Vera - 01.08.2003, Qupperneq 40
1. Amal, önnur frá
hægri, með
skólasystrum heima í
Palestínu.
2. í fjölskylduveislu
að gæða sér á
ávöxtum jarðarinnar.
3. Stolt með riffilinn í
brúðkaupsveislu í
Jerúsalem.
'l'
Það er sérkennileg reynsla fyrir ofverndaðan og
fúllyndan íslending að sitja og tala við Amal Tamimi,
þessa glaðlyndu konu sem hefur upplifað svo margt,
sigrast á svo mörgu og sætt sig við svo margt.
Amal er lífsgleðin uppmáluð og hún er sérlega
lunkin við að koma auga á spaugilegri hliðar
tilverunnar. Hún hlær mikið meðan hún leyfir mér að
spyrja sig að öllu sem mig langar að vita og hún svarar
greiðlega á fínustu íslensku. Þegar ég geng inn í eldhús
til þess að þiggja hjá henni kaffisopa verður fyrir mér
stækkuð ljósmynd á vegg. Á henni ber ég kennsl á
viðmælanda minn í stórum hópi karlmanna og hún
heldur á byssu sem er sko ekki nein dömuleg
skammbyssa. Ef mér skjöplast ekki er þetta
hríðskotariffill, en fólkið er allt glaðlegt á svip og virðist
vera að skemmta sér. Amal segir mér að myndin sé
tekin í brúðkaupi í Jerúsalem fyrir mörgum árum en
nefnir ekki hvað hún sé að gera með þetta
þungavigtarskotvopn í höndunum, ekki frekar en að
hún haldi á dömulegu veski í stíl við sætan sparikjól.
Amal er fædd í Jerúsalem, borginni þar sem Kristur
var líflátinn. Það er óþarfi að vera sérfræðingur í trúar-
bragðasögu eða alþjóðastjórnmálum til þess að vita að
hin sögufræga Jerúsalem er ein helgasta borg þriggja af
útbreiddustu trúarbrögðum heims; kristni, íslam og
Gyðingdóms. Þau sem hafa litið með öðru auganu á
fréttir síðustu áratugi hafa líka varla komist hjá því að
heyra af sífelldum átökum þeirra sem kenna sig annars
vegar við ísrael og hins vegar við Palestínu, þó ekki viti
allir nákvæmlega um hvað þau átök snúast. Þrátt fyrir
margfalda helgi borgarinnar logar þar allt í illdeilum
sem hvergi sér fyrir endann á.
Amal þekkir ágreiningsefnin, stöðuga baráttuna og
ólseigt hatrið milli hennar fólks og óvinanna allt of vel
enda er hún alin upp í hringiðu þessara átaka frá blautu
barnsbeini og hefur sjálf barist fyrir málstaðinn. Stærstu
ógninni kynntist hún þó ekki fyrr en hún gekk í
hjónaband en þá barðist hún fyrir tilveru sinni á
hverjum degi.
Amal er vissulega fædd múslimi en hún segist ekki
vera góður múslimi. Góðir múslimar eru samkvæmt
henni þau sem hegða sér á þann hátt sem Kóraninn segir
MÚSUMAKONUR ÞURFA AÐ BERJAST ALLA ÆVI FYRIR
ÞVÍ AÐ FÁ AÐ VERA MANNESKJUR. SUMAR ERU ÞÓ
SÁTTAR VIÐ AÐ LÍF ÞEIRRA SÉ BÚIÐ ÞEGAR ÞÆR
GIFTA SIG, EN MÉR ÞÓTTU SEXTÁN ÁR VERA ANSI
STUTT LÍF
til um; biðja fimm sinnum á dag, fasta reglulega og kJæða
sig á ákveðinn máta. Amal biður aldrei neinar bænir sem
Allah á að heyra og hún minnist þess ekki að hafa heyrt
slíkar bænir eða orðið vitni að föstum á heimili sínu
þegar hún var að alast upp. „Mamma mín bað stundum
þegar eitthvað var að eða þegar hana vantaði eitthvað en
pabbi var ekki trúaður. Hann lést þegar ég var níu ára og
þegar hann lá banaleguna kom trúleysi hans berlega í
ljós. Velviljað fólk kom til hans í hrönnum og hvatti hann
til að biðja, en hann hló bara að því. Löngu eftir að hann
dó áttaði ég mig á því að hann hafði verið kommúnisti og
það skýrði málin töluvert.“
Amal heldur áfram að tala um foreldra sína og segir að
hið æðsta sem múslimakonan getur tekið sér fyrir hendur
í lífinu sé að vera heima, eignast börn, elda, taka til og
vera manni sínum þóknanleg á alla lund. „Mamma var
góð múslimakona að því leyti að hún gerði allt sem
karlmennirnir í fjölskyldunni sögðu henni að gera. Fyrst
pabbi hennar og svo pabbi minn. Hinsvegar hafði hún
ekki mjög sterkan karakter en það þykir aukaatriði þegar
rætt er um konur þar sem ég ólst upp.“
Eins og algengt er í Arabalöndum giftist Amal ung,
ekki nema sextán ára. Þegar ég áræði að spyrja hvort
hún hafi gift sig vegna þess að hún hafi verið ástfangin,
gellur í unglingsdóttur hennar sem er að sýsla inn í
stofu: „You wish!“ með þeim tóni sem einkennir
unglinga sem sletta ensku. Svo reka mæðgurnar upp
rokna hlátur.
„Nei, það virkar ekki þannig á mínum heima-
slóðum,“ segir Amal. „Þetta er val fjölskyldna fremur en
einstaklinga. Fjölskylda mannsins míns kom auga á mig
og þótti ég falleg. Þá var móðir mín spurð hvort ég gæti
elcki hugsað mér að giftast honum og þegar hún hafði
rætt við fjölskylduna var það borið undir mig. Eg
samþykkti vegna þess að hinn tilvonandi eiginmaður
var hetja í mínum augum. Hann var blaðamaður og
starfaði á vinstrisinnuðu málgagni Palestínuaraba sem
Israelsmenn telja verulega ógn við ríki Israels. Nokkrum
sinnum sat hann í fangelsi bara fyrir þá sök að starfa þar
en líka fyrir það sem hann skrifaði. Slíkir menn eru
álitnir frelsishetjur Palestínuaraba. Ég var sextán ára
þegar við giftum okkur en hann tíu árum eldri en ég.“
Amal segir að fjölskyldan hugsi fyrst og fremst um hag
dætranna og þess vegna megi ekki vera neitt sjáanlegt að
manninum sem valinn er handa þeim. Hann verður að
stunda sína vinnu og má ekki vera neinn vandræðapési.
Að ákveða hver er vandræðapési og hver ekki er þó alfarið
í höndum foreldranna. Þeir makka sín á milli áður en
ráðahagurinn er borinn undir afkvæmin."
Amal var gift manni sínum í sautján ár og eignaðist
með honum fimrn börn. Þegar hún var tuttugu og fimm
ára voru börnin orðin fjögur. Þetta þykir alvanalegt í
40/4. tbl. /2003 /vera