Saga - 2005, Blaðsíða 227
Ég hyggst fyrst ræða um framlög þeirra Óskars og Þóru, enda hef ég
þegar byrjað þá umfjöllun, en snúa mér síðast að framlagi aðalhöfundar,
Helga Þorlákssonar. Að svo miklu leyti sem ég hef vit á er bókarkafli Ósk-
ars Halldórssonar, „Bókmenntir á lærdómsöld 1550–1770“ (bls. 217–257),
fræðilegt afrek og að auki sérdeilis skemmtilegur aflestrar. Mikið fræddist
ég á honum! Óskar eys úr brunni mikillar þekkingar bæði á íslenskum og
erlendum ritum á umræddu tímabili, á bókmenntum, hugmyndum og
hugarfari þess. Það er e.t.v. aðfinnsluvert að titill verksins skuli ekki vera
menningarsaga (í stíl við nýjustu strauma í nafngiftarfræðum sem skipta
stöðugt meira máli). Kaflinn er ítarlegur og spennandi og fjallar um verald-
legan kveðskap tímabilsins og dýpkar skilning minn (sem ég hélt þó að
væri nokkur fyrir) á þessum tíma. Ég staðhæfi að hér eftir getur enginn
kynnt sér almenna sögu þessa tímabils án þess að lesa þetta verk Óskars.
Aðrir kaflar í bókarhluta Óskars, þótt góðir séu, eru mér ekki alveg eins
mikil tíðindi. Ég hreifst af því hvernig hann veltir fyrir sér andstæðum
guðstrúar, sem raunar gilda enn, um mildi guðs og refsingar hans. Leitt er
að kafli Óskars um galdratrú skuli ekki vera í sama bindi og galdraumfjöll-
un Helga. Hér hef ég eina efnislega athugasemd. Óskar telur þann sið kaþ-
ólskan að „með skírninni var óvinurinn rekinn út úr barninu“. En þetta er
og var almennur kristinn siður, einnig með lúterskum, og sumir þjóðkirkju-
prestar reka enn þá djöfulinn úr ungbörnum af miklum móð. Hér örlar á
fortíðarhyggju hjá Óskari. Um bókarhluta Þóru Kristjánsdóttur, „Myndlist
á 17. öld“, er það að segja, að hann er sneisafullur af staðreyndum og góð-
um myndum; hann er stuttur eða 24 bls., þannig að lítið rými er fyrir
vangaveltur og skýringar. Hann er því gott uppsláttarverk.
Meginhluti bókarinnar er eins og áður sagði ritverk Helga Þorlákssonar
(bls. 5–199). Raunar snúast athugasemdir mínar aðallega um kaflann „Versl-
un og viðskipti um 1640–1685“. Við aðra hluta ritsmíðar Helga hef ég varla
mikilvægar athugasemdir að færa en get strax látið það koma fram að þar
finnst margur gullmolinn, en sá besti er umfjöllun Helga um Brynjólf bisk-
up Sveinsson (bls. 125–135). En snúum okkur fyrst að athugasemdunum.
Fyrst vil ég gera smávægilega athugasemd við kaflann „Árferði og hag-
ir frá 1640–1685“ (bls. 11–17). Þar fer Helgi í kunnugan farveg og heldur
fram fólksfjöldaskýringu í anda Malthusar: Of margt fólk hafi leitt til fleiri
dauðsfalla. Helgi kemur hér hvergi með skýringu um að aukning í dánar-
tíðni hafi verið vegna þess að sóttir hafi fremur borist til landsins; að vegna
aukinna siglinga hafi landið opnast meira fyrir erlendum farsóttum en áður
var. Hér er auðvitað atburður utan tímasviðs Helga, stórabóla (1707–1708),
gott dæmi til samanburðar, en hún breytti búskaparháttum Íslendinga á
ýmsa vegu, einkum dró þá mikið úr fiskveiðum vegna skorts á mannafla.
Enn fremur er sú skýring Helga frekar kúnstug að afleiðing fólksfjölg-
unar hafi verið launahækkun (bls. 14). Hér er útilokað að finna orsakasam-
hengið. Helgi tekur í kafla þessum fram að stöðug efnahagsþensla hafi ver-
R I T D Ó M A R 227
Saga haust 2005-NOTA 23.11.2005 20:11 Page 227