blæti um að fara í þetta,“ hnussar í Ármanni og Aggi á ekki von á að það
yrði til að auka á hróður þeirra félaga. „Við erum náttúrulega búnir að vinna Ragga
Bjarna í sjómannalagakeppni og toppum það ekkert. Það er eins og að vinna Abba í
Evróvisjón eða Hjalta Úrsus í Vestfjarðavíkingnum.“
Toggi er ekki alveg tilbúinn til að gefa þátttöku í Evróvisjón upp á bátinn: „Við
gætum líka sagt að við séum til í að taka þátt í Evróvisjón, en að við keppum bara við
stelpur.“ Baldur er snöggur að sjá annan möguleika: „Eða taka þátt í Vestfjarðavík-
ingnum og keppa bara við stelpur!“
Slík afrek eru þó ekki á dagskránni í nánustu framtíð því nýja platan er væntanleg
um mánaðamótin maí, júní og í kjölfarið verður lagst í hljómleikahald um landið. Það
má búast við mikilli gleði í hljómsveitarrútunni á milli staða enda segja þeir „iðulega
gaman í okkar bekk.“
Þeir eiga svo von á því að verða í spileríi fram eftir hausti en hvað gerist eftir ára-
mót er meira á huldu. „Við erum reyndar alltaf á leiðinni út, svona til að geta sagt að
við höfum farið til útlanda. Svo sendum við fréttatilkynningar heim um hvað þetta er
allt voðalega vel heppnað,“ segja þeir og Aggi klykkir út með frekar hálfvitalegum
endapunkti: „Og það er lykilatriði að lenda á Aðaldalsflugvelli þegar við komum til
baka. Þegar Katla gýs verður hann án efa millilandaflugvöllur landsins.“
’
Raunar blundar mis-
mikið í mönnum að
taka þátt í keppninni.
„Toggi er með eitthvert
helv... blæti um að fara í
þetta,“ hnussar í Ármanni og
Aggi á ekki von á að það yrði
til að auka á hróður þeirra
félaga. „Við erum nátt-
úrulega búnir að vinna Ragga
Bjarna í sjómannalagakeppni
og toppum það ekkert. Það er
eins og að vinna Abba í Evr-
óvisjón eða Hjalta Úrsus í
Vestfjarðarvíkingnum.“