Saga - 2005, Blaðsíða 137
M AT T H Í A S Á. M AT H I E S E N
Andmæli og athugasemd
við frásögn í fyrri hluta þriðja bindis
Stjórnarráðs Íslands 1964–2004
Í nóvembermánuði 2004 kom út þriðja bindi ritverksins Stjórnarráð
Íslands 1964–2004.1 Þegar ég hóf að blaða í verkinu, sem fjallar um
ríkisstjórnir og helstu framkvæmdir 1983–2004, var ég fljótt kominn
að frásögn af annarri ríkisstjórn þessa tímabils, þeirri ríkisstjórn er
Þorsteinn Pálsson veitti forsæti 1987–1988. Segir þar stuttlega frá
aðdraganda að myndun stjórnarinnar, ráðherrum og skiptingu
ráðuneyta (bls. 20–21). Höfundur fyrri hluta verksins, Sigríður K.
Þorgrímsdóttir sagnfræðingur, víkur þar að mínu nafni sérstaklega
en ég tók sæti í þeirri ríkisstjórn. Fer höfundurinn síðan með ranga
staðhæfingu þar að lútandi. Þá skýrir höfundur einnig rangt frá vali
ráðherra í þingflokki sjálfstæðismanna.
Á bls. 20 í ritinu segir höfundur eftirfarandi: „Ef marka má um-
fjöllun fjölmiðla var Matthías Á. Mathiesen stífur á því að halda
ráðherrastólnum.“ Síðan staðhæfir höfundur og bætir við „og hót-
aði stríði ef ekki fengist“. Þessi skrif koma mjög á óvart þar sem
Þorsteinn Pálsson, þá nýorðinn forsætisráðherra, hafði í viðtali við
Árna Þórarinsson, ritstjóra tímaritsins Mannlífs, í september 1987
gert grein fyrir stjórnarmyndun sinni.2 Í þessu ýtarlega viðtali, sem
birtist tveimur mánuðum eftir að Þorsteinn Pálsson tók við embætti
forsætisráðherra, er m.a. fjallað um aðdraganda stjórnarmyndunar-
innar 1987, ráðherraskiptin og val á ráðherrum Sjálfstæðisflokksins.
Tvímælalaust hefur Þorsteinn viljað í þessu viðtali skýra sjálfur frá
gangi mála fyrir sagnaritun síðari tíma enda hann sá sem gerst
þekkti. Fram kemur að Sigríður K. Þorgrímsdóttir hafði viðtalið við
höndina við ritun verksins og vísar til þess í heimildaskrá.
Saga XLIII:2 (2005), bls. 137–139.
1 Sigríður K. Þorgrímsdóttir og Jakob F. Ásgeirsson, Stjórnarráð Íslands
1964–2004 III. Saga ríkisstjórna og helstu framkvæmdir 1983–2004. Ritstj. Sumar-
liði R. Ísleifsson. Ritnefnd: Björn Bjarnason (form.), Heimir Þorleifsson og Ólaf-
ur Ásgeirsson (Reykjavík 2004).
2 „Ævintýri á pólitískri gönguför,“ Mannlíf 4. árg. 7. tbl. (1987), bls. 8–20.
Saga haust 2005-NOTA 23.11.2005 20:10 Page 137