SunnudagsMogginn - 10.10.2010, Blaðsíða 30
30 10. október 2010
Þ
að var kannski við hæfi en sama daginn og ég
fékk leyfi til að kjósa liðið var mér boðið að gera
grín að því,“ segir Kristinn Pálsson skop-
myndateiknari sposkur á svip en hann var ráð-
inn að Morgunblaðinu á átjánda afmælisdegi sínum, 6.
maí síðastliðinn.
„Ég sá að Morgunblaðið var að auglýsa eftir nýjum
teiknara og ákvað að taka þátt í samkeppninni,“ útskýrir
Kristinn en viðurkennir að hafa verið svolítið uggandi
vegna aldursins. „Ég var alls ekkert að flíka því hvað ég
var gamall,“ segir hann kíminn.
Og hann var ráðinn. „Ég held að menn hafi ekki gert sér
grein fyrir því hvað ég er ungur fyrr en ég stóð inni á
skrifstofu hjá Haraldi Johannessen ritstjóra. Ég held hann
hafi verið svolítið hissa en hann leit strax á björtu hliðina
– blaðið væri að leita að teiknara til næstu áratuga. Ég hlýt
að uppfylla það skilyrði – er eflaust yngsti starfandi skop-
teiknari á Íslandi og þó víðar væri leitað.“
Fyrstu mánuðina birti blaðið þrjár myndir eftir Kristin
á viku en vegna anna í námi í Verzlunarskóla Íslands birt-
ast myndir hans einungis í Sunnudagmogganum í vetur.
Vill búa í Eyjum
Kristinn er borinn og barnfæddur Vestmanneyingur,
sonur hjónanna Rutar Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra
hjá Vestmannaeyjabæ, og Páls Þórs Guðmundssonar,
framkvæmdastjóra Hugins ehf. Kristinn lauk grunn-
skólaprófi í Eyjum en hóf nám við Verzlunarskóla Íslands
fyrir tveimur árum. Hann er nú á þriðja ári á nátt-
úrufræðibraut, líffræðisviði.
Stefnirðu á framhaldsnám í líffræði?
„Ekki endilega. Ég ætla að halda öllum dyrum opnum.
Ég gæti alveg hugsað mér að fara í eitthvað allt annað, það
er raunar líklegra en hitt. Hvað það verður er hins vegar
óráðið. Hitt er hins vegar víst að ég stefni að því að búa í
Vestmannaeyjum í framtíðinni. Ég er mikill Eyjamaður.“
Hvenær byrjaðirðu að teikna?
„Í leikskóla, eins og allir aðrir, og hef eiginlega ekki náð
að vaxa upp úr því. Teikning er eitt af aðaláhugamálum
mínum en ég hafði lítið gert af því að teikna fólk fyrr en ég
var fenginn til þess fyrir síðustu Alþingiskosningar. Þær
myndir birtust í Stofnum, sem er blað ungs fólks í Eyjum
og kemur út nokkrum sinnum á ári. Það voru myndir af
svipuðu tagi og ég hef unnið með á síðum þessa blaðs.“
Nú eru liðnir fjórir mánuðir síðan þú byrjaðir að
teikna í Morgunblaðið. Hvernig hefur þér líkað nýja
starfið?
„Mjög vel. Þetta hefur verið virkilega skemmtilegt. Það
er hins vegar ekki sami maðurinn sem var ráðinn og er að
teikna í blaðið í dag. Stíllinn hefur breyst mikið og er
ennþá í þróun. Hann mun örugglega halda áfram að
þróast ef ég verð áfram.“
Ef?
„Ég er alveg til í að vera áfram en það er ekki alfarið
undir mér komið. Það hafa orðið mannabreytingar í þessu
starfi eins og öðrum.“
Fékk holl ráð hjá Sigmund
Flestir vita að Sigmund, sem teiknaði skopmyndir í
Morgunblaðið áratugum saman, er Eyjamaður eins og
þú. Þekkist þið?
„Ég kynntist honum fyrst í sumar, tók á mig rögg og
heimsótti hann. Sigmund var mjög almennilegur, sýndi
mér sitt af hverju tagi og gaf mér holl ráð. Það var ómet-
anlegt. Ekki var annað að heyra en hann fylgdist með
mér.“
Það er greinilegt á myndum þínum að þú fylgist vel
með þjóðmálaumræðunni. Hefurðu gert það frá blautu
barnsbeini?
„Ekki segi ég það. Áhugi minn á þjóðmálum jókst veru-
lega eftir hrunið. Ég segi bara eins og Jón Gnarr: Þegar
þetta fólk fór að trufla mitt líf langaði mig að trufla líf þess
á móti. Á stuttum tíma lærði ég hvernig stjórnkerfið virk-
ar og hef fylgst grannt með síðan. Það er ótrúlega gaman
að vera inni í málum og geta lagt eitthvað að mörkum í
umræðunni. Teikningin er mín leið til þess.“
Heldurðu að unglingar á landsbyggðinni fylgist al-
mennt betur með landsmálum en jafnaldrar þeirra
hérna á höfuðborgarsvæðinu?
„Það er örugglega misjafnt og svæðisbundið. Lands-
byggðin þarf oft að verja hagsmuni sína sem getur verið
erfitt í landi þar sem öllu er stýrt úr 101.
Mín tilfinning er sú að almenn þekking og áhugi ungs
fólks á stjórnkerfinu sé af skornum skammti. Því er upp
til hópa alveg sama. Ég er til dæmis ekki viss um að marg-
ir á mínum aldri viti hver er seðlabankastjóri eða yfir höf-
uð hvaða hlutverki Seðlabankinn gegnir.
Að mínu viti liggur sökin að miklu leyti hjá skólakerf-
inu. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það þurfi að
kenna krökkum miklu fyrr að þekkja sitt land og hvernig
stjórnkerfið virkar.
Á móti kemur að það er gríðarlega vandasamt að kenna
börnum þessa hluti. Vald kennarans er ótrúlega mikið.
Kennslan má ekki velta á því hvar kennarinn stendur í
pólitík sjálfur.“
Þekkir bara kurteist fólk
Hvernig viðbrögð hefur þú fengið við myndunum?
„Ég hef eiginlega bara fengið jákvæð viðbrögð. Kannski
þekki ég bara kurteist fólk?“ svarar hann sposkur.
Hvað finnst félögum þínum í Verzló um þetta starf
þitt?
„Ég held að þeim þyki þetta frekar gaman þó þeir skilji
ekki alltaf myndirnar. Mín kynslóð les fréttir meira á net-
inu en í blöðum og þeir urðu mjög hissa í haust þegar ég
byrjaði að mæta með Morgunblaðið í skólann. Ég næ ekki
að klára að lesa það áður en ég fer að heiman á morgnana.
Sumir kennarar urðu líka frekar forvitnir. Félagarnir eiga
til að stela frá mér Monitor og íþróttasíðunum en ég sit
eftir með stjórnmálaumfjöllunina,“ segir Kristinn hlæj-
andi.
Hvað finnst þér skemmtilegast að teikna?
„Það sem er efst á baugi hverju sinni og það sem hentar
vel í flotta mynd.“
Áttu þér einhvern uppáhalds karakter?
„Ég er ennþá að átta mig á því, fólk liggur misvel við
penna. Jón Ásgeir hefur komið nokkrum sinnum, það er
gaman að teikna hann, og svo auðvitað Steingrímur J.
Hann er mest allra í sviðsljósinu, blessaður. Þegar ég byrj-
aði átti ég von á því að Jóhanna Sigurðardóttir yrði að-
allega undir penna en það hefur ekki verið þannig. Hún
hefur ekki verið sérlega áberandi í sumar og haust.“
Meiri blaðamennska en list
Hann er bara átján ára en
veigrar sér ekki við að draga
ráðamenn þjóðarinnar sundur
og saman í háði. Vestmanna-
eyingurinn Kristinn Pálsson er
skopmyndateiknari Sunnu-
dagsmoggans.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Kristinn Pálsson segir nauðsynlegt að skopmyndateiknarar fylgist vel með þjóðmálum.
Morgunblaðið/Golli