Saga - 2005, Blaðsíða 149
menn horfa um öxl,“ sagði Matthías Johannessen sömuleiðis,
„hættir þeim til að segja söguna eins og þeir vilja að hún hafi verið,
en ekki eins og hún var. Asklok verður himinn“.5 Þetta þýðir auð-
vitað ekki að þeir sem skrifuðu stjórnarráðssöguna og aðrir sem
vinna við rannsóknir á liðinni tíð séu öllu óháðir og hrein ímynd
hlutlægni. Við erum öll fordómafull börn okkar tíma (þótt eftir
standi alltaf að sumum tekst betur en öðrum að átta sig á því).
Víkur þá sögunni að baráttunni við heimildirnar. Hún er að
mörgu leyti sérstök þegar átt er við samtímasögu. Ýmis gögn, til
dæmis skjöl utanríkisráðuneyta á Vesturlöndum, eru að öllu jöfnu
ekki aðgengileg fyrr en nokkur tími hefur liðið og hefur gjarnan
verið miðað við 20–30 ár. Heimildaskrá stjórnarráðssögunnar gefur
til kynna að höfundar hennar hafi haft aðgang að þeim opinberu
gögnum á Íslandi sem þeir óskuðu eftir að sjá og er ýmsan nýjan
fróðleik að finna í verkinu, t.d. um þorskastríð og landhelgismál.
En skráin sýnir líka annan vanda sem getur verið erfiður við að eiga
í samtímasögu og það er hinn mikli fjöldi heimilda sem menn hafa
úr að moða. Þótt sá vandi sé líka fyrir hendi þegar saga fyrri alda er
annars vegar má fullyrða að hann vaxi eftir því sem nær dregur nú-
inu, með þeim aragrúa heimilda sem er hvarvetna að finna. Oft get-
ur reynst erfitt eða illmögulegt að hafa uppi á tilteknum gögnum
einmitt vegna ofgnóttarinnar, eins og Eggert Þór Bernharðsson
sagnfræðingur lýsti eitt sinn í fróðlegri dæmisögu um „frumskóga
samtímans“.6 Og það er ekki nóg að finna hinar og þessar heimild-
ir. Vandinn sem felst í úrvinnslu þeirra getur virst nær óyfirstígan-
legur. „Sagnfræðingurinn sem hyggst rita sögu Stjórnarráðsins síð-
ustu fjörutíu ár hlýtur að andvarpa og nálgast viðfangsefni sitt með
sveittar hendur og ótta í augum,“ skrifaði Hilma Gunnarsdóttir
sagnfræðingur.7 Eina ráðið er að gefast ekki upp, heldur velja og
hafna eftir bestu getu, samvisku og kunnáttu.
Annar sérstakur „vandi“ við heimildir og samtímasögu felst í
því að söguhetjurnar sjálfar geta lagt orð í belg. Þá gildir einnig að
það getur reynst þrautin þyngri að velja og hafna; í inngangi að
stjórnarráðssögunni segir ritstjóri: „sökum knapps tíma hefur ekki
V E R K I N TA L A 149
5 Matthías Johannessen, Ólafur Thors. Ævi og störf II (Reykjavík 1981), bls. 374.
6 Eggert Þór Bernharðsson, „Frumskógar samtímans. Hugleiðing um heimilda-
vanda í samtímasögu“, Sagnir 12 (1991), bls. 70–75.
7 Vef. Hilma Gunnarsdóttir, „Að flokka og skilja — um póstmódernisma“. Kvik-
saga, 13. apríl 2005. Sjá http://www.kviksaga.is/ritstjórn. Skoðað í júní 2005.
Saga haust 2005-NOTA 23.11.2005 20:10 Page 149