Saga - 2005, Blaðsíða 110
stundum minnst á „héraðsstjórn“ einstakra höfðingja en ekki er
alltaf ljóst hvort þeir voru goðar. Þá er greinilegt að stundum er gert
ráð fyrir að slík „héraðsstjórn“ sé í verkahring nokkurra öflugra
bænda en ekki endilega eins manns.47
Íslenskt samfélag fram á 12. öld virðist því einkennast af þrennu.
Bændastéttin var lagskipt en hópur betri bænda hefur samt verið
tiltölulega einsleitur. Mestu auðmennirnir bjuggu á góðum jörðum
og áttu e.t.v. nokkrar í viðbót en ekki margar. Um 10% bænda voru
í stétt „landnámsmanna“, þeir voru öflugir í héraði og fylgdu goð-
um á þing. Þorri bænda var ekki í þeim hópi en þeir voru hins veg-
ar ráðandi á eigin heimili. Hugmyndir um samhjálp á milli bænda,
í hreppum og gildum, eru vísbending um tiltölulega samhenta
bændastétt, þótt hún kunni að hafa verið lagskipt.48 Líklega eru
þessi ákvæði einkum vitnisburður um hugmyndir ritara Grágásar
um æskilega samhjálp, en þær urðu ekki til í tómarúmi. Sóknar-
menn áttu í sameiningu „að skipta matgjöfum og tíundum og
mannaeldi“.49
Það samfélag sem hér er lýst var lagskipt og einkenndist af
feðraveldi. Efstir voru „hinir stærri“ bændur, síðan kom „alþýða
bænda“ en svo griðfólk sem einnig hafði mismunandi vægi. Sjó-
menn hafa haft svipaða stöðu og griðmenn og verið háðir náð
bænda. Útlegð var þyngsta refsingin sem menn gátu orðið fyrir á
Íslandi og sýnir það mikilvægi þess að eiga staðfestu. Nokkur hóp-
ur manna stóð þó fyrir utan samtryggingarkerfi hreppanna, ýmist
nefndir harkamenn eða einhleypingar. Einhleypingar höfðu tölu-
verða sérstöðu í samfélaginu. Þeir voru hreyfanlegri en aðrir lands-
menn og ekki eins bundnir einum stað. Óvenjulegt dæmi um ein-
hleyping er glæsimennið Þorkell Þjóstarsson, sem fór utan og gerðist
handgenginn Miklagarðskonungi. Algengara var að einhleypingar
sinntu hernaði fyrir höfðingja á Íslandi og ættu þá e.t.v. von um
frama í þjónustu þeirra. Hreyfanleiki einhleypingsins gat þannig
líka verið félagslegur. Líklega hafa viðhorf einhleypinga verið all-
S V E R R I R J A K O B S S O N110
47 Sverrir Jakobsson, Við og veröldin. Heimsmynd Íslendinga 1100–1400 (Reykjavík
2005), bls. 291–293. — Sjá einnig: Gunnar Karlsson, Goðamenning, bls. 148–155.
48 Í Staðarhólsbók Grágásar eru ákvæði um að bændur eigi að bæta hver öðrum
tjón sem þeir verði fyrir ef drepsótt komi í fé þeirra eða ef híbýli (stofa, eld-
hús og búr) þeirra brenni. Sjá Grágás, bls. 188–89. Eitthvað hefur verið um
tryggingasvik, a.m.k. er tekið fram: „Eigi eru menn skyldir að gjalda hinum
sama manni oftar skaðabætur en þrisvar.“
49 Grágás, bls. 181. Þar er líklega átt við fátækratíundina.
Saga haust 2005-NOTA 23.11.2005 20:10 Page 110