SunnudagsMogginn - 17.10.2010, Side 37

SunnudagsMogginn - 17.10.2010, Side 37
Ú ti um allan heim er hópur fólks sem vinnur sjálfboða- vinnu við það að vekja athygli á Íslandi eða telst í það minnsta í óformlegum hópi klappstýra landans. Þetta fólk er oft kallað Íslandsvinir og er ljósmyndarinn Emm- anuel Gavillet einn þeirra. Þessi ríflega fertugi Svisslendingur hefur komið tvisvar til Íslands, fyrra skiptið var fyrir níu árum. Þá kafaði hann við Íslandsstrendur og tók myndir af flaki frönsku skonnort- unnar Pourquoi pas? á sjávarbotni úti fyrir Mýrum. Ísland heillaði Gavillet en hann langaði til að kynnast landinu nánar og kom í aðra heimsókn í maí. Í þetta skiptið ferðaðist hann ekki um landið með köfunargræjurnar í skottinu heldur sérsmíðaða myndavél, sem er frá því um eða upp úr miðri síðustu öld. Kafar djúpt í viðfangsefnið „Ég kom til að halda vinnunni áfram en í þetta skiptið með stóru, gömlu myndavélinni minni,“ segir hann en myndavélin er sérstök. „Myndavélin er algjör andstæða þess sem er í tísku núna, hún er ekki stafræn heldur með filmu. Það tekur 20 mínútur að taka eina mynd,“ segir hann en ljósmyndaferlið er öðruvísi en það sem helst tíðkast og viðhorfið sömuleiðis annað. Undirbúningurinn fyrir myndatökur er líka mikill, hann skoðar umhverfið mjög vel fyrir myndatöku. Þó að ekki sé um neðansjávarmyndatöku að ræða kafar Gavillet engu að síður djúpt í viðfangsefnið. „Mér líkar ekki þessi hraða, staf- ræna ljósmyndun, hún sýnir ekki eins mikla virðingu gagnvart ljós- myndun. Þar er hætta á því að þú sjáir ekki í raun það sem þú ert að taka mynd af. Þú tekur margar myndir með hraða og ferð síðan heim og velur mynd á tölvunni eftir á. Ég vinn alveg öfugt við þetta. Ég undirbý myndatökurnar mínar mjög vel,“ segir hann en það getur tekið langan tíma að ná góðri mynd og er hans leið því leið hinna þolinmóðu. Beðið eftir birtunni „Það getur jafnvel tekið viku að ná réttu myndinni. Ég þarf að bíða eftir réttu birtunni og ég þarf að vita nákvæmlega hvað ég ætla að mynda. Stundum fer ég fimm sinnum á sama stað til að ná mynd. Á Íslandi er þetta jafnvel erfiðara en í Sviss því veðrið breytist svo fljótt,“ segir hann og er það þá ekki síst birtan sem hann er að vísa til. „Birtan er svo margbreytileg. Ég undirbý myndavélina í fallegri birtu, kannski blöndu af þoku og sólskini. Skömmu síðar hefur birt- an breyst en er kannski líka falleg og ég þarf að ákveða mig hvor sé betri birta fyrir mig. Í þeim tilfellum tek ég tvær myndir. Í heima- landinu vinn ég aðeins öðruvísi, veðrið breytist ekki svona hratt,“ segir hann og hlær. Gavillet er fæddur árið 1968 í þeim hluta Sviss þar sem franska er ráðandi. Hann lærði við virtan listaháskóla, Ecole d’Arts Appliqués í Vevey og segir að persónulegur stíll sinn hafi mótast strax á náms- árunum. Hann starfar sjálfstætt og hefur haldið margar einkasýn- ingar frá því hann útskrifaðist fyrir um tveimur áratugum. Kýs fámennið Stórbrotna náttúru er að finna í Sviss og hefur Gavillet myndað mikið í fjöllunum. „Ég hef alltaf viljað mynda á stöðum þar sem ekkert eða að minnsta kosti fátt fólk er. Ég þarf að fá góða tilfinningu fyrir land- inu, hreinlega að finna lyktina af því. Ég verð að finna réttu tilfinn- inguna áður en ég tek myndir,“ segir listamaðurinn um staðarvalið. Það er því ekki skrýtið að hann kunni vel við sig í fámenninu á Ís- landi. Noregur heillar einnig og hefur hann heimsótt landið um tíu sinnum og meðal annars dvalið í Lófóten. „Ég kann vel við norðlægar slóðir. Ég væri til í að koma á hverju ári til landsins. Mér finnst þetta mjög sérstakt land með þetta samspil eldfjalla og jökla. Það er svo mikil orka í jörðinni á Íslandi og það er mér mjög mikilvægt.“ Meðfylgjandi myndir tók Gavillet í Íslandsförinni í vor en hann tekur aðeins svarthvítar myndir í sinni listrænu vinnu. „Ef ég er að vinna fyrir einhvern annan tek ég myndir í lit ef þess er óskað en kýs sjálfur svarthvítt og hef gert það síðan ég útskrifaðist. Mér finnst að- eins hægt að sýna tilfinningu í mynd ef hún er grátóna. Svarthvítt er það sem virkar fyrir mig. Það þarf ekki meiri upplýsingar í myndina, litur virkar truflandi.“ Hann dvaldi hérlendis í tæpan mánuð og myndaði á milli 40 og 50 viðfangsefni á gömlu vélina en myndirnar urðu hátt í 120 alls. „Ég tók allavega tvær myndir af hverju viðfangsefni til öryggis. Stundum var vindur og vélin hreyfðist aðeins en þannig getur myndin orðið óskýr. Því fannst mér öruggara að taka fleiri en eina mynd. Það var samt helst á toppi eldfjallsins sem þetta var erfiðast en þar var vind- urinn hvað mestur.“ Sýning í litlum bæ nálægt Bern Þar sem myndir Gavillet eru langt frá tækifærisljósmyndun vaknar sú spurning hvort hann taki líka stafrænar myndir. Hvernig lítur einkamyndaalbúmið hans út? „Ég tók myndir fyrir mig á stafræna myndavél til að sýna vinum og vandamönnum,“ segir Gavillet, sem verður var við Íslandsáhuga hjá samlöndum sínum. Sýning á 20 Íslandsmyndum verður opnuð nú um miðjan október í litlum bæ nálægt höfuðborginni Bern. „Ég er núna að undirbúa hana,“ segir hann en langan tíma tekur að framkalla allar myndirnar úr þessari sérstöku vél. „Ég er bara nýbúinn að ljúka við það mikla verk.“ Hann segist verða var við að fólk í Sviss haldi að Ísland sé hættulegt land, ekki síst eftir eldgosin í vor. Hann segir fólk kannski breyta um sýn eftir að hafa skoðað sýninguna. „Myndirnar mínar eru samt eng- in póstkort frá Íslandi. Fólk fær nýja sýn á landið, líka af því að myndirnar eru svarthvítar og teknar á þessa sérstöku vél.“ Hann segist vera viss um að hann komi hingað aftur. „Ég sá nýja staði sem mig langar að mynda með þessari myndavél.“ Fyrir átta árum var það hálendið sem heillaði mest. „Nú var ég hér of snemma og það var ekki hægt að ferðast inn á hálendið,“ segir Ga- villet svekktur en þó ekki sár. „Það er svo víða sem sérstakt og fallegt landslag er að finna.“ Gavillet að störfum í svissnesku Gastlosen-fjöllunum með myndavélina góðu. Hann hefur komið þangað margoft og myndar þá í 1700-2100 metra hæð. Hægt er að lesa blogg um ferðalög Gavillet og fleiri myndir eftir hann á www.pourquoi-pas.ch. ’ Mér finnst aðeins hægt að sýna til- finningu í mynd ef hún er grátóna. Svarthvítt er það sem virkar fyrir mig. Það þarf ekki meiri upplýsingar í myndina, litur virkar truflandi. 17. október 2010 37

x

SunnudagsMogginn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.