SunnudagsMogginn - 26.06.2011, Blaðsíða 40
40 26. júní 2011
Á
undanförnum áratugum,
einkum síðustu tveimur, og
ekki síst með tilkomu netsins,
þar sem neysla og þjónusta fer
sívaxandi, hefur þörfin fyrir gagna-
geymslur eða gagnaver orðið til. „Það eru
ákveðin lög og reglur um að fyrirtæki og
stofnanir eigi að geyma rafræn gögn í
ákveðinn tíma og gagnaver sérhæfa sig í
því með persónuvernd og öryggi að leið-
arljósi,“ segir Guðmundur. Hann tekur
sem dæmi tölvupóst sem blaðamaður
sendir öðrum blaðamanni. Þessi póstur
fer í eitthvert gagnaver, það er hluti af
þjónustu póstfyrirtækisins. Þegar svo
blaðamaðurinn vill ná í póstinn nokkrum
vikum seinna er hann í raun að ná í hann í
gagnaverið. „Póstþjónustufyrirtækið,
sem gæti verið íslenskt, leitar að hag-
kvæmustu leiðinni til þess að geyma þess-
ar upplýsingar sem fyrirtækinu ber að
geyma og það getur verið gagnaver á Ís-
landi, Bretlandi, Belgíu eða í Kína svo
eitthvað sé nefnt. Fyrirtæki af öllum
stærðum, háskólar og jafnvel einstak-
lingar gera sér í síauknum mæli grein fyrir
kostnaðinum við að geyma eigin gögn og
reka tölvukerfi og uppgötva að það sé
ódýrara fyrir þau að útvista þessum
rekstrarþætti. Við, sem gagnaver, veitum
aðstöðuna fyrir gögnin en sem þjón-
ustuaðili vitum við ekkert hvað er í þess-
um gögnum og berum enga ábyrgð á inni-
haldinu.
THOR Data Center hóf starfsemi fyrir
um hálfu ári en undirbúningur hafði þá
staðið í eitt og hálft ár. „Við teljum að
gagnaver eigi framtíðina fyrir sér á Ís-
landi. Við erum vel samkeppnishæf við
önnur lönd, einkum í Evrópu. Megin-
kostnaðurinn við rekstur gagnavera er
húsnæði, launakostnaður, rafmagn og
kæling. Það sem er sérstakt við rekstur
THOR Data Center er að við notum ís-
lenska kalda loftið til þess að kæla tölv-
urnar. Við erum því að búa til peninga úr
þessu vistvæna náttúruafli. Loftið hér á
landi er kalt nánast allan ársins hring, það
er lítill munur á milli sumars og veturs,
það fer lægst í mínus 10°C á veturna og
+15°C á sumrin í fjögurra tíma meðaltali.
Það er áskorun að vera
frumkvöðlafyrirtæki
Það, að við getum kælt tölvurnar okkar
með hinu íslenska kalda lofti, þýðir að
rekstrarkostnaður okkar er helmingur á
við það sem rekstrarkostnaður gagnavera
í Bretlandi er og víðast hvar annars staðar
í heiminum. Þar þarf að nota rafmagn til
þess að kæla annaðhvort vatn eða loft, og
rafmagnið er þá orðið mjög stór þáttur í að
reka gagnaverið. Þar er verið að nota allt
að 100-150% meira rafmagn en við gerum
en við notum ekki nema 10% aukaraf-
magn í kælingu.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Gríms-
son, bauð Microsoft að kynna sér að-
stæður hér á landi varðandi aðstæður til
reksturs gagnavera. Ekki varð af fjárfest-
ingu, einkum vegna landfræðilegrar legu
landsins og hversu hátt verðið á bandvídd
er. Hvað lærðuð þið af þessu sem við-
skiptaleiðtogar? „Í frumkvöðlastarfsemi
þýðir ekki að gefast upp. Þegar við erum
að reyna að fá viðskiptavini til landsins
erum við að bregðast við óskum þeirra.
Við lentum t.d. í talsverðri rimmu við ís-
lensk yfirvöld um að fá virðisaukaskattinn
felldan niður á þeirri forsendu að við vær-
um fyrst og fremst fyrirtæki í útflutningi.
Það var mikil barátta og vinna að sann-
færa stjórnvöld um að ekki væri hægt að
setja virðisaukaskatt á viðskiptavini okk-
ar. Það væri eins og að setja virðis-
aukaskatt á fiskútflutning. Sá aukakostn-
aður hefði einfaldlega orðið til þess að við
hefðum ekki getað starfað hér á landi.
Þetta er vitaskuld nýr iðnaður og það
tekur tíma að setja lög og reglur sem
henta rekstri sem þessum en það hefur
verið gert í Evrópu. Það var ekki fyrr en
við fórum að benda á þær reglur að eitt-
hvað fór að gerast og nú eru í farvatninu
lög og reglur sem eiga að taka gildi 1. maí
og við horfum vonaraugum til.
Varðandi verð á bandvídd er einokun á
þeim markaði hér á Íslandi og það er aldr-
ei gott. Verð á bandvídd til Íslands er allt
of hátt. Ástæða fyrir þessu er að streng-
urinn til landsins er mjög illa nýttur eða
örfá prósent af afkastagetu. Við höfum
fregnir af því að mjög stórir aðilar og
einnig okkar tilvonandi viðskiptavinir
hafi hreinlega hætt við að koma til Íslands
vegna þessa háa verðs. Þetta er mjög al-
varleg staða og óábyrg að mínu mati. Fjár-
festingin er þegar komin en vegna þess
hve illa hún er nýtt er verðið allt of hátt.
Ef verðið væri reiknað út frá fullri nýtingu
gætum við verið mjög samkeppnisfær.“
Eyja hörmunganna
Hverjir eru kostir þess og gallar að vera
frumkvöðlar?
„Kostirnir eru klárlega þeir að þegar
maður er fyrstur fær maður talsverða at-
hygli. Við náðum samningi við norska
hugbúnaðarfyrirtækið Opera Software.
Þeirra helsta vara er netvafri fyrir farsíma
sem er í notkun hjá 170 milljón manns út
um allan heim. Þegar notandi vafrans
skoðar heimasíðu biður síminn gagnaver-
ið okkar að ná í síðuna og pakka henni
saman þannig að það fer minna gagna-
magn til baka í símann. Fyrir vikið borgar
viðskiptavinurinn minna fyrir að skoða
heimasíðuna og er fljótari að nálgast upp-
lýsingarnar. Opera Software markaðssetti
þetta mjög vel um allan heim, það vakti
gríðarlega athygli og við fengum fyrir vik-
ið mjög jákvæða umfjöllun.
Svo get ég nefnt annað dæmi, þar sem
erfitt er að vera fyrsta íslenska fyrirtækið
að gera samning á erlendri grund eftir ís-
lenska hrunið. Þannig var að ég, ásamt
fleiri, var á fundi í Hollandi fyrir tveimur
árum. Við höfðum kynnt áætlanir okkar
og spurðum Hollendingana að lokum
hvernig þeim litist á. Þá dregur einn
fundarmanna upp hollenskt dagblað og á
forsíðunni er mynd af Íslandi og yfir henni
stríðsfyrirsögnin: „Disaster Island“. Við
urðum hálfskelkaðir en vissulega er búið
að vera erfitt að selja Ísland í þessu árferði
og margt verið okkur andsnúið, þar á
meðal eldgos.“
Grænn iðnaður sem skapar störf
En hver er framtíð gagnavera?
„Framtíð gagnavera er nokkuð björt.
Þessi atvinnugrein virðist vera að stækka
töluvert, gagnamagnið er alltaf að aukast
og markaðssvæði okkar, Evrópa, að
stækka. Flest gagnaver eru orðin gömul
og ekki hefur verið mikil fjárfesting í þeim
þrátt fyrir að tækninni hafi fleygt fram.
Þar sem það skiptir ekki máli hvar gagna-
verið er í heiminum heldur aðeins rekstr-
arkostnaðurinn sjáum við Íslendingar
mikil tækifæri. Nýju tölvurnar taka meira
rafmagn, það þýðir að það kemur meiri
hiti frá tölvunum og kæliþátturinn verður
æ mikilvægari.“
Guðmundur ítrekar samt að það verði
að halda vel á spöðunum. „Yfirvöld verða
að vera jákvæð í garð þessarar nýju at-
vinnustarfsemi, því hún verður að vera
samkeppnishæf á erlendum mörkuðum.
Þetta er útflutningsvara og því gjaldeyr-
isskapandi. Það er til dæmis furðulegt að
grænn iðnaður eins og gagnaver þurfi að
borga meira fyrir rafmagn en mengandi
iðnaður eins og álver.“
Hann nefnir annan þátt sem hann telur
að yfirvöld ættu að gefa frekari gaum.
„Það er gagnaversstrengurinn Danice,
sem er nýr strengur sem settur var upp
fyrir ári og afkastar mjög miklu. Í dag eru
ekki notuð nema 3-4% af honum. Þetta er
gífurlega vannýtt auðlind. Ef ég leyfi mér
að stíga inn á hið pólitíska svið, þá er erfitt
að skilja hvers vegna á að setja upp raf-
magnsstreng til Evrópu, þegar við erum
með gagnaversstreng þar sem við getum
nýtt raforkuna hér á Íslandi í stað þess að
flytja hana út. Gagnaver skapa mörg störf.
„Það þarf að setja upp gagnaverið og síðan
annast reksturinn,“ segir Guðmundur.
En hvernig sér hann fyrir sér framtíð
THOR Data Center á næstu tveimur árum?
„Markmiðið er að koma upp arðbærum
rekstri. Við ætlum að vera í forystu í lág-
um kostnaði, traustri þjónustu og leiðandi
í tækni hvað varðar kælingu. Samkeppni á
heimsmarkaði er gríðarlega hörð og til að
standast hana þurfum við að vera fram-
úrskarandi.“
Upplýsingaöldin skapar ný vistvæn störf
Hið mikla magn upplýsinga sem safnast upp á
upplýsingaöldinni skapar verðmæti í nýrri at-
vinnustarfsemi sem vistar og vinnur úr gögnum
fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Guðmundur
Gíslason, sem er stjórnarformaður í fyrsta ís-
lenska gagnaverinu sem er starfrækt hér á landi,
THOR Data Center, segir hér frá þessum nýja
iðnaði, rekstrinum, útflutningnum og sigrunum
og erfiðleikunum sem nýsköpunar- og frum-
kvöðlafyrirtæki standa oft frammi fyrir.
Unnur H. Jóhannsdóttir
Morgunblaðið/Sigurgeir S
Guðmundur Gíslason
stjórnarformaður THOR
Data Center.