SunnudagsMogginn - 26.06.2011, Blaðsíða 43

SunnudagsMogginn - 26.06.2011, Blaðsíða 43
26. júní 2011 43 „Stundum þegar ég er spurður um stærð á málverki svara ég að það sé tveir sinnum tveir og áttatíu – sinn- um fjörutíu kílómetrar! Það er þessi dýpt sem ég er alltaf að sækjast eft- ir,“ sagði Georg Guðni Hauksson myndlistarmaður fyrir nokkrum árum í samtali um listsköpun sína. Georg Guðni lést fyrir viku, laugardaginn 18. júní, en hann varð fimmtugur á fyrsta degi ársins. Georg Guðni varð kunnur fyrir myndlist sem náði að verða djúp eins og hann sóttist eftir; list sem byggði á þessu landi sem við byggj- um og náttúru þess, en var jafnframt afar persónuleg. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Ís- lands árin 1980 til 1985 og síðan við Jan Van Eyck Academie í Hollandi árin 1985 til 1987. Verk Georgs Guðna vöktu strax at- hygli á fyrstu sýningu hans í Ný- listasafninu árið 1985, en hann kom þar fram með nýja sýn á landið og varð óumdeildur frumkvöðull í end- urreisn landslagsmálverksins hér. Síðan sýndi Georg Guðni víða um heim, verk hans hafa birst í mörgum bókum og hlaut hann ýmsar viður- kenningar fyrir verk sín. Georg Guðni lætur eftir sig eig- inkonu, Sigrúnu Jónasdóttur, og fimm börn á aldrinum átta til 23 ára. Óumdeildur frumkvöðull Hannes Sigurðsson listfræðingur setti saman í Listasafninu á Akureyri árið 2007. Þar sýndi hann þrjú meginþemu í verkum Georgs Guðna: fjöllin, dalina og sjóndeildarhringina. Hann var agaður og vinnusamur listamaður, og þróaðist list hans hægt og örugglega. Á vissan hátt má segja að hann hafi afhelgað landið sem forverar hans höfðu baðað í rómantísku og sögulegu ljósi, hann nálgaðist það út frá formi og tilfinningu, frekar en út frá sögulegum gildum; einhverju sinni lét Georg Guðni hafa eftir sér að marg- afmyndaðir staðir eins og Þingvellir væru ekki spennandi sem landslag. Áhuga- verðasta landslagið væri það sem ekki bæri nafn, væri frekar skynjun. „Upphafning á landslagi ómerkir það á vissan hátt,“ sagði hann í samtali okkar fyrir yfirlitssýninguna sem Listasafn Ís- lands hélt þegar hann var 42 ára gamall, árið 2003. „Upp á síðkastið hefur mikið verið rætt um svokallað sjónrænt mat á landslagi – það er eitthvað sem listamenn hafa stundað hér í á annað hundrað ár,“ bætti hann við. „En hvað mönnum finnst áhugavert tekur sífellt breytingum. Um leið og menn hafa notað eitthvað, bundið það niður, þá beinist áhuginn annað. Um leið og landsvæði er gert að þjóðgarði er búið að upphefja það. Víðáttur landsins eru óbyggðir en um leið og óbyggðir fyllast af fólki hætta þær að vera til. Þá fáum við ekki lengur út úr náttúrunni það sem við sóttumst eftir. Þetta sáum við líka gerast með landslagið í málverkinu. Leiðin milli þjóðgarða er jafn merkileg og þjóðgarðarnir sjálfir en það er búið að merkja þá sem hið áhugaverða. Er hitt þá orðið óáhugavert?“ spurði hann. Býr til sjónrænar aðstæður Fyrst gat Georg Guðni sér orð fyrir mál- verk af fjöllum, nafngreindum fjöllum, en smám saman varð náttúran sem hann sýndi óræðari. Hann ræddi um þróunina í þessu sama samtali, en þá vorum við að horfa á fjögur stór, bláleit verk í vinnu- stofu hans, voldug og óræð málverk, og ég spurði hvort við værum að horfa út á haf eða yfir land. „Það heillar mig hvað þetta er orðið óskilgreinanlegt, mér finnst þetta geta verið hvort tveggja,“ sagði hann. „Þetta byrjaði sem einskonar hálendisöldur en getur nú verið hvort sem er, öldur á hafi eða jörð.“ Hann sagði að þegar hann sýndi verk í þessum anda árið áður, hefði fólk spurt hvort horft væri til lands af sjó, horft frá landi eða hvort þetta væri hálendisvíðátta. „Ég set skynjunina ekki fram heldur býr fólk hana til eftir því hvað það hefur upplifað eða einfaldlega eftir því sem það ímyndar sér. Augað leitar að einhverju þekkjanlegu en ef það festir ekki við neitt fyllir hugurinn í eyðurnar. Það er ekki mitt að segja fólki hvað það á að sjá í verkunum.“ Hvert er þá þitt hlutverk? spurði ég. Georg Guðni hló og svaraði að áhorf- andinn væri í sömu sporum og hann, nema áhorfandinn málaði ekki verkið. „Ég bý til sjónrænar aðstæður, þær mynda ákveðinn tíma sem fólk staldrar við. Þegar þú staldrar við þessi verk get- ur þú lent í svipuðum aðstæðum og þeg- ar þú starir út um glugga. Ert að horfa en samt hættur að horfa á eitthvað ákveðið. Þá snýr sjónin við, fer inná við. Það ger- ist ef þú ferð að horfa hérna.“ Georg Guðni gekk að einu verkinu og benti á miðflötinn, þar sem var einskonar óviss og loftkenndur sjóndeildarhringur. Sagði svo: „Við náum ekki að festa sjónina á neinu ákveðnu, hún fer þá til baka og hugsunin fer að búa til myndir á eigin tjaldi.“ Náttúrutengingin er samt alltaf til staðar í verkunum, þótt þau séu orðin allt að því óhlutbundin, sagði ég. „Já, náttúran kemur alltaf upp í þeim en á ákveðnum tímapunkti öðlast mál- verkið sjálfstæði. Þá skiptir meira máli sjálf glíman við málverkið en að fjalla um einhver náttúrufyrirbrigði, ljós, veður eða slíkt. Þeir þættir koma sjálfkrafa inn, þeir eru einhver fasi sem alltaf er til staðar. Ég legg upp með eitthvað ákveðið en það er sífellt að breytast. Ég byrja að mála í einu horni, síðan kemur annað lag, þriðja lag- ið og það getur verið orðið eitthvað allt annað. Ég hleð verkin þannig upp og þá kemur inn annar mikilvægur þáttur, sem er tíminn. Það er eins og fyrst renni hraun og myndi lag, yfir það fýkur sand- ur, þá skýtur gróður rótum, svo rennur annað hraun yfir allt saman. Gróðurinn og mölin eru eins og hugsanirnar milli laga. Hvert nýtt lag getur verið þróun í ákveðna átt en getur einnig verið skref aftur. Þannig hleðst málverkið upp. Þetta er tímalína – þetta er sköpunar- saga.“ „Fjallið var mín sjálfstæðisbarátta“ „Vissulega eru þarna átök … og sífelld leit,“ sagði Georg Guðni um þróun ferils- ins; hann sagðist hafa byrjað að mála ákveðin þekkjanleg fjöll sem alltaf báru nafn, svo fór hann í „tiltölulega geó- metrískt landslag,“ með náttúruvís- unum. „Þá komu inn dalir sem byggðu á mjög sterkri málunartækni, gegnsæjum en greinilegum lóðréttum og láréttum línum. Ég gekk ofboðslega langt í því, svo langt að mér fannst að lokum að ég yrði að brjótast undan því … mér fannst það orðið truflandi því fólk fór ekki inn fyrir framhlið verkanna, málunar- tæknina.“ Georg Guðni sagði þarna í marsmánuði 2003 að hann væri með aðra höndina í einhverskonar rómantík en hina í nú- tímanum. Hann tengdi sig við marga og ólíka listamenn en hefði í upphafi ferils- ins háð sína persónulegu sjálfstæðisbar- áttu. „Segja má að ég hafi byrjað með ákveðinni tengingu í gömlu meistarana, sem háðu sína sjálfstæðisbaráttu, ekki bara persónulega heldur fyrir þjóðina. Fjallið var mín sjálfstæðisbarátta,“ sagði Georg Guðni og eftir standa verk hans, við hlið verka hinna látnu meistaranna. ’ Þegar þú staldrar við þessi verk getur þú lent í svipuðum að- stæðum og þegar þú starir út um glugga. Ert að horfa en samt hættur að horfa á eitthvað ákveðið. Þá snýr sjónin við, fer inná við.“ „Náttúran kemur alltaf upp í þeim en á ákveðnum tímapunkti öðlast málverkið sjálfstæði. Þá skiptir meira máli sjálf glíman við málverkið en að fjalla um einhver náttúrufyrirbrigði, ljós, veður eða slíkt,“ sagði Georg Guðni um verk sín. Morgunblaðið/Einar Falur

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.